Fara á efnissvæði

Sjálfsmynd barna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Sjálfsmyndin byrjar að þróast snemma enda höfum við samskipti við umheiminnn allt frá fæðingu. Samskipti við aðra eru helstu áhrifavaldar á sjálfsmynd okkar.

Áhrifavaldar á sjálfsmynd barna

Börn læra hvers virði þau eru í gegnum framkomu annarra við þau. Ef þörfum þeirra fyrir ást, umhyggju, vernd, samskipti og vitsmunalega örvun er sinnt vel læra þau að þau séu velkomin í heiminn, þau skipti máli og einhverjum þyki vænt um þau. Skortur á þessu veldur því að börnin læra að þau séu lítils virði, heimurinn sé óöruggur og fólki sé ekki treystandi. Slíkar grundvallarhugmyndir um lífið og tilveruna eru skaðlegar og leggja grunninn að slæmri sjálfsmynd og andlegri vanlíðan síðar á ævinni.

Þegar börn fara að tjá sig meira, prófa sig áfram og verða virkir þátttakendur í umhverfi sínu er sjálfsmynd þeirra styrkt með því að hlustað sé á þau, þeim sé veitt jákvæð athygli, hrósað fyrir það sem vel er gert, þau séu hvött til dáða og búi við öryggi, aðhald og skýr viðmið um æskilega og óæskilega hegðun. Mikilvægt er að börn viti til hvers er ætlast af þeim og hvers þau mega búast við af öðrum.

Hvetja þarf börn til að leysa verkefni og vandamál upp á eigin spýtur í samræmi við þroska og getu en veita þeim stuðning þegar þau þurfa. Heilbrigt sjálfstraust þroskast með því að fá tækifæri til að spreyta sig, gera mistök, læra af þeim, æfa sig og ná betri árangri.

Þættir í bernsku sem stuðla að jákvæðri sjálfsmynd eru til dæmis:

  • Færni og þjálfun
  • Hrós fyrir það sem vel er gert
  • Að vera vel tekið af öðrum
  • Umhyggja
  • Skýr rammi og mörk
  • Að upplifa það að hlustað sé á mann
  • Fá athygli og faðmlög
  • Að upplifa velgengni í íþróttum eða skóla
  • Að eiga trausta vini

Hvernig þróast neikvæð sjálfsmynd?

Meðal þess sem getur ógnað heilbrigðri þróun sjálfsmyndar hjá börnum eru erfið félagsleg staða, óæskilegar uppeldisaðstæður, félagsleg einangrun, einelti og höfnun. Öllum börnum er mikilvægt að vera samþykkt eins og þau eru. Verði þau fyrir ítrekaðri höfnun, sérstaklega frá þeim sem standa þeim næst, hefur það neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra og kennir þeim að þau séu óæskileg og óvelkomin. Hættan er sú að þessar hugmyndir þróist í grundvallarhugmyndir barnsins um sjálft sig sem fylgi því um ókomin ár. 

Þættir í bernsku sem geta stuðlað að neikvæðri sjálfsmynd:

  • Óréttmæt eða hörð gagnrýni
  • Ítrekuð neikvæð viðbrögð frá öðrum
  • Skortur á umhyggju og jákvæðum aga
  • Að það sé öskrað á mann eða maður sé beittur ofbeldi
  • Að vera hunsaður, niðurlægður eða strítt
  • Krafa um að vera alltaf „fullkominn“
  • Að þurfa ítrekað að glíma við verkefni sem eru ofar getu þannig að barninu sé sífellt að mistakast og taki ekki framförum