Fara á efnissvæði

Róandi lyf og svefnlyf

Kaflar
Útgáfudagur

Svefn er öllum nauðsyn og mikilvægi þess að hvílast vel óumdeilt. Algengt er að svefn truflist og fólk eigi tímabundið erfitt með svefn. Ef ekki duga almenn ráð til að bæta svefninn getur þurft að grípa inn í með notkun svefnlyfja til að stoppa þann vítahring sem oft skapast. Notkun svefnlyfja ætti alltaf að ræða við lækni og hann þarf að ávísa lyfinu. Aldrei ætti að nota lyf sem ávísað hefur verið á aðra. Læknir metur í hverju tilviki fyrir sig hvort svefnlyfjagjöf gagnast og þá hvaða lyf hentar best.

Þau svefnlyf sem mest eru notuð eru ætluð til skammtímanotkunar í nokkra daga upp í 4 vikur en eftir um það bil 4 - 6 vikur hefur líkaminn aðlagast lyfinu og það virkar ekki lengur. Svefnlyf sem tekin eru að staðaldri árum saman eru því ekki gagnleg. En þau geta verið skaðleg.

Lyfin geta haft þau áhrif að:

  • Einbeiting versni
  • Minni verði lakara
  • Þreyta og sleni yfir daginn getur aukist
  • Jafnvægi minnkar og aukið hættu á að detta, sérstaklega hjá öldruðum.

Svefnlyfjanotkun Íslendinga er sú mesta á Norðurlöndum sem er áhyggjuefni. 

Eftir langtímanotkun getur verið erfitt að hætta notkun svefnlyfja vegna fráhvarfseinkenna sem koma þegar notkuninni er hætt. Heilbrigðisstarfsfólk heilsugæslunnar eða á netspjalli á heilsuvera.is getur aðstoðað ef ætlunin er að hætta svefnlyfjnotkun eftir langvarandi notkun.

Áður en byrjað er að nota róandi og svefnlyf

Áður en byrjað er á meðferð með svefn og róandi lyfjum er þarf að hafa eftirfarandi hugfast:

  • Að lyfið er notað í skamman tíma ásamt öðrum sjálfshjálparúrræðum. Auk þess er gerð áætlun um niðurtröppun í upphafi lyfjameðferðar. 
  • Hver áhætta er af lyfjameðferðinni , þ.m.t. slævandi áhrif á miðtaugakerfi, höfgi („timburmenn“), óstöðugleiki (byltuhætta), minni einbeiting, áhrif á minni, þolmyndun, ávanabinding og fráhvörf. 
  • Langtímanotkun svefn og róandi lyfja geta leitt til ýmissa vandamála og aukið hættu á  dauðsföllum:  
    • Slæving (sljóleiki) vegna langtímanotkunar getur aukið hættu á byltum, umferðaslysum og slysum í heimahúsi. 
    • Eitrun vegna ofskömmtunar getur leitt til aukinnar hættu á dauðsföllum.
  • Langtímanotkun svefnlyfja og róandi lyfja  (lengur en í 4 vikur) getur leitt til: 
    • Þolmyndunar – hærri skammt þarf til að ná áhrifum 
    • Ávanahættu – fólki  finnst það þurfa  á lyfinu að halda til að geta sinnt daglegum stöfum.  Fráhvarfseinkenni geta koma fram þegar lyfjameðferð er hætt eða skammtur lækkaður. 
  • Ráðgjöf um akstur ökutækja er mikilvæg þegar þú ert á þessum lyfjum. 
  • Varast  þarf mögulegar aukaverkanir ef áfengi eða önnur slævandi lyf eru notuð með þessum lyfjum.
Er róandi og svefnlyfið mitt hættulegt?

Sjáir þú nafnið á þínu lyfi á þessum lista:  

  • Alprazólam (Tafil) 
  • Brómazepam (Broman) 
  • Klórdíazepoxíð (Librax, Risolid) 
  • Klónazepam (Rivotril) 
  • Díazepam (Stesolid)  
  • Flúnítrazepam (Rohypnol)  
  • Flúrazepam (Dalmadorm) 
  • Nítrazepam (Mogadon) 
  • Oxazepam (Sobril) 
  • Tríazólam (Halcion) 
  • Zolpídem (Stilnoct, Zovand) 

er gott að vera vakandi yfir eftirfarandi þáttum:  

  • Svefnlyfið eða róandi lyfið sem þú tekur reglulega er ekki hættulaust, þótt læknir hafi skrifað það út og þú eigir að vera á því samkvæmt læknisráði. Engin lyf eru hættulaus.  
  • Að taka róandi lyf og svefnlyf í bland við fíkniefni, áfengi eða sterk verkjalyf getur aukið hættu á dauðsföllum vegna slævandi áhrifa á öndun.
  • Þótt þú farir nákvæmlega eftir fyrirmælum læknis varðandi skammtastærðir þá er hætta á ofskömmtun. Fólk þolir mismikið af sterkum lyfjum.  
  • Hærri skammtar af róandi lyfjum eða svefnlyfjum bæta sjaldan svefn en geta hins vegar haft lífshættulegar afleiðingar.
  • Það er margt annað til en róandi lyf og svefnlyf til að bæta svefn og lífsgæði. Ræddu við heilbrigðisstarfsfólk á heilsugæslunni um öruggari leiðir til að vinna á þínum vandamálum.
  • Að þróa eigin bjargráð og læra þekktar aðferðir getur verið raunhæf leið til að bæta svefn og lífsgæði.    
  • Til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar af notkun róandi lyfja eða svefnlyfja þarf að fylgja vel eftir langtímameðferð. 
Aukaverkanir róandi og svefnlyfja

Þessi lyf geta haft góða verkun til skamms tíma en meðferð við kvíða og svefnleysi eingöngu með róandi- og svefnlyfjum gagnast ekki vel. Lyfin fela einkennin án þess að leysa undirliggjandi vandamál. Gott er að skoða betri leiðir til að bæta svefn og draga úr streitu.    

Þó þú takir róandi- eða svefnlyf aðeins í litlum skömmtum getur það haft slæmar aukaverkanir þar sem þau hafa áhrif á heilastarfsemina og hægja á taugaviðbrögðum. Þekktar aukaverkanir svefn- og róandi lyfja: 

  • Áhrif á minni fólks og einbeitingu. 
  • Aukin þreyta og syfja yfir daginn.
  • Byltuhætta.
  • Slysahætta á heimili og í umferðinni.
  • Þvagleki.

Hér má sjá nánari upplýsingar um aukaverkanir lyfja.

Þú getur ráðfært þig við heilbrigðisstarfsfólk á heilsugæslunni um betri leiðir til að bæta svefninn.

Að draga úr notkun róandi og svefnlyfja

Líkaminn getur orðið háður og myndað fíkn í þessi lyf. Ef töku er hætt skyndilega gæti það valdið óþægilegum fráhvarfseinkennum, t.d. verri svefntruflunum og auknum kvíða. Mikilvægt er að draga úr notkun lyfjanna hægt og rólega ásamt því að finna aðrar leiðir til að fást við svefnleysið og kvíðann. 

Hafir þú áhuga á að draga úr lyfjanotkun þinni og trappa þig niður þá er mikilvægt að staðið sé rétt að því. Heilbrigðisstarfsfólk heilsugæslunnar getur ráðlagt fólki áður en það hættir lyfjatöku. 

Aðrar leiðir til ná tökum á svefnleysi
  • Fara á fætur á morgnana og í rúmið á kvöldin á sama tíma á hverjum degi. 
  • Gera nokkrar djúpöndunar- eða slökunaræfingar áður en þú ferð í háttinn. 
  • Stunda daglegar líkamsæfingar en ekki síðustu þrjá tímana fyrir svefninn. 
  • Lesa og horfa á sjónvarp í stól eða sófanum frekar en í rúminu. 
  • Reyna að forðast efni sem kunna að halda fyrir þér vöku. Meðal þeirra eru koffín, áfengi, tóbak eða aðrar afurðir sem innihalda nikótín. 
  • Styðjast við svefndagbók til að gera þér betur grein fyrir því hvað truflar svefn þinn. Önnur einföld ráð má finna á heilsuvera.is. Þar má einnig nálgast upplýsingar um hugræna atferlismeðferð (HAM). Slíka meðferð veita m.a. sálfræðingar á stofu eða í gegnum internetið.
Aðrar leiðir til að draga úr streitu og kvíða
  • Reynst hefur fólki gagnlegt að taka þátt í stuðningshópi eða tala við meðferðaraðila um að finna lausn á streituvaldandi aðstæðum og kvíða. 
  • Slökunaraðferðir eins og teygjur, jóga, nudd, hugleiðsla eða tai chi geta auðveldað þér að létta á hversdagsstreitu og vinna á kvíðanum. 
  • Heimilislæknir getur ráðlagt þér frekar með önnur lyf við kvíða sem hafa minni aukaverkanir en þau sem þú tekur.