Fara á efnissvæði

Hvað er að vera einmana?

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Einmanaleiki er sú tilfinning sem við finnum fyrir þegar við upplifum skort á félagslegum tengslum. Mannfólkið er í eðli sínu félagsverur og flestir hafa ríka þörf fyrir að vera í samskiptum og félagsskap annarra.

Þó má ekki endilega gera ráð fyrir að allir sem eru einir séu einmana því félagsþörf okkar er misjöfn. Sumir una sælir í eigin félagsskap án þess að finna til einmanaleika. Á hinn bóginn getur fólk verið einmana þrátt fyrir að vera í reglulegu samneyti við aðra ef það saknar nánari og dýpri tengsla við aðra manneskju. Það sem skiptir mestu máli er hvort persónubundinni þörf okkar fyrir félagsleg samskipti og tengsl sé fullnægt.  

Áhrif einmanaleika á heilsu og líðan

Félagsleg sambönd, bæði gæði og magn félagstengsla, hafa áhrif á heilsu, líðan og jafnvel lífslíkur. Það er því ekki bara sárt að vera einmana heldur vinnur það gegn góðri heilsu og lífsgæðum. Því er mikilvægt að efla tengsl milli fólks í samfélaginu, vinna gegn félagslegri einangrun og skapa aðstæður sem ýta undir samneyti milli íbúanna.

Horfa þarf sérstaklega til viðkvæmra hópa sem eru í hættu á að einangrast, s.s. ungt fólk sem er hvorki í skóla né vinnu, fólk af erlendu bergi brotið og eldra fólk.

Dæmi um jákvæðar aðgerðir á þessu sviði:

  • Samvinnuverkefni milli leik- og grunnskóla og eldri borgara til að tengja saman kynslóðir og vinna gegn einsemd á efri árum.
  • Hitt húsið í Reykjavík hefur lengi rekið verkefnið Vinfús, sem ætlað er að draga úr félagslegri einangrun og efla félagstengsl ungs fólks.

Það skiptir miklu máli fyrir lífsgæði að tengjast öðrum og finnast maður vera hluti af umhverfi sínu. 

Hér er að finna ráð til að draga úr einmanaleika.