Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Heilkornavörur minnst 3 á dag

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Heilkorn er mikilvægur hluti af hollu mataræði enda góð uppspretta af mörgum næringarefnum. Til að mynda B-vítamíni, E-vítamíni, járni, sinki ásamt trefjum sem eru nauðsynlegar fyrir heilbrigða meltingu.

Rífleg neysla á heilkorni og heilkornavörum minnkar líkur á sykursýki af tegund 2, hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini í ristli og endaþarmi. Þá tengist neysla á trefjaríkum mat úr jurtaríkinu minni líkum á þyngdaraukningu.

Flestir Íslendingar hefðu heilsufarslegan ávinning af því að auka neyslu á fæðu úr jurtaríkinu. Sem sagt á grænmeti, ávöxtum, berjum, hnetum, baunum, linsum, fræjum og heilkornavörum. Aukin neysla á jurtaafurðum og minni neysla dýraafurða hjálpar einnig til við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og vernda þannig umhverfið. 

Embætti landlæknis gefur út opinberar ráðleggingar um mataræði. Með því að fylgja þeim, borða hollan og fjölbreyttan mat, er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda. Það stuðlar að góðri heilsu og vellíðan.

Það þarf ekki að vera flókið að borða hollan mat. Það er gott að byrja á einu skrefi í einu en litlar breytingar í daglegu lífi geta skipt miklu máli fyrir heilsuna. Til dæmis að velja heilkornavörur í staðinn fyrir fínunnar kornvörur.

Þetta gætu verið fyrstu skrefin í átt að hollari kosti

  • Velja brauð eða aðrar matvörur úr heilkorni að minnsta kosti þrisvar á dag (samsvarar 90 grömmum á dag)
  • Nota heilkorn í bakstur og grauta, til dæmis rúg, bygg, heilhveiti, grófmalað spelt eða hafra
  • Nota bygg, hýðishrísgrjón og heilkornapasta sem meðlæti í stað fínunninna vara
  • Velja kornvörur sem eru merktar með Skráargatinu

Hér getur þú lesið nánar um leiðir til að bæta mataræði þitt.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína