Oft getur reynst erfitt á átta sig á hver er munurinn á lyfi, náttúrulyfi og náttúruvöru þar sem mikill hluti lyfja kemur frá náttúrunnar hendi. Talið er að minnsta kosti þriðjungur hefðbundinna lyfja á markaði í dag eigi fyrirmynd sína að rekja til efna sem finnast í náttúrunni.
Ólíkt því sem gildir um lyf eru náttúrulyf unnin á einfaldan hátt úr jurtum, dýrum, örverum, steinefnum eða söltum. Þau innihalda oft fleiri en eitt efni. Þau eru gjarnan unnin með því að þurrka, mala, úthluta eða pressa.
Skipta má náttúrulyfjum í tvo flokka
- Náttúrulyf sem sýnt hefur verið fram á að virki gegn ákveðnum sjúkdómi. Ekkert slíkt lyf er skráð á Íslandi í dag.
- Söguleg hefð er fyrir notkun náttúrulyfsins. Þá hefur náttúrulyfið verið notað það lengi að talið er að það sé öruggt til notkunar. Þrjú slík náttúrulyf, öll jurtalyf, eru skráð á Íslandi en þau heita Lyngonia og Harpatinum. Eftirlit þeirra er í höndum Lyfjastofnunar.
Um náttúrulyf gildir
- Þau mega aðeins vera til inntöku eins og töflur eða duft, eða staðbundnar notkunar á húð eins og krem eða smyrsli
- Skammtastærðirnar eru staðlaðar
- Innihaldið er þekkt
- Sýna þarf fram á að framleiðslan uppfylli gæðakröfur
Náttúruvörur
Náttúruvörur eru oft flóknar blöndur efna. Þær eru flokkaðar í sama flokk og fæðubótarefni. Náttúruvörur geta innihaldið náttúruefni og önnur efni eins og vítamín, steinefni og amínósýrur. Eins og með náttúrulyfið þá er framleiðslan einföld. Innihaldið er hins vegar ekki þekkt og því ekki vitað almennilega hvað er í vörunni eða í hversu miklu magni. Engar kröfur eru gerðar um rannsóknir eða að sýnt sé fram á að efnið virki við ákveðnum einkennum, sé öruggt né að framleiðslugæðin séu tryggð. Segja má að allri ábyrgð sé varpað yfir á neytendur. Eftirlitið er í höndum Matvælastofnunar en ekki Lyfjastofnunar líkt og með náttúrulyf og lyf.
Hafa ber í huga að bæði náttúrulyf og náttúruvörur geta haft áhrif á verkun annarra lyfja. Þeir sem taka önnur lyf ætti því að varast notkun þeirra, sérstaklega þegar um náttúruvöru er að ræða. Ástæðan fyrir því er líkt og áður hefur komið fram að ekki er alltaf vitað hvaða efni eru í vörunni og eins í hversu miklu magni. Gögn um öryggi náttúruvara liggja því ekki fyrir og af því leiðir að áhættan við að nota þau vegur oft mun meira en hugsanlegur ávinningur. Þungaðar konur, börn, aldraðir og einstaklingar á öðrum lyfjum ættu því að forðast notkun náttúruvara.
Aukaverkanir
Ef einhverjar aukaverkanir koma fram við notkun náttúrulyfja eða náttúruvara líkt og kláði, útbrot, magaóþægindi og höfuðverkur skal hætta inntöku vörunnar strax. Ef einkennin eru mikil eða langvarandi skal hafa samband við lækni eða lyfjafræðing.