Fara á efnissvæði

Sorg eftir dauðsfall eða missi

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Flest fólk upplifir einhvern tímann sorg við að missa eitthvað sem þeim þótti vænt um eða þótti mikilvægt. Sorg er eðlilegt viðbragð við missi og það er að sama skapi eðlilegt að það taki tíma að jafna sig og ná aftur jafnvægi í líðan eftir missi. Sorg er samheiti yfir þær flóknu tilfinningar og viðbrögð sem fólk finnur fyrir eftir missi og það er einstaklingsbundið hvernig hver og einn upplifir sorgina og vinnur úr henni.  

Það er hægt að gera ýmislegt til þess að takast á við sorgina og í eðlilegu sorgarferli minnkar sorgin með tímanum.  

Einkenni

Það er eðlilegt að upplifa sorg í kjölfar dauðsfalls. Aðrar tegundir af missi geta líka valdið sorg eins og sambandsslit, að missa vinnuna eða heimili sitt. Við upplifum sorg og missi á ólíkan hátt og það er engin ein rétt eða röng líðan í kjölfar missis. 

Algeng einkenni:

  • Einbeitingarskortur og upplifun af ringulreið eða stjórnleysi
  • Grátur
  • Líðan eins og óraunveruleikatilfinning eða doði  
  • Yfirþyrmandi sorg  
  • Þreyta eða uppgjöf
  • Reiði - gagnvart manneskjunni sem lést eða ástæðunni fyrir missinum  
  • Sektarkennd - til dæmis vegna reiðinnar, vegna einhvers sem var sagt eða gert eða vegna þess að hafa ekki geta komið í veg fyrir dauðsfallið
  • Sjokk og doði, óraunveruleikatilfinning

Það er mismunandi hvernig líðan er eftir missi. Stundum geta sterkar tilfinningar birst skyndilega og af miklum krafti og það er líka eðlilegt að þær séu ekki alltaf til staðar.  
Það er ekki alltaf auðvelt að átta sig á því hvenær og hvernig missir eða sorg hefur áhrif á líðan eða hegðun. Það getur verið ruglingslegt að upplifa sorg og við getum upplifað að við höfum enga stjórn á líðan okkar.  

Skref eftir missi

Það er oft talað um að ganga í gegnum fimm skref eftir missi en það er mismunandi hvort og hvernig fólk fer í gegnum þessi skref. Skrefin geta verið:

Afneitun: Til dæmis sjokk, doði, vantrú, ringulreið.

Reiði: Til dæmis sektarkennd eða ásökun gagnvart öðrum sem kennt er um missinn. 

Depurð: Til dæmis þreyta, vonleysi, hjálparleysi. Upplifun af því að missa framtíðarsýn eða finna fyrir einangrun eða einmanaleika. 

Uppgjör eða endurmat: Hugsanir eins og „ef ég bara hefði gert eitthvað öðruvísi“

Sátt: Það þýðir ekki að við séum ánægð með stöðuna en þetta stig snýst um að sætta sig við aðstæðurnar og vera tilbúinn að halda áfram eftir missinn. 

Hvað get ég gert?

Hægt er að gera ýmislegt til þess að takast á við sorg eins og að:

  • Einbeita sér að því sem hægt er að gera, leggja áherslu á að nýta tímann og orkuna í að hjálpa sér að líða betur   
  • Forðast áfengi, sígarettur og vímuefni   
  • Halda í rútínu eins og að fara á fætur á morgnana, klæða sig og hafa eitthvað fyrir stafni  
  • Huga að því að fá nægan svefn, borða reglulega og hreyfa sig
  • Hvíla sig frá sorginni með því að dreifa huganum og gera eitthvað allt annað
  • Mikilvægt er að sýna sér mildi og muna að það er eðlilegt að finna fyrir vanlíðan í kjölfarið á missi
  • Muna að það er í lagi að líða vel og finna fyrir ánægju
  • Setja lítil og viðráðanleg markmið
  • Tala við einhvern um líðan eins og vin, fjölskyldumeðlim, heilbrigðisstarfsmann eða ráðgjafa 
Lesefni

Á vef félagasamtakanna Sorgarmiðstöð og Ljónshjarta er að finna meira lesefni og ráðleggingar í tengslum við sorg.  

Hér má finna bækling með algengum hugsunum eftir dauðsfall ástvinar og ráðleggingar um það hvernig gott er að ræða dauðsfall ástvinar við börn.  

Hagnýtar upplýsingar við fráfall ástvinar:

Hér er að finna upplýsingar fyrir þau sem hafa misst ástvin og þurfa að huga að ýmsum hagnýtum atriðum í kjölfar andlátsins.

Leiðbeiningar um fyrstu skref eftir andlát.   

Í kjölfar sjálfsvígs:

Hér má finna handbók til sjálfshjálpar fyrir aðstandendur í kjölfar sjálfsvígs.  

Hér er að finna upplýsingar fyrir þá sem hafa misst ástvin í kjölfar sjálfsvígs.

Sjá einnig vefsíðuna sjalfsvig.is 

Hvenær skal leita aðstoðar?

Það getur verið áfall að missa eitthvað sem er manni mikilvægt og jafnvel þótt andlát ástvinar hafi verið yfirvofandi í einhvern tíma getur það verið áfall þegar að dauðastundinni kemur. Yfirleitt líður sorgin hjá með tímanum og í eðlilegu sorgarferli minnkar vanlíðanin hægt og rólega.  

Gott er að leita til vina, fjölskyldumeðlima eða samstarfsfólks. Í flestum tilfellum er ekki þörf fyrir aðkomu fagaðila til að takast á við eðlilegt sorgarferli.  

Ef fólk finnur fyrir einkennum kvíða eða þunglyndis sem fara versnandi eða jafna sig ekki með tímanum getur verið gott að leita til fagaðila til þess að meta þörf fyrir aðstoð. Við skyndilegt fráfall ástvinar finna sumir fyrir einkennum áfallastreitu.  

Ef hugsanir eins og að það væri betra að vera ekki til eða sjálfsvígshugsanir koma fram er gott að leita til heilbrigðisstarfsmanns. Hér má finna upplýsingar um slíkar hugsanir.

Í neyð skal hringja beint í 112.

Stuðningur fagaðila:

  • Stuðningur frá fagaðila eins og presti, geðhjúkrunarfræðingi, geðlækni, sálfræðingi, félagsráðgjafa, heimilislækni eða fjölskyldufræðingi getur reynst góður í sorginni. 
  • Leita má til heilsugæslunnar til að fá mat á vanda eða ráðgjöf varðandi næstu skref. 
  • Hægt er að hafa samband við upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 513-1700 eða hér á netspjallinu
  • Hægt er að hafa samband við hjálparsíma Rauða Krossins í síma 1717  

Hagnýtar upplýsingar við fráfall ástvinar

Sorgarmiðstöðin: Fyrir alla sem hafa misst ástvin. Markmið sorgarmiðstöðvar er að styðja við syrgjendur og alla þá sem vinna að velferð þeirra. Starfsemin lýtur fyrst og fremst að stuðningi, ráðgjöf, upplýsingaþjónustu og fræðslu. Frekari upplýsingar á sorgarmidstodin.is

Píeta samtökin: Bjóða upp á stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem misst hafa ástvin í sjálfsvíg. Frekari upplýsingar á pieta.is

Ljónshjarta: Samtök til stuðnings yngra fólki á aldrinum 20-50 ára sem misst hafa maka og börn sem hafa misst foreldri. Frekari upplýsingar á ljonshjarta.is

Gleym mér ei: Styrktarfélag til stuðnings við foreldra sem verða fyrir missi á meðgöngu og í/eftir fæðingu. Frekari upplýsingar á gme.is

Birta Landsamtök: Vettvangur fyrir foreldra/forráðamanna barna og ungmenna sem látist hafa skyndilega. Frekari upplýsingar á birtalandssamtok.is

Örninn: Fyrir börn sem hafa misst ástvin.Vettvangur þar sem hægt er að vinna með börnum og unglingum á friðsælum stað yfir heila helgi. Frekari upplýsingar á arnarvaengir.is

Sorgarleyfi: Er ætlað foreldrum á vinnumarkaði sem verða fyrir því að missa barn yngra en 18 ára. Frekari upplýsingar á vef vinnumálastofnunar