Fara á efnissvæði

Hollari hugmyndir

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Það tekur tíma að breyta um mataræði og mörgum reynist betra að breyta smám saman yfir í hollari kost. Hér eru nokkrar hugmyndir um það hvernig þú getur breytt yfir í hollari mat án mikillar fyrirhafnar. Þú getur valið þér efnisflokk til að byrja á. Hér er að finna góð ráð til þeirra sem breyta vilja heilsuhegðun sinni. Það er einfalt að velja hollara með því að velja matvörur merktar Skráargatinu

Skráargatið - Einfaldara að velja hollara
Brauð og kornvörur

Veldu gróf heilkorna brauð í staðinn fyrir hvít og milligróf brauð. Brauð sem eru merkt með Skráargatinu eru yfirleitt grófari og innihalda minna salt en sambærileg brauð.

Veldu bygg, hýðishrísgrjón og heilkornapasta í stað fínunninni vara sem meðlæti með mat.
Skráargatið

Ostur

Veldu fituminni ost, t.d. 17% ost og smurost, í stað feitari tegunda. Ef fæðið er að öðru leyti í samræmi við ráðleggingar um mataræði er rúm fyrir hóflega neyslu feitari osta.

Mjólk

Veldu fjörmjólk, undanrennu eða léttmjólk í stað nýmjólkur til drykkjar. Mundu að vatn er besti drykkurinn við þorsta.

Jógúrt og skyr

Veldu sem oftast fituminni, ósykraðar mjólkurvörur án sætuefna, í staðinn fyrir sykraðar, feitari mjólkurvörur.

Þú getur minnkað sykurneyslu með því að velja markvisst vörur með minni eða engum viðbættum sykri. 

Hér getur þú séð magn af sykri í algengum sýrðum mjólkurvörum.

Olíur

Notaðu jurtaolíur við matargerð og út á salöt, t.d. rapsolíu og ólífuolíu, í staðinn fyrir smjör, smjörlíki eða kókosfeiti. Með því að auka hlut mjúkrar fitu á kostnað mettaðrar fitu má draga úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. 

Drykkir

Veldu sem oftast vatn til drykkjar í staðinn fyrir gos-, orku- og svaladrykki.

Orkudrykkir innihalda mikið magn koffíns og ef þess er neytt í miklu magni þá getur það haft ýmis óæskileg áhrif á líðan og heilsu fólks. Það getur t.d. valdið hjartsláttartruflunum, hækkuðum blóðþrýstingi, höfuðverk, svima og haft neikvæð áhrif á svefn. Börn og ungmenni eru almennt viðkvæmari fyrir koffíni en fullorðnir og er neysla koffíns því sérstaklega óæskileg fyrir þann hóp.

Í hálfum lítra af sykruðum gosdrykk eru um það bil 25 sykurmolar eða 50 grömm af sykri en í sama magni af vatni/kolsýrðu vatni er enginn sykur.

Hér getur þú skoðað sykurmagn í gosdrykkjum og svaladrykkjum. 

Morgunkorn

Veldu múslí úr heilkorni með sem minnstum sykri og sömuleiðis morgunkorn í staðinn fyrir fínni og sætari tegundir.

Veldu tegundir sem eru merktar með Skráargatinu því þær tegundir eru yfirleitt grófari og innihalda minni sykur og salt en sambærilegar tegundir.

Snakk

Hefur þú prófað að fá þér hnetur, fræ, grænmeti eða ávexti í staðinn fyrir sælgæti, kökur, kex eða snakk?
Hefurðu prófað ávaxtasalat með hnetum, fræjum eða smávegis af rifnu dökku súkkulaði?
Ef þú borðar snakk veldu þá saltminni tegundir og hafðu skammtinn lítinn.

Salt

Veldu frekar matvæli sem eru nær uppruna sínum því tilbúin matvæli eru yfirleitt saltríkari. Lestu utan á umbúðir matvæla - veldu sem oftast saltminni kostinn.

Takmarkaðu notkun salts við matargerð því fjöldi annarra krydda og kryddjurta getur kitlað bragðlaukana. Ferskar og þurrkaðar jurtir eru bragðmiklar, en athugaðu að kryddblöndur innihalda oft mikið salt.

Veldu skráargatsmerktar vörur því þær innihalda yfirleitt minna salt.

Skráargatið

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína