Fara á efnissvæði

Ráðleggingar - börn og ungmenni

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Dagleg hreyfing er börnum og unglingum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt, þroska og andlega vellíðan. Börn hreyfa sig á annan hátt en fullorðnir. Frjáls leikur er þeim eðlilegur og mikilvægur ásamt skipulagðri hreyfingu t.d. í skólaíþróttum og íþróttastarfi. Það skapar tækifæri til að þjálfa hreyfifærni, bæta líkamshreysti, eignast vini, auka félagslega færni, efla sjálfstraust og styrkja fjölskylduböndin. 

Skipulögð íþróttastarfsemi er fyrir öll börn

Ráðleggingar

Samanber opinberar ráðleggingar um hreyfingu eiga öll börn og ungmenni að hreyfa sig daglega.

  • Í minnst 60 mínútur á dag, að meðaltali yfir vikuna, ætti hreyfingin að vera röskleg til kröftug.
  • Hreyfingin ætti að vera eins fjölbreytt og mögulegt er. Það eflir flesta þætti líkamshreysti, þar á meðal afkastagetu lungna, hjarta og æðakerfis sem og vöðvastyrk, liðleika, viðbragð og samhæfingu.
  • Minnst 3 daga vikunnar ætti að stunda kröftuga hreyfingu sem eykur þol og einnig hreyfingu sem styrkir vöðva og bein. Kröftug hreyfing, sem reynir á beinin, er sérstaklega mikilvæg fyrir og á kynþroskaskeiði fyrir beinmyndun og beinþéttni. 

Það hefur jákvæð áhrif á heilsuna að skipta út tíma í kyrrsetu fyrir hreyfingu af hvaða ákefð sem er.

Röskleg hreyfing

Dæmi eru röskleg ganga, skokka, hlaupa, sippa, synda, hjóla, dansa og nota hlaupahjól án mótors.

Kröftug hreyfing

Dæmi eru hlaup og hlaupaleikir, að sippa, hjóla, synda hratt og ýmsar íþróttir og önnur hreyfing stunduð af krafti.

Röskleg hreyfing

Dæmi eru röskleg ganga, skokka, hlaupa, sippa, synda, hjóla, dansa og nota hlaupahjól án mótors.

Kröftug hreyfing

Dæmi eru hlaup og hlaupaleikir, að sippa, hjóla, synda hratt og ýmsar íþróttir og önnur hreyfing stunduð af krafti.

Betra er að hreyfa sig lítið eitt en ekki neitt. Öll hreyfing hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan jafnvel þó ekki náist að uppfylla ráðleggingarnar.

  • Börn og ungmenni sem hreyfa sig lítið ættu smám saman að auka tíðni (hve oft), ákefð 
    (hve erfitt) og tíma (hve lengi) í hreyfingu við hæfi.
  • Öll börn og ungmenni ættu að hafa jöfn tækifæri og fá hvatningu til að stunda hreyfingu 
    við öruggar aðstæður sem er fjölbreytt og samræmist aldri þeirra, áhuga og getu.
  • Börn hreyfa sig á annan hátt en fullorðnir. Frjáls leikur er þeim eðlilegur og mikilvægur 
    ásamt skipulagðri hreyfingu t.d. í skólaíþróttum, íþróttastarfi og öðru æskulýðsstarfi.
  • Að ganga eða hjóla á milli staða er góð leið til að auka hreyfingu í daglegu lífi og efla 
    umhverfisvitund.
  • Aukinni hreyfingu fylgir aukinn ávinningur sem afmarkast þó af getu hvers og eins. Eftir 
    því sem æfingaálag er meira er mikilvægara að huga að fjölbreytni í æfingum, næringu við 
    hæfi og hvíld.
  • Mikilvægt er að hlusta á börn, taka mið af þörfum þeirra á hverjum tíma og aðlaga 
    hreyfinguna að áhuga, færni og aðstæðum hverju sinni. Leita má til heilbrigðisstarfsfólks 
    eða annarra fagaðila á sviði hreyfingar til að fá ráðgjöf vegna barna t.d. með skerta 
    hreyfigetu, langvinnan heilsufarsvanda og/eða fötlun.
  • Reglubundin hreyfing í æsku eykur líkurnar á ástundun slíkra lifnaðarhátta og betri heilsu 
    almennt á fullorðinsárum.

Takmarka ætti þann tíma sem börn og ungmenni verja í kyrrsetu, sérstaklega í afþreyingu við skjá t.d. sjónvarp, tölvu eða snjallsíma. Frekari umfjöllun um skjáinn og börnin.