Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Íþróttakonur - mikilvæg næringarefni

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Íþróttakonur þurfa sérstaklega að huga vel að nægingarþörfum sínum. Tryggja þarf að inntaka orkugefandi næringarefna (kolvetni, fita og prótein) sé í samræmi við þarfir. Einnig skiptir máli að þarfir fyrir vítamín og steinefni séu uppfylltar.

Járn, D-vítamín og kalk eru dæmi um næringarefni sem geta mælst í lágum styrk hjá íþróttakonum. Einföld blóðprufa getur dugað til að skera úr um hvort blóðgildi séu eðlileg. Í tilfellum átraskana og/eða tíðateppu skyldi sérstaklega huga að inntöku D-vítamíns og kalks vegna aukinnar hættu á beinþynningu.

Þrenna íþróttakonunnar

Líkan sem oft er nefnt Þrenna íþróttakonunnar (e. Female athlete triad), lýsir sambandi þriggja þátta:

  • Tiltæk orka
  • Beinheilsa
  • Blæðingar

Hver þessara þátta getur spannað allt frá kjörástandi þar sem beinheilsa er góð, tíðahringur reglulegur og tiltæk orka er næg til óeðlilegs ástands þar sem allir þessir þættir eru í ólagi. Hjá íþróttakonum eru breytingar á tíðahring auk hægari efnaskipta oft eitt af fyrstu merkjum þess að þær fái ekki næga orku. Það næringsrástand getur haft alvarlegar afleiðingar ef ekki er úr því bætt.

Undirstúku-tíðateppa (e. hypothalamic amenorrhea) vísar til þess þegar tauga- og hormónaboð um orkuskort berast til undirstúku heilans. Undirstúkan sér þá til þess að dregið sé úr myndun og seytingu kvenhormóna, svo sem estrógens, sem gerir það að verkum að kona hefur ekki reglulegar blæðingar eða hættir alveg á blæðingum.

Estrógen hefur jafnframt hlutverki að gegna við þroskun og viðhaldi beina. Stöðugt lágt gildi estrógens stuðlar að lægri beinþéttni og eykur líkur á álagsbrotum og snemmbærri beinþynningu. Hafa skal hafa í huga að þau einkenni sem hér er lýst einskorðast ekki einungis við tilfelli átraskana heldur eiga þau sér fleiri mögulegar orsakir.

Röskun tíðahrings - hvað skal gera?

Tíðateppa eða röskun á tíðahring íþróttakvenna ætti í öllum tilfellum að hringja viðvörunarbjöllum. Áður en dregnar eru ályktanir um að um undirstúku-tíðateppu sé að ræða skyldi þó alltaf útiloka aðrar orsakir í samvinnu við lækni eða annað heilbrigðisstarfsfólk.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína