Orðin sjálfsmynd, sjálfsálit og sjálfstraust eru notuð nokkuð samhliða í almennri umræðu en í raun vísa þau til mismunandi atriða.
Sjálfsmynd er heildarhugmynd einstaklings um sjálfan sig. Þar koma við sögu fjölmargir þættir, s.s. persónuleiki, áhugamál, skoðanir, gildismat, kyn, aldur, störf o.s.frv. Sjálfsmyndin er þannig byggð upp af fjölmörgum atriðum sem við teljum eiga við um okkur. Lítum á nokkur atriði:
- Ég er Íslendingur
- Ég er kona/karl
- Ég er samkynhneigð
- Ég er múslimi
- Ég er íþróttamaður
- Ég er læknir
- Ég er góður vinur
Sjálfsálit eða sjálfsmat vísar til viðhorfs manneskjunnar til sjálfrar sín og virði síns sem manneskju. Þegar talað er um sterka, veika, eða jafnvel brotna, sjálfsmynd er yfirleitt átt við sjálfsálit en ekki endilega hver viðkomandi er í ljósi allra þeirra þátta sem nefndir eru hér að ofan. Viðhorf okkar til okkar sjálfra er þannig hluti af sjálfsmynd okkar, en ekki sjálfsmyndin öll, sem inniheldur einnig staðreyndir eins og „ég er dökkhærður“ eða „ég er unglingur“.
Sjálfstraust eða sjálfsöryggi vísa til þess hve mikla trú við höfum á sjálfum okkur og getu til að ná markmiðum okkar og takast á við lífið. Oft er talað um sjálfstraust í tengslum við hversu örugg við erum í samskiptum við aðra. Það er aðeins ein hlið sjálfstrausts, sem er mun almennri og vísar til hvernig okkur líður almennt gagnvart þeim áskorunum sem mæta okkur í lífinu.
Þessi hugtök eru auðvitað öll samtengd. Sjálfsálit og sjálfstraust eru hluti af sjálfsmyndinni en vísa til ólíkra hluta hennar. Þegar rætt er um að styrkja sjálfsmyndina er yfirleitt átt við að efla trú manneskjunnar á sjálfri sér (sjálfstraust) og stuðla að jákvæðara viðhorfi hennar til sjálfrar sín (sjálfsálit).