Fara á efnissvæði

Sýklalyfjaónæmi

Kaflar
Útgáfudagur

Uppgötvun sýklalyfja í upphafi 20. aldarinnar er eitt mesta afrek vísindalegrar læknisfræði. Alexander Fleming uppgötvaði  penicillínið árið 1928. Þróun og framleiðslu annarra sýklalyfja næstu áratugina þar á eftir kveikti von um að hægt væri að lækna og jafnvel útrýma mörgum af hættulegustu sjúkdómum heims.

Sýklalyfjaónæmi

Það leið ekki langur tími frá því að notkun sýklalyfja hófst þar til stofnar ónæmra baktería komu fram. Sýklalyfjaónæmi er  þegar bakteríur verða ónæmar fyrir sýklalyfjum sem áður gátu unnið á henni. Þegar baktería er ónæm fyrir fleiri en einu sýklalyfi er hún sögð vera fjölónæm. Meðferð slíkra sýkinga getur verið erfið og jafnvel ómöguleg í einhverjum tilfellum. Útbreiðsla sýklalyfjaónæmis er hraðvaxandi bæði á spítölum eða úti í samfélaginu. Þetta er alvarlegt vandamál sem huga þarf að.

Hvernig verða bakteríur ónæmar fyrir sýklalyfjum?

  • Sýklalyfjaónæmi getur þróast í náttúrunni. Erfðamengi baktería hefur breyst í áranna rás, til dæmis með stökkbreytingum. Afleiðingin er að bakterían þróar með sér ónæmi gegn sýklalyfjum.
  • Ofnotkun eða röng notkun sýklalyfja meðal manna og dýra ýtir undir ónæmismyndun um allan heim. Til dæmis ef hætt er of snemma að nota sýklalyf sem ávísað hefur verið.
  • Umhverfisþættir geta haft áhrif á frekari þróun sýklalyfjaónæmis meðal baktería. Ónæmar bakteríur geta borist í menn með matvælum sem hafa komist í snertingu við vatn eða áburð sem innihélt ónæmar bakteríur.

Sýklalyfjanotkun í landbúnaði

Notkun sýklalyfja er algeng í landbúnaði og fiskeldi. Sýklalyf eru notuð til að stuðla að hraðari vexti, fyrirbyggja sýkingar og til lækningar á sýktum dýrum. Slík ofnotkun hefur mikil áhrif á þróun og útbreiðslu sýklalyfjaónæmis í dýrum jafnt sem mönnum.

Sýklalyfjaónæmir bakteríustofnar geta borist til manna frá dýrum með beinni snertingu eða með neyslu dýraafurða sem eru ekki fulleldaðar eða gerilsneiddar. Jafnframt getur útbreiðsla sýklalyfjaónæmis átt sér stað þegar sýklalyfjaónæmir bakteríustofnar komast út í umhverfið. Þetta getur gerst þegar dýraúrgangur er notaður sem áburður og úrgangur lífvera kemst út í grunnvatnið.

Víða í heiminum er sýklalyfjanotkun dýra meiri en meðal manna, til dæmis er um 80% af sýklalyfjanotkun Bandaríkjamanna bundin við ræktun dýra. Á Íslandi hefur aldrei verið leyfilegt að nota sýklalyf sem vaxtarhvetjandi þátt í dýraeldi. Notkun sýklalyfja í fiskeldi og landbúnaði hér á landi er með því minnsta sem fyrirfinnst í Evrópu og hefur þar með lítil eða engin áhrif á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.