Fara á efnissvæði

Góð samskipti

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Góð samskipti eru lykill að jákvæðum tengslum sem gefa lífinu gleði og innihald. Samskiptafærni er því afar mikilvæg þegar kemur að samstarfi, ástarsamböndum, uppeldi og öllu því sem við kemur mannlegum tengslum. Þar skiptir miklu að geta sett sig í spor annarra, geta leyst ágreining með farsælum hætti, fundið lausnir og náð málamiðlun. Í góðum samskiptum er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Skiptumst á að tala
  • Hlustum með athygli á aðra
  • Grípum ekki fram í fyrir öðrum
  • Verum skýr og segjum það sem okkur finnst
  • Virðum skoðanir annarra
  • Sýnum tillitssemi

Forðumst niðrandi talsmáta, ásakanir, uppnefningar, að grípa fram í og setja viðmælanda afarkosti.

„Samskiptaboðorðin“ voru sett fram í því skyni að efla jákvæð samskipti milli foreldra og barna. Þau reynast þó í aðalatriðum jafn gild fyrir samskipti fullorðinna, enda lúta mannleg samskipti sömu lögmálum hvort sem um ræðir unga eða aldna. Öllum finnst okkur mikilvægt að borin sé virðing fyrir okkur, að hlustað sé á okkur, að fá hrós og viðurkenningu og að okkur sé mætt með velvild og skilningi. 

Hér má lesa nánar um samskiptaboðorðin. Þrátt fyrir að þarna sé talað sérstaklega um börn er þetta eitthvað sem má heimfæra og aðlaga að flestum samskiptum:

Horfa - náðu blíðu augnsambandi

Horft er af einlægni í augu barnsins, augnsambandi náð og barninu sýnd sú virðing að hinn fullorðni staðsetur sig í svipaðri hæð og barnið, það er krýpur eða situr til að jafnvægi komist á í samskiptunum. Að viðhalda augnsambandi í samskiptum við barn er nauðsynlegur þáttur í að koma á trausti, gefur til kynna áhuga á barninu og hefur úrslitaþýðingu í að byggja upp góð tjáskipti við barn.

Heilsa - einbeittu þér að barninu og brostu með augunum

Hinn fullorðni leggur sig fram um að einbeita sér eingöngu að barninu um leið og því er heilsað. Þannig er barninu sýnd umhyggja með því að hafa frumkvæði að því að heilsa því. Þetta hefur þau áhrif að barnið upplifir sig mikilvægt sem aftur eflir sjálfstraust þess. Þar að auki túlkar barnið móttökurnar þannig að það sé boðið velkomið, að tilvera þess skipti máli um leið og það finnur fyrir öryggiskennd.

Hlusta - túlkaðu skilaboðin sem barnið sendir

Ekki er eingöngu hlustað á orðin sem barnið segir, heldur einnig hvernig barnið tjáir sig og lögð áhersla á að túlka hegðun og atferli þess. Barnið fær óskipta, einlæga athygli þess fullorðna sem reynir að setja sig í spor þess. Hinn fullorðni beitir virkri hlustun í samskiptum við barnið sem er mikilvægur þáttur í þróun sterkrar sjálfsmyndar þess.

Með því að sýna barni athygli, hlusta á og túlka orðin sem það segir og sýna því einlægan áhuga án þess að dæma, eflist sjálfsvirðing barnsins um leið og það lærir að bera virðingu fyrir öðrum.

Auk þess að nota virka hlustun, endurspeglar hinn fullorðni það sem barnið er að tjá með því að endurtaka og gefa tilfinningum þess og líðan nafn og þannig lærir barnið að þekkja og tjá tilfinningar sínar.

Hljóma - talaðu með hlýlegum tón

Það er ekki sama hvernig blæbrigðum og tónum raddarinnar er beitt í samskiptum við barn. Löngu áður en barn skilur orðin sem töluð eru til þess, leggur það skilning í þann raddblæ sem beitt er. Því skal leggja áherslu á að hækka ekki róminn og tala ekki niður til barns að tala við það á uppbyggjandi og hlýlegan hátt því jákvæður raddblær, orðfar og framkoma fullorðinna gagnvart barni leiðir ásamt virkri hlustun til aukinnar sjálfsvirðingar og vellíðunar þess.

Hrósa - fyrir jákvæða hegðun og framkomu

Barninu er hrósað einlæglega fyrir jákvæða hegðun og framkomu fyrirvaralaust, til dæmis fyrir að hjálpa til á heimilinu, vera duglegt að hjálpa vini sínum eða fyrir að taka með sér öll gögn í skólann. Að hrósa barni fyrirvaralaust leiðir til aukins sjálfstrausts barnsins og hefur að auki þann ávinning að auka líkur á áframhaldandi jákvæðri og uppbyggilegri hegðun.

Hjálpa - vertu til staðar þegar barnið þarfnast þín

Fullorðnir eiga að vera til staðar þegar barn þarfnast hjálpar, eiga að koma auga á barn sem er hjálparþurfi og bregðast við þörfum þess á jákvæðan hátt. Það leiðir til þess að barnið upplifir öryggiskennd og traust í samskiptum sem byggja á samkennd og umhyggju fullorðins einstaklings gagnvart barni. Þegar sá sem hefur vald yfir einstaklingi sýnir vald sitt á jafnræðisgrunni, leiðir það til þess að hinn valdalausi upplifir uppbyggilegt hjálparsamband sem byggist á umhyggju, gagnkvæmu trausti og öryggi.

Stór hluti barna eru alin upp af foreldrum sem búa ekki saman. Félagsmálaráðuneytið hefur fjármagnað gagnreynd netnámskeið sem eru fólki að kostnaðarlausu og aðstoða fólk við að vera í samvinnu eftir skilnað - barnanna vegna. Þau nýtast einnig vel fyrir fólk í öðrum aðstæðum til að bæta samvinnu foreldra.