Öll hegðun er lærð, bæði sú sem við teljum æskilega og óæskilega. Hegðun barna er í sífelldri þróun í samræmi við svörun umhverfisins, sem þýðir að hægt er að móta hegðunina markvisst og breyta með viðeigandi kennslu eða uppeldi.
Til að uppeldi skili sér á tilætlaðan hátt, þarf hlýju, öryggi, gott fordæmi og mótun hegðunar með jákvæðum hætti. Mestu máli skiptir að skapa aðstæður sem örva þroska barna, efla færni og hindra að erfiðleikar komi fram. Til dæmis er ekki heppilegt að fara með barn í erindagjörðir að loknum skóladegi. Slíkar aðstæður auka líkur á því að erfið hegðun komi fram hjá barninu þar sem það er eðlilega þreytt eftir langan dag. Til þess að hjálpa börnum að líða vel og tileinka sér góða hegðun þarf að huga vel að þörfum þeirra og taka tillit til hvers þau ráða við.
Gott uppeldi er það sem hlúir að þroska barna og kennir þeim jákvæða hegðun sem hjálpar þeim að líða vel og ganga vel í lífinu. Hægt er að kenna öllum börnum, en þarfir og meðfæddir eiginleikar barna eru misjafnir og geta kallað á ólíka nálgun þeirra sem koma að uppeldi barnsins. Uppeldi getur ýmist leitt af sér þróun æskilegrar eða óæskilegrar hegðunar, allt eftir því hvernig fyrirmyndir þeir eru, sem koma að uppeldi barnsins, og hvernig þeir bregðast við hegðun þess.
Væntingar til barna þurfa að vera sanngjarnar og raunhæfar. Kröfurnar þurfa að hæfa aldri, þroska og getu, vera hvorki of miklar né of litlar.
- Leggja þarf áherslu á að mynda góð tengsl við barnið, sýna því hlýju og jákvæða athygli, ræða við það, hlusta á það og svara.
- Mikilvægt er að vera vakandi fyrir æskilegri hegðun hjá börnum og hrósa strax fyrir hana eða umbuna á annan hátt.
- Nauðsynlegt er að vera sjálfum sér samkvæmur, standa við orð og gerðir.
- Sömuleiðis er mikilvægt að vera sanngjarn. Stundum er betra að segja „já, en ekki strax“ eða „já, þegar þú ert búin(n) að taka til“ heldur en þvert nei.
- Fylgjast þarf með eigin hegðun og viðbrögðum, og vera meðvitaður um áhrif þessa á hegðun barnsins.
- Nauðsynlegt er að foreldrar/uppalendur séu samtaka og noti samræmdar uppeldisaðferðir.
- Gefa þarf börnum skýr og einföld skilaboð um hvað má og hvað ekki og útskýra af hverju, eftir því sem þroski barnsins leyfir.
- Mikilvægt er að átta sig á því að börn eru enn að læra, þau gera mistök og prófa sig áfram með mörkin í umhverfinu. Viðbrögð við hegðun þeirra þurfa að vera leiðbeinandi með það fyrir sjónum að kenna jákvæða hegðun og hvatningu um að það gangi betur næst.
- Markviss kennsla í jákvæðri hegðun hjálpar barninu að læra innri stjórn og betri færni í að umgangast aðra.
- Mikilvægt er að leita ráðgjafar eða annarrar aðstoðar þegar erfiðleikar eða óvissa um réttar leiðir kemur upp.
Reglur og mörk eru mikilvægar í uppeldi. Það veitir börnum öryggiskennd og tilfinningu fyrir umhyggju en reglur þurfa að þjóna réttu hlutverki og vera sanngjarnar. Þær ættu að vera fáar og skýrar, sértækar fremur en almennar og í jákvæðu formi fremur en neikvæðu.
- Reglur ættu að segja hvað á eða má gera, frekar en hvað má ekki.
- Reglur þurfa að vera vel ígrundaðar og undirbúnar, helst af foreldrum sameiginlega. Gott getur verið að þær séu sýnilegar t.d. á blaði.
- Reglur þurfa að vera sanngjarnar og raunhæfar bæði fyrir foreldra og börn. Annars verður erfitt að fylgja þeim.
- Ákveða þarf fyrirfram hvernig á að framfylgja reglum og hver viðurlög eru ef regla er brotin. Mikilvægt er að viðurlög beinist að hegðun barnsins en ekki því sjálfu.
- Tryggja þarf að barnið nái að þekkja og skilja þær reglur sem því er ætlað að fylgja. Gott er útskýra fyrir börnum af hverju reglur almennt eru nauðsynlegar, t.d. með tengingu við íþróttir, umferð eða annað í raunveruleika barnanna.
- Nauðsynlegt er að framfylgja settum reglum, annars eru þær verri en engar.
- Reglur ættu að vera leið til að ná ákveðnu markmiði, en ekki að vera reglur reglnanna vegna.
Er eitthvað sem þarf að varast?
- Ekki skal setja reglur sem ómögulegt er að framfylgja.
- Varast ber að viðurlög séu of þung miðað við hegðunina, eða of áberandi.
- Mikilvægt er að forðast að missa stjórn á skapi sínu og bregðast við í reiði.
- Varast þarf að skammast og tuða, það skilar ekki árangri og veldur öllum pirringi, reiði og leiða.
- Ekki er gott að lenda í þrætum við barnið í hita leiksins um reglur og mörk sem þegar hafa verið ákveðin.
- Varast þarf að umbuna fyrir óæskilega hegðun, það ýtir undir hana. Öll athygli, jafnvel skammir virka sem umbun.
- Ekki má niðurlægja barnið eða hæðast að því og ekki meiða, hræða eða hóta því.
- Varast ætti að gefa tvöföld skilaboð, t.d. að orð og athafnir stangist á.
- Forðast þarf að vera slæm fyrirmynd með orðum eða gerðum.
- Ekki má svíkja það sem lofað hefur verið eða gefa loforð sem ekki er hægt að standa við.
Flest börn sýna erfiða hegðun stöku sinnum eða tímabundið án þess að það sé merki um neinsháttar vanda. Þó er mikilvægt að foreldrar, kennarar og aðrir sem koma að uppeldi barna þekki gagnlegar leiðir til að takast á við slíkt til þess að hlúa að velferð barnsins og forðast að gera tímabundinn eða byrjandi vanda enn verri.
Óhjálpleg viðbrögð við erfiðri hegðun barna, hvort sem hún er tímabundin eða langvarandi, svo sem reiði, öskur, hótanir eða refsingar, auka á vandann, stuðla að neikvæðu sambandi barnsins við þá fullorðnu og ýta undir vanlíðan hjá barninu. Því skiptir máli að taka strax rétt á málum og nota jákvæðar og árangursríkar aðferðir í uppeldi.
Hugtakið „hegðunarerfiðleikar“ er notað um hegðun sem víkur svo mjög frá viðurkenndum, aldurstengdum viðmiðum að það gangi á rétt annarra og hindri barnið í þroska, félagstengslum, námi eða leik. Erfiðleikar í hegðun hjá börnum birtast yfirleitt í einhverju af þessu: Skapofsaköstum, öskrum, hótunum, ljótu orðbragði, að meiða aðra, skemma hluti, hvatvísi, óhlýðni, mótþróa og kröfu um mikla og stöðuga athygli.
Hvernig má takast á við hegðunarerfiðleika?
Nauðsynlegt er að skoða rækilega eigin uppeldisaðferðir og viðbrögð við hegðun barnsins. Kanna hvaða reglur eru í gildi og hvort og hvernig þeim er fylgt. Reyna þarf að átta sig á hvað annað gæti ýtt undir og viðhaldið erfiðri hegðun barnsins, láta t.d. athuga hvort eitthvað er að hjá barninu sem gæti orsakað erfiða hegðun.
Mikilvægt er að setja sér markmið til að vinna að, skilgreina vandamálið, ákveða hverju vonast er til að ná fram og hvernig.
Máli skiptir að einblína ekki eingöngu á erfiðleikana og að muna eftir hinu jákvæða í fari barnsins. Ekki má gefast upp þótt allt gangi ekki alltaf að óskum strax. Og ekki hika við að leita viðeigandi aðstoðar. Leita má upplýsinga á heilsugæslu, hjá leikskólakennurum, barnasálfræðingum eða öðru fagfólki um uppeldisráðgjöf, námskeið, fræðsluefni, athuganir, meðferð og önnur úrræði sem standa til boða.