Fara á efnissvæði

Sjálfsfróun

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Sjálfsfróun er það að veita sjálfum sér kynferðislegan unað eða fullnægingu með því að snerta kynfæri sín. Bæði konur og karlar geta veitt sér kynferðislegan unað ein sér eða með öðrum. Sjálfsfróun er góð leið til að kynnast líkama sínum og finna út næma staði hans. Að þekkja líkama sinn eykur líkurnar á góðu kynlífi með sjálfum sér og öðrum. 

Einstaklingar eru mismunandi þegar kemur að sjálfsfróun eins og öllu öðru í lífinu. Flestir karlar fróa sér með því að nudda liminn en flestar konur fróa sér með því að nudda píkuna og snípinn.

Sumir hafa mikla löngun til að fróa sér á meðan aðrir hafa engan áhuga á því. Hvoru tveggja og allt þar á milli er eðlilegt og alls ekkert til að hafa áhyggjur af. Ef þig langar láttu það eftir þér, ef þú hefur ekki áhuga slepptu því. Sjálfsfróun er ekkert sem þú verður að gera áður en þú hefur kynlíf með öðrum. Það getur hins vegar hjálpað þér að kynnast þínum löngunum, þörfum og finna út hvað þér finnst gott í kynlífi. 

Sögusagnir og fordómar

Fjölmargar sögusagnir og fordómar eru í umferð um sjálfsfróun. Allt frá því að hún sé hættuleg heilsu fólks til þess að hún sé nauðsynleg fyrir fólk til að geta liðið vel með öðrum. Sjálfsfróun hefur verið fordæmd og bönnuð af sumum trúarleiðtogum sem fullyrða enn þann dag í dag að hún sé skaðleg. Rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt að það er ekkert skaðlegt við sjálfsfróun. Hún er ekkert til að skammast sín fyrir og fyrir fjölmarga er hún hluti af kynlífi með öðrum og eykur bara unað kynlífsins ef fólk vill.