Flestir foreldrar myndu vafalaust kjósa að börn þeirra boðuðu allan mat laus við matvendni. Sumum veður að þeirri ósk sinni en öðrum ekki. Það er hins vegar hægt að vinna markvisst að því að barn læri góða siði í umgengni við mat og minnka líkurnar á matvendni en til þess þarf einbeittan vilja og þeir sem annast barnið verða að vera samtaka í því verkefni. Mikilvægt er að muna að börn eru ólík að eðlisfari og það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum. Foreldrar þurfa að læra á börnin sín og vinna með þeim út frá þeirra sérkennum en vera vel meðvitaðir um að:
Fullorðnir ráða: Hvað er í matinn og hvenær er borðað.
Börnin ráða: Hvort þau borða og hversu mikið þau borða.
Tvennt sem einkennir öðru fremur matarsmekk barna
Þau taka sætt bragð fram yfir annað ef það er á boðstólum
Viðbættum sykri og salti er auðvelt að sleppa úr mataræði barna ef það er gert frá byrjun. Hafi þau ekki komist á sæta bragðið er þetta auðvelt. Það er hins vegar hægara sagt en gert að halda sætindum frá barni sem hefur einu sinni fengið að smakka. Matarsmekkur þróast að miklu leyti strax í æsku þannig að auðveldara er að venja á holla fæðu, sérstaklega ávexti, grænmeti og grófmeti á meðan börnin eru ung. Til að minnka líkurnar á matvendni er því um að gera að venja börn á holla fæðu og kenna þeim að njóta ávaxta og grænmetis frá unga aldri í stað sælgætis og sætabrauðs.
Til að þetta takist þurfa allir sem annast barnið að hafa þetta í huga. Það stoðar lítið að foreldrarnir haldi sætindum frá barninu ef það fær sætindi hjá ömmu og afa eða dagforeldri.
Þau eru á varðbergi gagnvart nýjum fæðutegundum
Börn þurfa tíma til að venjast nýjum fæðutegundum. Best er að bera þær fram nokkur skipti í röð, þá er líklegt að barnið fari smám saman að vilja borða þær. Góð leið er að byrja bara á að láta barnið smakka smá og leyfa því að venjast nýrri fæðutegund. Það getur tekið allt upp í 10 skipti að venjast nýrri fæðutegund.
Einfaldir réttir og fáar tegundir falla best að smekk flestra barna. Þannig eru hinir dæmigerðu barnadiskar með þremur hólfum í raun alveg eftir þeirra höfði. Kartöflurnar eða kornmetið á einum stað, kjötið eða fiskurinn á þeim næsta og loks grænmetið eða ávextirnir á þeim þriðja. Það er líka í samræmi við góða og fjölbreytta máltíð og auðvitað má gera það sama á venjulegum diski. Pottréttir og kássur höfða hins vegar síður til barna, þau vilja flest skipulag á disknum þar sem að ólíkar fæðutegundir mega jafnvel ekki snertast! Sum börn elska að hafa matinn stappaðan í snyrtilegri „köku“ á disknum á meðan önnur börn fúlsa við slíku og vilja hafa allt aðskilið. Litirnir og lögunin skipta líka máli þannig að í stað blandaðs grænmetis gæti verið betra að gulu baunirnar séu aðskildar frá þeim grænu, gulræturnar skornar í handhægar langar ræmur en ekki rifnar og þannig mætti lengi telja. Hugmyndaflugið er kannski best í þeim efnum ásamt því að þekkja barnið og kenjar þess.
Góð leið er að leyfa börnum að taka þátt í matarstússi heimilisins. Leyfa þeim að velja nýja ávexti í innkaupakörfuna og vera með við undirbúninginn í eldhúsinu. Þau yngstu geta t.d. hjálpað til við að þvo grænmeti og ávexti, mótað brauðdeig eða pakkað kartöflum í álpappír til bökunar eða æft sig að telja kartöflurnar í pottinn.
Á vef Embættis landlæknis má finna meira efni um matvendni barna og hagnýtar ráðleggingar.