Tækniþróun undanfarinna áratuga hefur stuðlað að gríðarlegum framförum á mörgum sviðum en um leið er hreyfing ekki eins sjálfsagður og eðlilegur hluti af daglegu lífi og áður var. Það þýðir að fólk þarf að vera meðvitað um að takmarka kyrrsetu eins og kostur er og fullnægja sinni daglegu hreyfiþörf. Auðveldasta leiðin til að takmarka kyrrsetu og hreyfa sig í samræmi við ráðleggingar er að flétta hreyfingu sem mest saman við daglegt líf. Allir ættu að staldra reglulega við, meta hvað þeir hreyfa sig mikið og gera síðan áætlun um úrbætur ef þörf er á.
Til að finna sóknarfærin þín er gott að meta daglegar hreyfivenjur
Hreyfing þegar þú ferðast á milli staða?
- Ferðast þú á milli staða með einkabíl, strætó, hjólandi eða gangandi?
- Gætir þú með betra skipulagi gengið, hjólað eða nýtt almenningssamgöngur a.m.k. suma daga?
- Leggur þú eins nálægt áfangastað og mögulegt er eða velur þú bílastæði sem er lengra í burtu?
- Getur þú farið fyrr út úr strætó og gengið aðeins lengri leið á áfangastað?
- Ef við á: Hvernig fara börnin í skóla og frístundastarf?
Hreyfing í tengslum við þín daglegu störf?
- Notar þú stigann eða verður lyftan fyrir valinu?
- Notar þú rafrænar leiðir til að eiga samskipti við vinnufélaga í stað þess að standa reglulega upp, teygja úr þér og bera erindið upp í eigin persónu?
- Hvað gerir þú í hádeginu og öðrum hléum?
- Ef vinnan felur í sér einhæfa hreyfingu, getur þú staldrað við reglulega yfir daginn, teygt úr þér og gert annars konar hreyfingu?
- Eru skórnir þægilegir og auðvelt að ganga í þeim?
- Leyfa fötin eðlilega hreyfingar?
- Er klæðnaðurinn í samræmi við veður?
Hreyfing í frítímanum þínum?
- Stundar þú reglulega hreyfingu í frítímanum?
- Hvernig nýtir þú tækifæri sem bjóðast til hreyfingar og útivistar í þínu nánasta umhverfi svo sem göngustíga og önnur útivistarsvæði?
- Hvað með þjónustu íþróttafélaga, líkamsræktarstöðva og annarra sem bjóða upp á aðstöðu til hreyfingar og skipulagða þjálfun?
- Er eitthvað í boði sem hentar þínum áhuga og getu?
- Ef við á: Hreyfir fjölskyldan sig saman?
Kyrrseta í daglegu lífi?
- Hvað situr þú marga tíma á dag?
- Fela þín daglegu störf, atvinna eða annað, í sér mikla kyrrsetu/einhæfa hreyfingu sem væri hægt að brjóta reglulega upp með því að teygja úr sér og ganga um?
- Hversu miklum frítíma verðu í afþreyingu á skjá svo sem við sjónvarp eða tölvu (síma, spjaldtölvu o.s.frv.)?
- Ef við á: Hefur fjölskyldan sett sér reglur um skjátímann?
- Það er hvetjandi að skrásetja hreyfinguna sína og mæla framfarir. Til eru ýmsar heimasíður og forrit sem hjálpa þér að halda utan um hreyfinguna, þér að kostnaðarlausu:
- Á heimasíðunni lifshlaupid.is getur þú skráð niður daglega hreyfingu og fylgst með framvindunni (athugið að einstaklingskeppni er skráning fyrir einstaklinga en ekki keppni á milli einstaklinga).
- Einnig getur þú notað forrit eins og Strava eða Runkeeper og mörg fleiri bæði í tölvunni og símanum.
Áhugasamir geta kynnt sér nánar hvað er í boði og valið það sem hentar.
Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.