Þegar við deilum lífi okkar með öðrum er mikilvægt að velta fyrir sér hvað við viljum fá út úr sambandinu og hvernig við viljum sjá það þróast. Við þurfum að vita hvernig við viljum að komið sé fram við okkur og láta vita af því. Sambönd fólks eru mismunandi og ólík en það er mikilvægt að muna að ekkert samband er fullkomið. Engin manneskja er nákvæmlega eins og við viljum hafa hana. Allir hafa sína kosti og galla. Það getur því verið gott að skrifa niður hvað það er sem þú vilt fá út úr sambandinu og hvað þér finnst mikilvægast.
Hér eru nokkur dæmi um atriði sem líklega rata á lista nokkuð margra:
- Að mér sé treyst
- Að ég njóti hvatningar
- Að við njótum samverunnar
- Að komið sé fram við mig af hreinskilni
- Að það sé séð um mig
- Að borin sé virðing fyrir mér
- Að það sé haldið utan um mig
- Að ég njóti verndar
- Að ég njóti trausts
- Að við leiðumst
Er sambandið að gera það fyrir þig sem þú vilt?
Það getur verið gott að skoða reglulega listann sinn og velta því fyrir þér hvort þú sért að fá það sem skiptir máli út úr sambandinu. Það er sérstaklega mikilvægt ef þú efast um að sambandið sé eitthvað sem þú vilt halda í.
Að sama skapi er líka hollt að snúa dæminu við. Hvernig kemur þú fram í sambandinu? Gefur þú af þér í sambandinu? Það er ekki sanngjarnt að gera kröfur á aðra en leggja sig ekki fram. Hver og einn ber ábyrgð á framkomu sinni við annað fólk.
Hvernig kemur fólk fram í heilbrigðu sambandi?
Í heilbrigðu sambandi ríkir jafnrétti, heiðarleiki, virðing og samskiptin eru góð. Í góðum samböndum eru góðu tímarnir fleiri en þeir slæmu.
Heiðarleiki
Það getur hljómað sem klisja en heiðarleiki er grunnur að öllum farsælum samböndum. Bæði hjá kærustupörum en líka í samböndum við fjölskyldu og vini er heiðarleiki mikilvægur. Í heiðarlegum samböndum geta báðir viðurkennt að hafa rangt fyrir sér, sagt sannleikann án þess að óttast og fyrirgefið mistök.
Virðing
Í góðum samböndum er virðing á báða bóga. Virðing er til dæmis að styðja við hinn í því sem þau hafa áhuga á. Það er mikilvægt að virða skoðanir annarra, vera næm á tilfinningar og treysta hinum í sambandinu. Þegar virðing ríkir í sambandinu er annar aðilinn ekki að reyna að stjórna hinum eða breyta því hvernig þau eru.
Góð samskipti
Góð samskipti eru límið sem heldur fólki saman. Það er mikilvægt að geta rætt málin af heiðarleika. Hlusta á hinn aðilann og vera tilbúin að ræða vandamál og ósamkomulag. Stundum verða rifrildin hreinlega til vegna misskilnings!
Til að efla góð samskipti
- Vera nákvæm og skýr
- Greina frá tilfinningum og spyrja um tilfinningar hins aðilans
- Reyna að setja okkur í spor hins aðilans og sjá málið frá þeirra sjónarhorni. Skoða hvað það er sem skiptir okkur máli og hvað skiptir máli fyrir hinn aðilann.
- Velta upp mögulegum lausnum þar sem báðir aðilar fá sem mest af því sem þau vilja.
Tileinka þér árangursríkar aðferðir til að leysa ágreining.
Forðumst
- Niðrandi talsmáta
- Uppnefningar
- Að grípa fram í
- Að kúga
Hér má lesa nánar um góð samskipti og leiðir til að leysa ágreining.