Fara á efnissvæði

Næring 1-2 ára

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Barn á þessum aldri getur borðað venjulegan heimilismat, en ekki er æskilegt að salta matinn né nota kryddblöndur. Mikilvægt að hafa mataræðið fjölbreytt, að velja úr sem flestum fæðuflokkum daglega. 

Mælt er með því að borða fisk 2-3 sinnum í viku. Ein af fiskmáltíðunum ætti að vera feitur fiskur en hann er ríkur af D-vítamíni og löngum ómega-3-fitusýrum. Ráðlagt er að nota olíu við alla matargerð þar sem því verður við komið. Veljið ferskar kjötvörur. Mælt er með því að velja magur kjöt þegar það er í boði. Lifur og lifrarpylsu má gefa í hófi en hvorki á hverjum degi né vikulega. 

Gott er að gefa barni heilkorna trefjarík brauð og hafa hafragraut á boðstólnum, að minnsta kosti suma morgna. Mælt er með því að gefa barni grænmeti og/eða ávexti með öllum mat og einnig milli mála. 

Ef barn er hætt á brjósti er mælt með stoðblöndu, t.d. Stoðmjólk til 2ja ára aldurs. Nota má nýmjólk út á grauta. Takmarkið neyslu á mjólkurafurðum við 500 ml á sólarhring ef barn er ekki á brjósti. Barn á þessum aldri þarf ekki að drekka á nóttunni. Ráðlagt að gefa vatn við þorsta. 

Fituminni vörur henta ekki á þessum aldri (léttmjólk, fjörmjólk, undanrenna, léttjógúrt). Fita er mikilvægur orkugjafi og úr henni fáum við lífsnauðsynlegar fitusýrur (omega 3 og 6) og fituleysin vítamín. 

Oft er erfitt að átta sig á viðbættum sykri í fæðutegundum. Hollara val getur aðstoða þig við það.

D-vítamín

D-vítamín myndast í húðinni fyrir áhrif útfjólublárra geisla sólar. Á Íslandi er myndun D-vítamíns í húð ófullnægjandi yfir vetrarmánuðina.

Til þess að fá nóg D-vítamín yfir vetrarmánuðina er nauðsynlegt að taka inn D-vítamín sérstaklega sem fæðubótarefni, annaðhvort lýsi eða D-vítamíntöflur. Gefið barni eina teskeið af Krakkalýsi (5 ml) eða D-vítamíndropa. 

Lágt gildi D-vítamíns í blóði samhliða lítilli kalkneyslu tengist minni beinþéttni, minni lífslíkum og auknum líkum á byltum hjá öldruðum. Vísbendingar eru um að lélegur D-vítamínhagur tengist auknum líkum á hjarta- og æðasjúkdómum og einnig fáeinum tegundum krabbameina, m.a. ristilkrabbameini.

Hollráð um D-vítamín

  • Taka inn D-vítamín sem fæðubótarefni, annaðhvort lýsi eða D-vítamíntöflur.
  • Nýta sólarljósið þegar færi gefst og njóta þess að vera úti án þess þó að brenna.
  • Borða feitan fisk að minnsta kosti einu sinni í viku. Feitur fiskur er náttúruleg uppspretta D-vítamíns.
  • Neysla á D-vítamínbættum vörum getur stuðlað að bættum D-vítamínhag.
  • D-vítamín er fituleysanlegt vítamín og getur safnast upp í líkamanum. Þess vegna eru gefin út viðmið um efri mörk. Skammta umfram efri mörk ætti aðeins að taka í samráði við lækni. Sjá nánari upplýsingar um D-vítamín á vefsíðu Embættis landlæknis.
Tilbúin ungbarnafæða

Mikið af tilbúnum mat fyrir ungbörn í pökkum, krukkum og pokum (skvísum) er á markaði. Gæðin eru misjöfn og eru foreldrar hvattir til að kynna sér innihaldslýsingarnar vel.

 

Krukkumatur fyrir ungbörn

Maukaður matur í glerglösum eða krukkum, geta verið ýmist ávaxtamauk, grænmetismauk og blandaðar kjöt- og fiskmáltíðir.

Mauk í krukkum sem er á markaði hérlendis, og er sérstaklega ætlað ungbörnum er hvorki saltað né blandað aukefnum sem hugsanlega gætu skaðað barnið. Það er því engin ástæða til að tortryggja þessar vörur sérstaklega. Næringargildi getur þó verið misjafnt eftir því hvort um ræðir ávaxtamauk, grænmetismauk eða blandaðar máltíðir.

Maukið getur komið sér vel þegar meðan barnið er ekki farið að borða sama mat og fjölskyldan og einnig á ferðalögum. Hins vegar mælir margt á móti því að nota tilbúið mauk alla daga en slíkar vörur eru yfirleitt mikið maukaðar og einhæfar, en fjölbreytt fæði minnkar líkur á matvendni hjá börnum.

 

Pokamatur (skvísur) fyrir ungbörn

Maukaður matur í poka (skvísum) geta verið ýmist ávaxtamauk, grænmetismauk og blandaðar kjöt- og fiskmáltíðir, líkt og maturinn í krukkum. Það sama gildir einnig um næringargildið að það getur verið misjafnt eftir því hvað um ræðir. Ungbörn sem fá ungbarnamat í pokum (skvísum) sjúga hins vegar matinn í sig og fá því minni æfingu í að tyggja og þau upplifa heldur ekki lykt eða útlit matarins. Stór hluti þessara vara er einnig sætur á bragðið sem getur gert það erfiðara að venja barnið á að borða fjölbreyttan mat með alls konar bragði. Því er ekki mælt með að nota mat í pokum (skvísum) nema einstaka sinnum. Þetta á sérstaklega við eftir 8-9 mánaða aldur þegar barnið þarf að læra að borða venjulegan mat og þjálfa sig í að tyggja og kyngja grófari fæðu en er í fíngerðu maukinu. 

 

Fingramatur fyrir ungbörn

Mikil aukning hefur orðið í úrvali á fingramat fyrir ungbörn á síðustu árum. Með fingramat er átt við tilbúna ungbarnafæðu sem barnið getur sjálft tínt upp í sig, til dæmis litlir bitar, rúllur, stangir, frauð, kex eða snakk. Umbúðir gefa gjarnan til kynna að fingramaturinn sé úr ávöxtum, til dæmis með myndum eða í nafninu (fruit bar, fruit sticks o.s.frv.). Hins vegar innihalda þessar vörur oft ávaxtaþykkni eða ávaxtasafa og eru í flestum tilfellum með mjög hátt kolvetna- og sykurinnihald. Því er ekki mælt með að nota slíkar vörur nema einstaka sinnum.

 

Lágmarksaldur neytenda

Sumar vörur sem staðsettar eru með tilbúnum barnamat í hillum verslana, og í umbúðum sem ætlað er að höfða til lítilla barna, tilgreina ekki lágmarksaldur barna sem varan er ætluð. Aðallega á þetta við um fingramat en einnig sumar tegundir af skvísum. Þessar vörur falla því ekki undir þær reglugerðir sem gilda um tilbúna fæðu fyrir börn undir 3 ára aldri, til dæmis hvað varðar salt- og sykurinnihald. Foreldrar eru því hvattir til að kynna sér innihaldslýsingar vel.

Verum góðar fyrirmyndir

Mælt er með því að fjölskyldan borði saman við matarborðið. Það krefst vinnu og þolinmæði að venja barn á nýjan mat en það getur tekið 8-15 skipti fyrir barn að kynnast nýrri fæðutegund.

Hafið í huga að börn læra það sem fyrir þeim er haft. Verum því góðar fyrirmyndir og reynum að skapa ákveðna ró við matarborðið þegar barn prófar nýjan mat í fyrsta sinn.

Hægt er að bjóða barni nýjan mat sem meðlæti á meðan það er að kynnast matnum. Ekki pína mat í barnið heldur hvetjið það til að smakka. Þvinganir geta ýtt undir matvendni. 

Veitið jákvæðan stuðning og hvatningu og setjið reglur miðað við aldur barns og þroska. Ef barn hefur ekki lyst á matnum á ekki að bjóða því annan mat í staðinn. Mat ætti aldrei að nota í refsiskyni eða til að verðlauna. 

Ljósmóðir í síma 513-1700 alla virka daga milli 10-12