Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Farsæl pelagjöf

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Hlýja og öryggi á máltíðum er barninu nauðsyn og því skiptir máli að taka barnið í fangið í hvert sinn sem pelinn er gefinn. Ef barnið er látið drekka pelann eitt í vöggunni fer það á mis við þá nærveru og snertingu sem það þarf á að halda til að mynda góð tengsl við foreldra sína. 

Barnið getur drukkið mismikið í hverri gjöf. Ef það þyngist eðlilega þarf það ekki að klára skammtinn sinn. Leyfa þarf barninu að fá hlé af og til og tækifæri til að ropa. Máltíðin getur tekið 15-20 mínútur. Henda skal þeirri mjólk sem barnið nær ekki að klára. 

Þegar barnatennur koma upp þarf að huga að tannhirðu. Í kjölfar tanntöku er mælt með því að draga úr næturgjöfum, hætta að gefa mjólk með pela á nóttunni og gefa vatn að drekka í staðinn. Mælt er með því að venja börn af því að sofna út frá pelagjöf á kvöldin því munnvatnsframleiðsla er í lágmarki að nóttu til sem eykur til muna hættu á tannskemmdum ef tennur eru ekki burstaðar vel áður en farið er að sofa.

Aldrei ætti að gefa barni hreina ávaxtasafa eða aðra sæta drykki í pela, hvorki á nóttu né degi, því að sykurinn skemmir tennurnar og ávaxtasýra eyðir tannglerungi. Mjólk og vatn er það eina sem gefa á börnum að drekka úr pela. Gott er að venja 6 mánaða börn við stútkönnu og 12-18 mánaða börn af pela. 

Hér er að finna leiðbeiningar um umhirðu pela.

 

Ljósmóðir í síma 513-1700 alla virka daga milli 10-12