Fara á efnissvæði

Upplýsingar og leiðsögn um heilsugæsluna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Heilsugæslan

  • Hægt er að óska eftir ráðgjöf hjá hjúkrunarfræðingi allan sólarhringinn í síma 1700  
  • Einnig er hægt að fá ráðgjöf inni í netspjalli heilsuveru hér á síðunni milli kl. 08:00 - 22:00
  • Ráðgjöf, tímabókun á skyndimóttöku og mat á erindum í síma 513-1700
  • Ef óskað er eftir almennum tíma hjá heimilislækni þarf að hringja á næstu heilsugæslustöð
  • Almennur opnunartími heilsugæslustöðva er á milli kl. 08:00 – 17:00 alla virka daga.
  • Sími heilsugæslustöðva er almennt opinn frá kl. 08:00 - 16:00
  • Skráning á heilsugæslustöð og verðskrá má finna á sjukra.is
  • Finna næstu heilsugæslu
  • Í neyð hringja í 112

Önnur þjónusta heilsugæslunnar

Bólusetningar

Almennar bólusetningar

Barnabólusetningar gegn stífkrampa, barnaveiki, kíghósta og mænusótt þarf að endurtaka á 10 ára fresti. 

60 ára og eldri eða fólk haldið langvinnum sjúkdómum ætti að láta bólusetja sig gegn inflúensu og lungnabólgu af völdum Pnemokokkabakteríunnar.

Ef bólusetningar hafa átt sér stað utan Íslands er hægt að koma á heilsugæsluna með bólusetningarvottorð og fá sprauturnar skráðar inn í heilsuveru.  

Nánar um fyrirkomulag barnabólusetningar.

Nánar um viðhald bólusetninga.

Ferðamenn

Á netspjalli hér á síðunni getur þú fengið ráðleggingar um þær bólusetningar sem þarf, hyggir þú á ferðalög. Valið er ferðalög og bólusetningaráðgjöf inni á netspjalli heilsuveru og þá koma upp staðlaðar spurningar um ferðalagið. Þegar búið er að gefa upp allar upplýsingar þá kemur bólusetningaráætlun fram inni á Mínum síðum Heilsuveru, eftir þrjá til fimm virka daga. Fólk fær tilkynningu þegar áætlunin er tilbúin. Við gerð á bólusetningaráætlun er meðal annars tekið til skoðunar fyrri bólusetningar og tímalengd dvalar. 

Þegar fólk er komið með bólusetningarráðgjöf er hægt að mæta í Þönglabakka 1. 109 Reykjavík alla virka daga milli 09:00-15:00 og fá bólusetningu hjá hjúkrunarfræðingi. 

Nánar um bólusetningar ferðamanna

Meðgönguvernd

Þjónusta meðgönguverndar er ókeypis og geta verðandi mæður fengið þjónustu frá heilsugæslustöð í sínu hverfi eða valið aðra stöð. Skráning á heilsugæslustöð eða breyting á skráningu má gera rafrænt. Leiðbeiningar um skráningu og breytingu á skráningu á heilsugæslustöð.

Viðtöl og skoðanir eru í boði frá upphafi meðgöngu og fram að fæðingu. Fyrsta viðtal við ljósmóður er gjarnan í síma fljótlega eftir að þungun er staðfest með þungunarprófi. Mælt er með að fyrsta koma sé fyrir 12 vikna meðgöngu. Fjöldi mæðraskoðana fer svo eftir aðstæðum, oftast 8-10 skipti. Milli skoðana er hægt að fá símaráðgjöf hjá ljósmóður.

Til að bóka fyrsta viðtal þarf að hringja á þá heilsugæslustöð sem óskað er eftir þjónustu frá. 

Nánari upplýsingar um meðgönguvernd

Ung- og smábarnavernd

Ung- og smábarnavernd tekur við af mæðravernd þegar fjölskyldan kemur heim frá fæðingarstað og heimaþjónustu ljósmæðra lýkur.

Fyrstu vikurnar eftir fæðingu er hægt að fá vitjun frá hjúkrunarfræðingi heilsugæslunnar. Foreldrar eru beðnir um að hafa samband við hjúkrunarfræðing fljótlega eftir að heim er komið til að bóka fyrstu vitjun.

Fyrsta læknisskoðun á heilsugæslustöðinni er við 6 vikna aldur. 
Reglubundnar skoðanir eru hjá hjúkrunarfræðingi og lækni til skólaaldurs. Þá er fylgst með vexti og þroska barnanna og bólusetningum. Í skoðunum er ráðlagt m.a. um brjóstagjöf, svefnvandamál, aga og uppeldi, matarræði og slysavarnir. Auk þess er hægt að fá samband við hjúkrunarfræðing ef spurningar vakna varðandi barnið. 

Nánar um ung- og smábarnavernd.

Heilsuvernd skólabarna

Hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðvum sjá um heilsuvernd skólabarna í hverfi stöðvanna. 
Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru:

  • Fræðsla og heilsuefling
  • Bólusetningar
  • Skimanir 
  • Viðtöl um heilsu og líðan
  • Umsjón og eftirlit með umönnun langveikra barna innan skólans
  • Ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans 

Hægt er að fá símasamband við skólahjúkrunarfræðingana í gegnum skiptiborð skólanna.  

Nánar um heilsuvernd grunnskólabarna.

Krabbameinsskimanir

Hér á landi er skimað fyrir leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini hjá konum.

Leghálskrabbameinsskimun:

Konur á aldrinum 23 ára til og með 64 ára um land allt, sem hafa fengið boðsbréf geta pantað tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini með símtali við þá heilsugæslustöð sem hentar best. Einnig geta þær konur sem fengið hafa boðsbréf og búa á höfuðborgarsvæðinu, bókað sig á Mínum síðum á heilsuvera.is

Brjóstakrabbameinsskimun:

Einkennalausar konur á aldrinum 40 ára til 74 ára sem hafa fengið boðsbréf í skimun fyrir brjóstakrabbameini geta pantað tíma. Tímapantanir fara fram á Brjóstamiðstöð Landspítala í síma 543-9560 milli kl. 8:30-12:00 og 13:00-15:30 alla virka eða á vef Brjóstamiðstöðvar. Hægt er að senda fyrirspurn á netfangið brjostaskimun@landspitali.is eða senda skilaboð á brjóstamiðstöð í gegnum Landspítala appið.

Inn á þjónustuvefsjá Heilsuveru má sjá hvernig fyrirkomulagið er á skimunum um allt land. Velja þarf heilsugæslustöð á kortinu og smella á krabbameinsskimun undir þjónustu. Við hvetjum konur til að kynna sér þjónustuna vel og bregðast jákvætt við boði um skimun. 

Skipulagðri skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini hefur ekki enn verið komið á hérlendis eins og í sumum öðrum löndum. Hægt er að óska eftir slíkri rannsókn hjá heimilislækni en einnig er hægt er að bóka beint í ristilspeglun hjá sérfræðilækni.

Frekari upplýsingar um fyrirkomulag krabbameinsskimana má finna hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana

Kynsjúkdómar

Ef óskað er eftir að láta skima fyrir kynsjúkdómum er hægt að bóka tíma á heilsugæslu eða hjá göngudeild kynsjúkdóma Landspítalans í síma 543-6050 milli kl 08:15-15:00 eða í smáforriti Landspítalans. 

Frekari upplýsingar um kynsjúkdóma

Lyfseðlar

Hægt er að endurnýja lyfseðla á Mínum síðum á heilsuveru. 

Einnig er hægt endurnýja í lyfjasíma heilsugæslustöðvanna. Fyrirkomulag lyfjasíma er kynnt á síðu heilsugæslustöðvarinnar.

Hægt að sjá myndband sem sýnir lyfjaendurnýjun.

Rannsóknir

Ef óskað er eftir blóðrannsókn þarf að hafa tilvísun frá lækni. Hægt er að bóka tíma hjá heimilislækni á næstu heilsugæslustöð. Þegar beiðni fyrir blóðprufu liggur fyrir þarf að hringja á heilsugæsluna og bóka tíma í blóðprufu eða mæta á rannsóknardeild Landspítala milli 08:00-15:30 alla virka daga.  

Sálfræðiþjónusta

Til þess að fá tíma hjá sálfræðingi heilsugæslunnar þarf að bóka tíma hjá heimilislækni og óska eftir tilvísun. Einnig er hægt bóka beint á stofu sálfræðings. Komugjald á heilsugæslu á dagvinnutíma er 500 kr. en komugjald á stofu er hærra.  

Veikindavottorð

Hægt er að sækja um veikindavottorð á Mínum síðum á heilsuvera.is
Valið er skilaboð, ný skilaboð, vottorð – atvinnurekenda og skólavottorð.
Greitt er fyrir vottorðið sem birtist á mínum síðum eftir nokkra daga.

Önnur þjónusta

Læknavaktin

Læknavaktin sinnir vaktþjónustu á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðeins sérfræðingar í heimilislækningum og reyndir sérnámslæknar veita læknisþjónustu alla virka daga frá kl: 17:00 - 22:00 og frá kl: 9:00 - 22:00 um helgar og á helgidögum.

Hægt er að óska eftir vitjun í síma 1700 frá kl:17:00 virka daga en frá klukkan 08:00 um helgar og helgidaga. Vitjunum lýkur fyrir kl: 23:30 alla daga.

Sjúkraþjálfun

Fólk fær niðurgreidd 6 skipti í sjúkraþjálfun á ári án tilvísunar frá lækni. (Gildir eingöngu hjá sjúkraþjálfurum sem eru með samning við SÍ). Tilvísun gefur 15 skipta heimild í eitt ár frá upphafi meðferðar. 

Börn 2 -17 ára greiða ekkert gjald fyrir sjúkraþjálfun með framvísun beiðni frá lækni. Börn undir 2 ára aldri greiða ekkert gjald.  

Upplýsingar varðandi sjúkratryggingar má finna á sjukra.is

Sérfræðiþjónusta fyrir börn

Hægt er að bóka tíma beint hjá sérfræðilækni. Börn undir 2 ára aldri fá niðurgreidda þjónustu en börn frá tveggja og til og með sautján ára fá niðurgreiðslu á þjónustu ef beiðni/tilvísun frá heimilislækni er fyrir hendi. Án tilvísunar er greitt 30% samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga.