Börn, rétt eins og fullorðnir, eru misjöfn þegar kemur að þörfum fyrir og áhuga á félagslegum samskiptum. Sum börn sækja í einveru og finnst betra að slaka á við ýmiskonar dundur heima við að loknum skóladegi. Ef barninu líður vel og það á auðvelt með samskipti við aðra er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því. Aftur á móti ef barnið virðist vansælt, því leiðist og það hefur áhuga á meiri samskiptum við önnur börn en tekst ekki að mynda nægilega góð tengsl við félagana er ástæða til að bregðast við.
Einmanaleiki getur orðið til þess að börn og unglingar verða döpur og þróa með sér neikvæða sjálfsmynd. Þau fara að líta á sig sem leiðinlegri, vitlausari eða minna áhugaverða einstaklinga en aðra. Þau geta einnig orðið kvíðin fyrir því að hitta jafnaldra og óttast höfnun. Börn og unglingar sem þegar glíma við vanda á sviði depurðar, kvíða eða skertrar félagsfærni eru líklegri til að vera meira ein og upplifa einmanaleika.
Hvað á ég að gera ef barnið mitt er einmana?
Mikilvægt er að börn og unglingar sem upplifa sig einmana fái mikinn stuðning heima fyrir og að foreldrar og systkini gefi sér tíma til að vera með þeim. Þegar barn skortir vini og félagsskap er enn mikilvægara að fjölskyldulífið sé uppspretta ánægjulegra samvista þar sem barninu finnst það metið og velkomið.
Aukin virkni
Til að auka félagslega virkni er mikilvægt að styðja barnið eða unglinginn í að taka þátt í skipulögðu starfi. Svo sem á sviði íþrótta, lista, skátahreyfingarinnar o.s.frv. til að auka möguleika á að mynda tengsl við jafnaldra. Mikilvægt er að gera ekki of mikið úr vinaleysi barnsins. Stuðla skal að fleiri tækifærum til að hitta jafnaldra og styðja við og hvetja barnið áfram á því sviði. Eigi barnið frænkur eða frændur á svipuðum aldri er gott þau fái að hittast oftar ef barnið á erfitt með að mynda tengsl við skólafélaga.
Skert færni
Ef líkur eru á því að vinaleysi barnsins stafi af skertri færni á sviði félagsþroska, tilfinningafærni eða hegðunarstjórn er mikilvægt að barnið fái stuðning og þjálfun á því sviði. Börn með skerta félagsfærni geta lent í vítahring. Þau fá færri tækifæri til að vera í samskiptum við aðra og þar af leiðandi enn færri tækifæri til að þjálfa félagsfærni. Þar með er hætta á að þau dragast sífellt meira aftur úr í samanburði við jafnaldra. Því skiptir sköpum að þau fái leiðsögn og þjálfun sem hjálpar þeim að eiga jákvæð samskipti og mynda tengsl við jafnaldra sína.
Einelti og höfnun
Annað sem ber að hafa í huga varðandi börn og unglinga sem eru einmana eða mikið ein snertir einelti og höfnun. Brýnt er að ganga úr skugga hvort slíkt er til staðar og taka á því með markvissum hætti ef svo er. Mikilvægt er að foreldrar og skóli myndi teymi og eigi regluleg samskipti varðandi tengsl barnsins við skólafélaga. Góð samvinna við kennara um að vinna að auknum tengslum við bekkjarfélaga getur skipt sköpum. Það er ýmislegt sem skólinn getur gert til að auka á tengsl innan bekkjarins. Foreldrar geta einnig átt frumkvæði að ýmsu utan skóla, t.d. vinahring þar sem skipst er á heimsóknum eða skiptast á að keyra og sækja í tómstundir. Þannig á barni aukna möguleika til þess að mynda tengsl við jafnaldra í slíku starfi.