Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Tölum um kynlíf

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Samskipti eru mikilvægur hluti allra sambanda. Með því að tala saman deilum við tilfinningum, skoðunum og leysum vandamálin saman.  Talið um það sem þið gerið, það sem ykkur langar að gera og hvernig ykkur líður. Ef þú hefur áhyggjur af einhverju sem snertir kynlífið er besta leiðin að ræða málin. Með því móti geta pör leyst málin saman og fundið leiðir sem henta. Heilbrigt samband byggir á forsendum beggja og það á við um kynlífið líka.

Hvenær og hvernig á að hefja umræðuna?

Margir eiga erfitt með að sjá fyrir sér hvar sé rétti staðurinn og stundin til að tala um kynlíf. Það þarf að velja rétta tækifærið til þess. Ráðlagt er að hafa frið og vera ein. Það er ekki heppilegt að ræða kynlífið og mögulega það sem má breyta í rúminu þegar fólk ert ekki í stuði fyrir kynlíf og þreyta dagsins hefur áhrif. Sumir óttast að særa maka sinn ef rætt er opinskátt um kynlífið og segja mögulega eitthvað sem kemur illa við makann. Ef fólk er í hamingjuríku sambandi en kynlífið er ábótavant, ætti að vera í góðu lagi að ræða það. Hvatt er til að vera heinskilinn og vanda val orða. Segja það sem þú meinar og meina það sem þú segir. Ekki tala þvert um hug. Í góðu sambandi getur fólk fundið farsælar lausnir í sameiningu. 

Virtu tilfinningar maka þíns

Þú getur borið upp áhyggjuefni þín án þess að særa maka þinn. Sýndu nærgætni í orðavali og spurðu maka þinn hvort hann deili þessum áhyggjum með þér. Þar með opnar þú á umræðu en skellir ekki bara fram þinni skoðun á málinu eða ásökun. Hlustaðu vel á hverju maki þinn svarar. Er hann ef til vill sammála þér eða horfir hann öðruvísi á málið? Í mörgum tilvikum ná pör að ræða hlutina og komast að niðurstöðu en náist það ekki er ef til vill rétt að leita til ráðgjafa og fá hjálp. 

Nokkrar staðreyndir um kynlíf

Líkur á þungun

Þær eru margar kenningarnar um það sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir þungun. Staðreyndin er sú að kona getur orðið barnshafandi ef hún hefur samfarir í leggöng. Eina leiðin til að vera 100% viss um að verða ekki ólétt er að hafa ekki samfarir í leggöng. 

Kona getur orðið ólétt þó:

  • Hún hafi samfarir standandi
  • Hún sé á blæðingum
  • Hún sé að hafa samfarir í fyrsta sinn
  • Karlmaðurinn hafi ekki sáðlát í leggöngin
  • Hún hafi aldrei haft blæðingar
  • Samfarirnar eigi sér stað í sturtunni

Eina leiðin til að koma í veg fyrir að kona verði þunguð er að nota getnaðarvarnir.

Áfengi og kynlíf

Áfengi gerir engan betri í rúminu. Fólk finnur kannski meiri kynlöngun eftir neyslu áfengis en hjá körlum minnkar kyngetan við áfengisneyslu.

Sannleikurinn er líka sá að áfengisneysla slævir dómgreindina þannig er fólk líklegra til að taka slæmar ákvarðanir undir áhrifum áfengis. Fólk er líklegra til þess að taka ákvarðanir um kynlíf sem það sérð eftir undir áhrifum.

Einkenni kynsjúkdóma

Einkenni kynsjúkdóma eru hjálpleg þegar þau láta svo lítið að gera vart við sig. En staðreyndin er sú að um helmingur fólks fær engin einkenni og hefur því oft ekki hugmynd um hvort það er smitað af kynsjúkdómi.

Helstu einkenni þeirra eru verkir og sviði við þvaglát, útferð úr typpi eða leggöngum, slappleiki og sár á kynfærum.

Til þess að ganga úr skugga um hvort þú hefur fengið kynsjúkdóm þarf að láta skoða það á næstu heilsugæslu eða á göngudeild húð- og kynsjúkdóma á Landspítalanum. 

Kynlíf með sama kyni

Konur sem stunda kynlíf með öðrum konum geta smitað hvor aðra af kynsjúkdómi. Þetta getur bæði gerst með höndum þar sem bleyta úr leggöngum fer á hendur og sem svo snerta kynfæri hinnar konunnar og einnig getur þetta gerst með leiktækjum

 Það sama má segja með karla sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum, þeir geta smitað hvorn annan. Hér má lesa um örugga notkun hjálpartækja ástarlífsins.