Fara á efnissvæði

Sýklalyf

Kaflar
Útgáfudagur

Sýklalyf eru notuð til meðhöndla bakteríusýkingar og koma þannig í veg fyrir afleiðingar sýkinganna. Þau drepa bakteríurnar eða koma í veg fyrir að þær dreifi sér um líkamann og fjölgi sér.

Sýklalyf eru gagnslaus gegn veirusýkingum og geta í sumum tilvikum valdið aukaverkunum. Algengar veirusýkingar eru til dæmis kvef, inflúensa og venjuleg hálsbólga.

Í mörgum tilvikum ræður ónæmiskerfi líkamans við bakteríusýkingar og óþarfi að gefa sýklalyf.

Sýklalyf eru mörg og af mismunandi toga. Mikilvægt er að lesa fylgiseðil lyfsins vel, fara eftir þeim ráðleggingum sem þar er að finna og fylgja fyrirmælum læknis með lyfjatökuna. Taktu lyfið eins lengi og læknir segir til um eða ljúktu við skammtinn sem var úthlutaður, jafnvel þótt einkenni sýkingarinnar séu ekki lengur til staðar og þú upplifir þig frískan. Annars er hætta á því að sýkingin nái sér upp aftur og að bakteríur myndi ónæmi fyrir lyfinu.

Í sumum tilvikum á að taka lyfin með mat en í öðrum tilvikum má það alls ekki. Mjólkurmatur og steinefnabættur ávaxtasafi dregur úr virkni sumra sýklalyfja en hefur ekki áhrif á önnur. Þá er nauðsynlegt að taka lyfið að minnsta kosti 1 klst. fyrir eða 2 klst. eftir að hafa neytt slíkra drykkja eða mjólkurafurða. Það er því mjög mikilvægt að vera með það á hreinu hvernig ber að hegða sér til að ná sem bestum árangri með lyfjatökunni.

Taktu aldrei lyfseðilsskylt lyf sem ávísað var á einhvern annan en þig. Lyf sem gagnast einum getur verið hættulegt öðrum.

Algengar spurningar

Hvenær er ástæða til að nota sýklalyf?

Læknir metur hvort þörf er fyrir sýklalyfjagjöf. Það er einkum í eftirfarandi tilvikum sem þau eru gefin:

  • Ólíklegt er að ónæmiskerfið ráði við sýkinguna
  • Hætta er á að smita aðra ef sýkingin er ekki meðhöndluð
  • Sýkingin er getur valdið skaða í líkamanum
Af hverju eru sýklalyf ekki alltaf notuð þegar um sýkingar er að ræða?
  • Margar sýkingar eru af völdum veira og sýklalyf því gagnlaus
  • Oft er sýklalyfjagjöf ólíkleg til að flýta fyrir bata en getur valdið aukaverkunum
  • Heilbrigðisyfirvöld um allan heim reyna að minnka notkun sýklalyfja til að freista þess að koma í veg fyrir útbreiðslu bakteríustofna sem eru ónæmir fyrir lyfjunum.
Hvað ef gleymist að taka sýklalyf á réttum tíma?
  • Ef þú gleymir að taka lyfið skaltu taka skammtinn strax og þú manst eftir því og halda svo áfram að taka lyfið eins og lagt var upp með.
  • Ef mjög stutt er í að þú átt að taka næsta skammt skaltu sleppa þeim skammti. Ekki taka tvöfaldan skammt því það getur aukið líkur á aukaverkunum.
Hvað ef ég tek óvart auka skammt?
  • Það er ekki líklegt að það valdi skaða að taka óvart einn aukaskammt af sýklalyfi.
  • Hætta á aukaverkunum eins og kviðverkjum, niðurgangi og ógleði eykst ef aukaskammtur er tekinn.
  • Hafir þú óvart tekið meira en einn aukaskammt eða ef þú finnur fyrir miklum aukaverkunum ættir þú að hafa samband við lækni eða lyfjafræðing eða hringja í heilsugæsluna þína eða vaktsímann 1700 utan opnunartíma.
Hvað er sýklalyfjaónæmi?

Sýklalyfjaónæmi er afleiðing þess þegar bakteríur, sem valda algengum og lífshættulegum sýkingum, verða ónæmar fyrir sýklalyfjum sem áður gátu unnið á tiltekinni bakteríu. Meðferð slíkra sýkinga getur verið erfið og jafnvel ómöguleg í einhverjum tilfellum. 

Meira um sýklalyfjaónæmi.

Aukaverkanir

Sýklalyf geta valdið aukaverkunum eins og öll önnur lyf. Upplýsingar um aukaverkanir má finna í fylgiseðli lyfsins.
Ef þú hefur áhyggjur af aukaverkunum er alltaf hægt að hringja á heilsugæsluna eða í vaktsímann 1700 sem er opinn allan sólarhringinn. Hafi fylgiseðill lyfsins glatast getur þú nálgast hann á serlyfjaskra.is.

Aukaverkanir tengdar meltingarvegi

Algengustu aukaverkanir sýklalyfja tengjast meltingaveginum og koma hjá 10% þeirra sem taka sýklalyf.

  • Uppköst
  • Ógleði
  • Uppþemba og meltingartruflanir
  • Kviðverkir
  • Lystarleysi

Þessar aukaverkanir eru oftast mildar og hverfa þegar lyfjatökunni lýkur.

Til þess að minnka líkurnar á vandamálum frá meltingarvegi getur verið gott að nota góðgerla sem eru meðal annars í AB mjólk, LGG og Acidophilus hylkjum sem fást án lyfseðils í apótekum. Best er að taka góðgerlana á milli sýklalyfjaskammtanna þar sem mjólkurafurðir hafa áhrif á verkun sumra sýklalyfja.

Væg ofnæmiseinkenni

Ofnæmi fyrir sýklalyfjum getur myndast í upphafi meðferðar eða á meðan á henni stendur.

Mjög mikilvægt er að láta lækninn þinn alltaf vita ef þú hefur fengið ofnæmi gegn sýklalyfjum.

Væg ofnæmiseinkenni:
• Kláði
• Roði á húð
• Útbrot
Ef væg ofnæmiseinkenni koma fram er ráðlegt að leita til heilsugæslunnar. Skipta getur þurft um sýklalyf og meðhöndla ofnæmið.

Alvarleg ofnæmiseinkenni
  • Andþyngsl, erfitt að anda
  • Bólga í andliti, vörum, tungu og koki

Hringdu í 112 og leitaðu strax til bráðamóttöku ef alvarleg ofnæmiseinkenni koma fram. Þau geta verið lífshættuleg.

Ljósnæmi

Sumar gerðir sýklalyfja valda því að húðin verður ljósnæmari og er viðkvæm fyrir miklu ljósi eins og beinu sólarljósi eða ljósum í ljósabekkjum. Taktu alvarlega varnaðarorð um það á fylgiseðli lyfsins.