Fara á efnissvæði

Skráargatið

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Skráargatið er opinbert samnorrænt matvælamerki. Það gerir auðveldara að velja hollari matvörur þegar keypt er inn. Kröfur til matvæla, sem fá merkið, byggjast á viðurkenndum atriðum er snerta samhengi næringar og heilsu. Neytendur geta þá treyst því að vara sem ber merkið sé hollari en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla skilyrði til að bera merkið. Auk þess að vera upplýsandi fyrir neytendur hvetur slíkt merki fyrirtæki sem framleiða matvæli til að þróa hollari vörur.

Matvörur sem bera Skráargatið verða að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi t.d. fitu, sykur, salt, trefjar og heilkorn. Skráargatið auðveldar því valið á hollari matvörum og þar með að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um mataræði og næringarefni.

  • Minni og hollari fita
  • Minni sykur
  • Minna salt
  • Meira af trefjum og heilkorni

Skráargatið var formlega tekið upp á Íslandi þann 13. nóvember 2013 en það hefur verið í notkun í Svíþjóð í tæplega 25 ár. Árið 2009 var merkið formlega tekið upp í Noregi og Danmörku og varð þar með samnorrænt merki. Skilgreiningarnar á bak við Skráargatið voru þróaðar áfram og verða áfram í þróun. Slíkt samstarf er í samræmi við þróunina almennt á sviði næringar í norrænu löndunum. Öll Norðurlöndin eru til að mynda með samnorrænar ráðleggingar um næringu. Ný reglugerð um skilgreiningarnar á bak við Skráargatið tók gildi á árinu 2015. Á Íslandi standa Matvælastofnun og Embætti landlæknis sameiginlega á bak við Skráargatið. Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sjá um að farið sé eftir reglum um notkun merkisins. Framleiðendum er frjálst að nota Skráargatið á þær vörur sem uppfylla skilyrði til að bera merkið.

Íslenska heimasíða skrárgatsins.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína