Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Að efla jákvætt sjálfsmat

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Það að vinna að heilbrigðu sjálfsmati er oftar en ekki vinna fyrir lífstíð. Við eigum í mestum og nánustum samskiptum við okkur sjálf enda erum við samferða eigin huga alla ævi. Hugsanir þínar, viðhorf og framkoma í eigin garð hafa mikil áhrif á þig og það skiptir máli að þau áhrif séu til góðs. Hlutir sem stuðla að heilbrigðu sjálfsáliti láta þér ekki aðeins líða betur með þig heldur auka lífsgæði þín og fyllingu í lífinu.

Taka eftir hugsunum þínum

Stundum tekur maður ekki eftir því hvers eðlis hugsanir manns eru. Veittu hugsunum þínum eftirtekt og endurskoðaðu neikvæðar hugmyndir um þig.

Talar þú við þig á jákvæðan og uppbyggilegan hátt eða ertu að rífa þig niður og gera lítið úr þér? Veltu þessu fyrir þér og endurskoðaðu innihald hugsana þinna. Er það satt sem þú segir við þig? Er það sanngjarnt? Myndirðu tala svona við einhvern annan?

Ljúka við verkefni

Lágu sjálfsmati fylgir oft lítil áhugahvöt. Með því að gera eitthvað, sama hversu lítið það er, getur þú aukið trú á eigin getu og liðið betur með þig.

Gerðu lista yfir verkefni sem þú getur tekið þér fyrir hendur þegar þú hefur ekkert að gera. Til dæmis:

  • Taka til í einni skúffu
  • Þrífa ísskápinn
  • Setja myndir í albúm eða ramma
  • Lesa grein sem þig hefur lengi langað til að lesa
  • Taka mynd af einhverju fallegu
  • Búa um rúmið
  • Þvo eina vél
  • Fara í göngutúr

Þér líður vel þegar þú hefur lokið við verkefni, jafnvel þótt það sé lítið og taki ekki mikinn tíma.

Skrifa lista yfir hluti sem þú hefur gert

Að skrifa lista yfir það sem þú hefur afrekað um ævina hjálpar til við að beina hugsunum þínum í jákvæðari farveg.

Náðu þér í blað og penna og gefðu þér nokkrar mínútur til að rifja upp hluti sem þú hefur gert. Ekkert er of lítið eða of stórt til að fara á listann sem gæti innihaldið eitthvað eins og að:

  • Ala upp barn
  • Rækta plöntur eða sinna blómum
  • Eignast góðan vin
  • Halda heimili
  • Takast á við erfiðleika eða veikindi
  • Rétta einhverjum hjálparhönd
  • Fá vinnu
  • Fara í gönguferð
  • Klára skóla eða próf
Finna styrkleika þína

Allir hafa einhverja styrkleika. Reyndu að koma auga á þína og mundu að hæfileikarnir styrkjast og þróast með þér. Allir hafa sömuleiðis einhverja veikleika en við erum oft mun meðvitaðri um þá heldur en styrkleika okkar.

Á netinu má víða finna upplýsingar eða próf til að finna eigin styrkleika, til dæmis á viacharacter.org.

Láta til þín taka

Það hefur jákvæð áhrif að taka virkan þátt í lífinu, sinna atvinnu, félagsstörfum, áhugamálum eða sjálfboðavinnu. Sömuleiðis er eflandi að læra nýja hluti, setja sér einföld og viðráðanleg markmið og auka færni eða þekkingu sína á ýmsum sviðum.

Huga að samböndum og tengslum

Leitaðu eftir félagsskap við fólk sem er jákvætt, gefandi og ástríkt og kann að meta þig. Losaðu þig úr samböndum sem taka frá þér orku og láta þér líða illa með þig.

Að búa við sífellda gagnrýni, óréttmætar kröfur eða niðrandi framkomu hefur neikvæð áhrif á okkur. Ef einhver sem þú ert í reglulegum samskiptum við sýnir slíka framkomu skaltu prófa að ræða málið við viðkomandi. Leggðu áherslu á hvernig þér líður frekar en ásakanir. Ef ekki verður breyting á framkomu í þinn garð skaltu finna leiðir til að takmarka samskipti við viðkomandi.

 

Forðast fullkomnunaráráttu

Enginn er fullkominn og því skaltu ekki reyna að vera það. Ströng krafa um fullkomnun ýtir undir streitu, kvíða og stöðuga vanmáttarkennd því við náum sjaldnast að standa undir slíkum kröfum.

Fullkomnunarárátta dregur yfirleitt ekki fram það besta í okkur. Þvert á móti getur hún valdið því að við forðumst verkefni, frestum þeim eða tökum óratíma í að ljúka þeim. Hún getur einnig komið í veg fyrir að við lærum af gagnrýni eða mistökum af því við erum upptekin við að brjóta okkur niður fyrir allt sem miður fór.

Gerðu því bara eins vel og þú telur þig geta og sættu þig við það. Mundu að allir gera mistök, þau eru til að læra af þeim og það gengur betur næst.

Hugsa vel um þig

Þegar þú sýnir þér umhyggju og velvild ertu að þjálfa þig í að líta jákvæðum augum á þig. Hegðun okkar og framkoma við okkur sjálf hefur áhrif ekki síður en hugsanir okkar.

Æfðu þig í að koma fram við þig eins og góðan vin. Virtu þarfir þínar og langanir og reyndu að koma til móts við þær, t.d. hvað varðar mat, hreyfingu og hvíld. Klæddu þig í föt sem láta þér líða vel. Gerðu eitthvað fyrir þig sem þú hefur gaman af og lætur þér líða vel. 

Ekki bera saman við aðra

Auðveldasta leiðin til að finna fyrir ónægju er að einblína á einhverja sem þér finnst vera ríkari, flottari, skemmtilegri og klárari en þú.

Það er enginn í heiminum eins og þú en því er tilgangslaust að bera sig saman við aðra. Auk þess vitum við ekkert um það hvernig líf annarra er þegar allt kemur til alls. Kannski er líf þeirra sem þú dáist að ekki svo glæsilegt þegar öllu er á botninn hvolft. Allir glíma við einhverja veikleika og vandamál þótt það sjáist ekki á yfirborðinu.

Tímanum er því betur varið í að hugsa um þig!

Leita eftir faglegri aðstoð

Langvarandi tilfinningar um að vera einskis virði, finnast maður lélegri, heimskari og ljótari en annað fólk og hafa litla trú á sér og sínum hæfileikum benda til þess að gagnlegt væri að fá faglega aðstoð. 

Stundum hefur lífsreynsla okkar orðið til þess að við tileinkum okkur neikvæðar hugmyndir um okkur sjálf sem við förum að líta á sem heilagan sannleik. Við þurfum hjálp til að vinna úr slíku hugsanamynstri og það getur tekið tíma að vinda ofan af því.

Ræddu þessi mál á heilsugæslustöðinni þinni og biddu um að verða vísað á fagaðila sem geta hjálpað þér.

Að vera virkur hjálpar til við að efla jákvætt sjálfsmat. Kíktu á þetta myndband.

Virkniþjálfun