Geðorðin 10 byggja á gagnreyndum aðferðum til að efla góða geðheilsu og auka vellíðan. Allt eru þetta atriði sem hver og einn getur tileinkað sér og æft sig í ævina á enda. Geðrækt er mikilvægur hluti heilsuræktar enda er engin heilsa án geðheilsu.
Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.
Hugsa jákvætt, það er léttara
- Jákvæð sýn á lífið er undirstaða vellíðanar
- Þó hugsanir geti verið neikvæðar þarf ekki öll tilveran að vera það
- Hægt er að hafa áhrif á líðan með hugarfarinu
Hlúa að því sem þér þykir vænt um
- Ein mikilvægasta uppspretta hamingjunnar eru góð samskipti við aðra
- Að hlúa að því sem okkur þykir vænt um snýst jafnt um ánægju og tilgang í lífinu
- Það er gott að finna að einhver þarf á umhyggju manns að halda
Halda áfram að læra svo lengi sem þú lifir
- Það eykur víðsýni og umburðarlyndi að geta tamið sér nýjungar
- Löngun til að læra meira í dag en í gær stuðlar að persónulegum þroska
- Með opnum huga verður auðveldara að sjá lausnir á vandamálum
Læra af mistökum
- Enginn er fullkominn og öllum verða einhvern tíma á mistök
- Oft er það mikilvægt skref í átt að velgengni að læra af eigin mistökum
- Eitt af því sem greinir þá sem eru hamingjusamir frá þeim sem eru óhamingjusamir er viðhorf þeirra til eigin mistaka og mótlætis í lífinu
Hreyfa sig daglega, það léttir lund
- Regluleg hreyfing er nauðsynleg fyrir geðheilsuna frá vöggu til grafar
- Hreyfing dregur úr þunglyndi og kvíða og bætir andlega líðan
- Regluleg hreyfing stuðlar að hamingjusömum efri árum
Flækja ekki líf þitt að óþörfu
- Mikilvægt er að þekkja hvaða flækjur valda streitu og vanlíðan og forðast þær
- Áhyggjur yfir því ókomna hjálpa ekki nema síður sé
- Gott er að þjálfa sig í því að útiloka neikvæð áhrif frá umhverfinu
Reyna að skilja og hvetja aðra í kringum þig
- Farsælt er að reyna að skilja af hverju fólk hagar sér eins og það gerir
- Hlustum vel á aðra og grípum ekki fram í
- Hrós og hvatning hafa góð áhrif á samskipti
Gefast ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup
- Góðir hlutir gerast hægt
- Það er mikilvægt að gefast ekki upp þó á móti blási
- Velgengni í lífinu næst með því að taka á mótlætinu og leyfa því að þroska sig
Finna og rækta hæfileika
- Allir búa yfir einhverjum hæfileikum
- Hver og einn þarf að finna og meta sína hæfileika og leyfa þeim að njóta sín
- Eitt af lykilatriðum hamingjunnar er að hafa gaman af viðfangsefnum hversdagsins
Setja þér markmið og láta drauma þína rætast
- Þeir ná lengra sem setja sér markmið
- Markmið mega vera stór eða smá og ná til lengri eða skemmri tíma
- Það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast – en það gerist ekki nema unnið sé að því