Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hvað er góð geðheilsa?

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Góð geðheilsa felst ekki eingöngu í því að vera laus við geðraskanir heldur er um að ræða jákvætt ástand þar sem okkur líður vel og gengur vel. Til eru margar skilgreiningar á góðri geðheilsu en flestar snúa þær að því að fólk sé sátt við sjálft sig og umhverfi sitt, upplifi jafnvægi, öryggi og ánægju af lífi og starfi, búi yfir færni til að takast á við áskoranir lífsins og geti aðlagast breytilegum aðstæðum.

Góð geðheilsa þýðir að okkur líður yfirleitt vel, höfum jákvætt viðhorf til okkar sjálfra og erum fær um að mynda innihaldsrík tengsl við aðra. Við þekkjum eigin styrk- og veikleika og getum nýtt þá til að ná fram því besta í okkur sjálfum. Við þekkjum og viðurkennum eigin tilfinningar, erum fær um að setja okkur í spor annarra og sýna samkennd. Við mætum erfiðleikum af þrautseigju og gefumst ekki upp þótt á móti blási. Við erum fær um að njóta lífsins og finna gleði í því sem lífið hefur upp á að bjóða.

Að vera við góða geðheilsu þýðir þó ekki að líða aldrei illa eða vera laus við öll vandamál. Lífið er ekki eilífur dans á rósum og það er eðlilegt að eiga stundum slæma daga. Það tilheyrir því að vera manneskja. Þegar geðheilsan er góð eigum við þó fleiri góða daga en slæma, erum fær um að herða upp hugann eftir tímabil efasemda, getum tekist á við erfiðleika á uppbyggilegan máta og upplifum ánægju af lífinu þrátt fyrir að vandamál séu til staðar.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína