Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Mikilvægi samveru foreldra og barna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Samvistir foreldris og barns, þar sem truflandi áreitum úr umhverfinu er haldið í lágmarki, eru börnum mjög mikilvægar. Notaleg samvera ýtir undir sterkari tengsl og jákvæð samskipti milli foreldra og barna. Með henni miðla foreldrar því til barna sinna að þau séu elskuð og virt.

Foreldrar hafa auðvitað ekki tækifæri til að veita börnum óskipta athygli öllum stundum, enda þurfa þau líka að læra að vera sjálfum sér næg og þróa sjálfstæðan leik í samræmi við aldur og þroska. En það er öllum börnum mikilvægt að fá reglulegar samverustundir með foreldri sem eru helgaðar þeim eingöngu, helst daglega ef um ung börn er að ræða. Slíkar stundir er upplagt til að nýta til að æfa jákvæð samskipti og virka hlustun.

Sem dæmi um það sem hægt er að gera í samverustundum með yngri börnum má nefna að:

  • Lesa fyrir barnið eða láta það lesa fyrir sig
  • Tala við barnið, leyfa því að stýra samræðunum og stilla sig um að gefa ráð
  • Slaka á með barninu, kannski bara að setjast niður á bekk í almenningsgarði eða við fjöruna
  • Spila við barnið eða fara í leiki, allt frá því að spila lúdó og ólsen-ólsen til þess að fara í fótbolta í garðinum
  • Elda eða baka með barninu
  • Hjálpa barninu við að læra heima
  • Hjálpa barninu að undirbúa afmælisveislu
  • Hjálpa barninu við að útbúa afmælisgjöf handa hinu foreldrinu
  • Haldast í hendur eða halda utan um barnið á meðan verið er að horfa saman á eitthvað spennandi eða skemmtilegt.
  • Fara út að leika með barninu.

Þegar börnin eldast breytast samverustundirnar en þær halda áfram að vera mikilvægar sem dæmi um samverustundir foreldra og eldri barna má nefna:

  • Taka virkan þátt í tómstundanámi og gefa sér tíma til að hlusta á unglinginn tala um glímu sína við tómstundanámið.
  • Taka virkan þátt í íþróttaiðkun unglingsins. Gefa kost á sér í foreldraráð og stjórnir og vera virkur þátttakandi en ekki aðeins áhorfandi þó það sé líka mikilvægt.
  • Njóta útiveru og náttúrunnar saman. Sem dæmi má nefna gönguferðir, hjólatúrar og útilegur. Kennið börnunum að njóta náttúrunnar og uppgötva hvað þar er að finna. Rannsakið saman og skoðið. Til er fjöldinn allur af skemmtilegum handbókum bæði um náttúrufar, gróður, fugla, steina og gönguleiðir sem fá má lánaðar á bókasafninu eða kaupa. Það gefur göngutúrnum allt aðra merkingu að þekkja umhverfi sitt.
  • Notið hugmyndaflugið og þekkingu ykkar á barninu til að skipuleggja samverustundir fjölskyldunnar.