Fara á efnissvæði Hvað er lyf? | Heilsuvera
Fara á efnissvæði

Hvað er lyf?

Kaflar
Útgáfudagur

Til þess að skilgreina lyf er best að líta til framleiðsluferlisins og þess öryggis sem krafist er af lyfjum.

Um lyf gildir

  • Þau innihalda aðeins þekkt tiltekin efni og hafa skilgreint innihald.
  • Eru ætluð fólki eða dýrum til að fyrirbyggja, greina, meðhöndla eða lækna sjúkdóma, sjúkdómseinkenni og verki eða til að hafa áhrif á líkamsstarfsemi.
  • Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að lyf virki við ofangreindum þáttum og séu örugg í venjulegum skömmtum.
  • Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á lyfinu en lyf eru skráð hjá Lyfjastofnun sem hefur eftirlit með gæðum þeirra:
    • Vitað er nákvæmlega hversu mikið af virka efninu er í hverju lyfi.
    • Aukaverkanir og milliverkanir lyfsins eru þekktar.
    • Vitað er í hvaða aðstæðum alls ekki megi nota tiltekið lyf.
    • Öryggi lyfsins er þekkt og vel skráð.
    • Framleiðslan er undir ströngu gæðaeftirliti.
  • Til eru mismunandi lyfjaform og eru því til ýmsar leiðir til að gefa lyf.
    • Lyf eru til inntöku um munn svo sem töflur, hylki eða vökvi.
    • Með sprautu í æð, vöðva eða undir húð.
    • Sem áburður eða smyrsli á viðkomandi svæði, t.d. á húðina eða í augun, eyrun, á stílaformi í endaþarm eða leggöng.
    • Með nefúða í nef eða sem innöndunarduft í lungu.
  • Lyf eru seld í lyfjabúðum. Hluti þeirra er seldur í lausasölu en flest lyf er aðeins hægt að kaupa með ávísun frá lækni. Lyf í lausasölu má ekki hafa í sjálfsafgreiðslu heldur þarf afgreiðslufólk lyfjabúða að afgreiða þau. Hægt er að finna hvaða lyf eru seld í lausasölu á Sérlyfjaskrá.

Ef einhverjar aukaverkanir koma fram við lyfjatöku er rétt að hafa samband við lækni eða lyfjafræðing.

Ef afgangur verður af lyfi þarf að farga honum. Öllum lyfjaafgöngum á að skila í glærum poka í lyfjaverslun. Sjá nánar um förgun lyfja.

Nánar má lesa um lyf á vef Lyfjastofnunar.

Frumlyf eða samheitalyf

Það er algengt að lyf hafi tvö nöfn. Annað nafnið gefur fyrirtækið lyfinu en hitt nafnið er heitið á virka efninu í lyfinu. Dæmi: Kaleorid, en virka efnið í því lyfi er kalíumklóríð. 

Lyfjafyrirtækið sem þróaði lyfið og kom því á markað hefur einkaleyfi á því. Þegar einkaleyfið rennur út geta aðrir lyfjaframleiðendur líka framleitt og selt lyfið, jafnvel undir öðru nafni en virka efnið er alltaf það sama og í upprunalega lyfinu en hjálparefni geta verið önnur. Því er það sem talað er um samheitalyf þegar annað lyfjafyrirtæki en það sem hafði einkaleyfið framleiðir lyfið.   

Samheitalyf eru mikið notuð enda eru þau lyf oft ódýrari en frumlyfin. Þau innihalda sama virka efnið og upprunalega frumlyfið og eru til í sama styrkleika og skammtastærðum.