Fara á efnissvæði

Kynhneigð

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Flest fólk laðast kynferðislega að öðru fólki. Kynhneigð flokkar fólk eftir því að hverjum það laðast kynferðislega. Hvort fólk laðast að/verður skotið í fólki sem er af sama kyni, gagnstæðu kyni eða fólki sem skilgreinir sig kynhlutlaust eða með öðrum hætti. Það má spyrja sig hvort það þjóni nokkrum tilgangi að flokka fólk eftir kynhneigð þess. Er það ekki einkamál hvers og eins hvað í fari fólks vekur hrifningu? Hvort það er kyn viðkomandi, útlit, skopskyn, persónuleiki, hæfileikar eða eitthvað allt annað sem laðar eina manneskju að annarri? Kynhneigð fólks er persónulegt mál hvers og eins.

Samfélag okkar gerir í ræðu og riti oftast ráð fyrir því að karlar hrífist af konum og konur að körlum. Orðræðan er þannig og oft látið sem annað sé ekki til. Þessi gagnkynhneigða orðræða veldur því að þeir sem ekki falla inn í þetta mynstur upplifa sig „hinsegin“. Það eru mannréttindi að fá að vera sáttur í eigin skinni og hrífast kynferðislega eins og hugurinn girnist svo framarlega sem enginn hlýtur skaða af. Einstaklingarnir eru mismunandi og fjölbreytnin er eftirsóknarverð. Allir þurfa að lifa með sjálfum sér og orðræða sem gerir ráð fyrir fjölbreytileikanum er til þess fallin að auka líkurnar á því að hver og einn geti lifað sáttur með sjálfum sér og öðrum. 

Kynhneigð fólks segir ekkert um hversu lengi sambönd þeirra við aðra manneskju endast. Sambönd gagnkynhneigðra endast ekki lengur en sambönd samkynhneigðra eða tvíkynhneigðra. Þar ræður meiru persónuleiki einstaklinganna og hvernig þeir rækta sambandið sín á milli.

Kynhneigð er gjarnan skipt upp í nokkra flokka. Lítum á þá helstu.

Gagnkynhneigð

Gagnkynhneigt fólk laðast að fólki af gagnstæðu kyni. Konur laðast að körlum og karlar að konum.

Samkynhneigð

Samkynhneigt fólk laðast að fólki af sama kyni. Konur laðast að konum og karlar laðast að körlum.

Tvíkynhneigð

Tvíkynhneigt fólk laðast að hvort sem er konum eða körlum.

Pankynhneigð

Pankynhneigt fólk laðast af fólki af öllum kynjum. Pankynhneigð er stundum kölluð persónuhrifning en þá ræður persónan meiru en kynið.

Eikynhneigð

Eikynhneigt fólk laðast aldrei eða nánast aldrei kynferðislega að öðru fólki.

 

Inn á vefsíðu Hinsegin frá A til Ö er að finna frekari upplýsingar um kynhneigð.