Margar aðstæður í daglegu lífi vekja upp streituviðbrögð án þess að nokkur raunveruleg hætta sé á ferðinni. Sömu aðstæður geta einnig verið streituvaldandi fyrir eina manneskju en ekki aðra. Það eru því ekki endilega aðstæðurnar sjálfar sem vekja streituna heldur hvernig við metum þær og bregðumst við þeim.
Það er ekki endilega ákjósanlegt að vera algerlega laus við streitu. Hófleg streita, sem skerpir athygli að aðkallandi verkefnum án þess að verða yfirþyrmandi, hjálpar okkur að bæta frammistöðu. Gott dæmi um þetta er að taka próf. Ef við erum of afslöppuð er hætta á því að okkur skorti þá einbeitingu og drifkraft sem þarf til að ná sem bestri frammistöðu.
Á hinn bóginn getur of mikil streita verið lamandi, rétt eins og yfirþyrmandi ótti, og orðið til þess að okkur tekst ekki að einbeita okkur eða gera okkar besta.
Markmið streitustjórnunar er ekki að útiloka alla streitu heldur að læra að takast á við hana þannig að hún verði ekki yfirþyrmandi en einnig að forðast aðstæður sem skapa of mikið álag.
Hér eru nokkrar spurningar sem gott er að spyrja sig:
Lít ég á erfiðar aðstæður sem ógn eða áskorun? Hef ég trú á eigin getu til að takast á við vandamál? Gott er að minna sig á öll þau skipti sem þú hefur leyst mál farsællega af hendi og erfiðleikarnir hafa jafnvel styrkt þig. Okkur gengur betur að fást við hlutina ef við miklum þá ekki fyrir okkur heldur göngum örugglega til verks. Flest reynist, þegar allt kemur til alls, viðráðanlegt. Oft er það hugarfar okkar sem er stærsta hindrunin.
Hvaða aðferðir nota ég til að takast á við streitu og álag? Eru þær góðar eða slæmar?
Góðar aðferðir minnka álag, láta okkur líða betur og skaða okkur ekki. Dæmi um slíkar aðferðir er að hreyfa sig, gera raunhæfar tímaáætlanir og verja ánægjulegum stundum með vinum eða fjölskyldu.
Slæmar aðferðir hjálpa okkur e.t.v. að líða betur í skamma stund en draga ekki úr álaginu og skaða okkur jafnvel þegar fram í sækir. Dæmi um slíkar aðferðir er að fresta verkefnum, neyta áfengis eða borða óhollan mat.
Hef ég fólk í kringum mig sem ég get leitað til eftir aðstoð eða stuðningi? Get ég talað við einhvern þegar mér líður illa? Hef ég einhvern til að gera eitthvað skemmtilegt með? Notaðu tengslanetið þitt til góðs.
Allir þurfa á félagslegum stuðningi að halda og það að vita að maður hafi ekki slíkt stuðningsnet getur verið streituvaldandi út af fyrir sig.
Ef þú hefur ekki aðgang að stuðningi og félagsskap skaltu teygja þig út til fólksins í kringum þig og vinna í því að byggja upp tengslanet. Hér má finna ráð til að auka félagslega virkni og draga úr einsemd.
Sumir finna aðallega fyrir líkamlegum einkennum, s.s. mikilli þreytu, vöðvabólgu, höfuðverk eða meltingartruflunum.
Aðrir finna mikið fyrir andlegum einkennum, t.d. kvíða, depurð, pirringi, skort á sjálfstrausti, svefntruflunum.
Yfirleitt upplifum við blöndu af andlegum og líkamlegum einkennum en mikilvægast er að þekkja okkar eigin merki um að streita sé að verða of mikil og beita ráðum til að draga úr henni.