Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Sóttkví

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Sóttkví er notuð þegar hefta þarf útbreiðslu smitsjúkdóms. Sóttvarnalæknir getur beitt sóttkví samkvæmt sóttvarnalögum. 

Fólk er sett í sóttkví þegar hætta er á því að það hafi smitast af smitsjúkdómi en hefur ekki einkenni sjúkdómsins. 

Sóttvarnalæknir hefur heimildir til að setja fólk í sóttkví og ákveður lengd hennar. Starfsfólk sóttvarnalæknis hefur í öllum tilvikum samband við fólk sem á að fara í sóttkví.

Sóttkví á heimilum

Oftast er fólk í sóttkví á heimili sínu þá þarf að huga að ýmsu. Ef fleiri búa á heimilinu þarf að skipuleggja hlutina vel. Sá sem er í sóttkví þarf að:

  • Takmarka umgengni við aðra heimilismenn eins og mögulega er hægt. 
  • Hafa alltaf 2 metra í næsta mann.
  • Heimilismenn sem ekki eru í sóttkví gætu mögulega fengið að dvelja hjá vinum eða vandamönnum á meðan sóttkvíin gildir.
  • Ef fleiri en einn eru í sóttkví á sama heimili sem voru útsettir fyrir smiti á sama tíma geta þeir verið saman í sóttkví.
  • Dvelja mest í einu herbergi íbúðar ef fleiri eru á heimilinu sem ekki eru í sóttkví.
  • Snerta sem allra minnst aðra staði í íbúðinni. Sótthreinsa þarf alla sameiginlega snertifleti eftir að sá sem sætir sóttkví hefur snert þá.
  • Ef tvö salerni eru í íbúðinni er gott að sá í sóttkví noti annað og hinir hitt salernið.
  • Ef aðeins eitt salerni er í íbúðinn þarf að sótthreinsa alla snertifleti á því eftir að sá í sóttkví hefur notað það.
  • Gæta sérstakrar varúðar þegar hann fer úr herberginu og gæta þess að hafa alltaf 2 metra á milli sín og annarra
  • Gæta vel að handhreinsun, sér í lagi þegar sameiginleg rýni íbúðar eru notuð eða óhjákvæmilegt er að hafa samskipti við aðra
  • Mæla líkamshita sinn daglega og skrá.
  • Ef einkenni gera vart við sig þarf að hafa samband við heilsugæsluna næsta virka dag og láta vita. Það má gera á mínum síðum Heilsuveru. Mikilvægt er að geta um sóttkvína.

Ungt barn í sóttkví

Ef ungt barn er sett í sóttkví þarf sá fullorðni einstaklingur sem annast barnið að vera í sóttkví með því. Það gildir þá það sama um þann einstakling og aðra sem þurfa að sæta sóttkví. Barnið og umönnunaraðili þess geta þá deilt herbergi en ekki með öðrum í fjölskyldunni. 

Einstaklingur í sóttkví má EKKI

  • Fara út af heimili nema brýna nauðsyn beri til, s.s. til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Við slíkar aðstæður skal hafa samband við heilsugæslu, Læknavakt í síma 1700 utan opnunartíma heilsugæslunnar eða við 112 í neyð og taka í öllum tilvikum fram að sóttkví sé í gildi.
  • Nota almenningssamgöngur.
  • Fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.
  • Fara á mannamót, hvort sem þau varða starf hans, fjölskyldu eða félagslíf.
  • Fara á líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, í leikhús, kvikmyndahús, verslunarmiðstöðvar eða aðra staði þar sem margir koma saman.
  • Fara sjálfir eftir aðföngum, þ. á m. í apótek, matvöruverslun, pósthús, banka eða annað.
  • Dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, s.s. stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivistarsvæðum. Ef farið er út er best að nota hanska á hendur og snerta sem minnst alla fleti.
  • Taka á móti gestum á heimili sínu meðan sóttkví stendur yfir.

Einstaklingur í sóttkví MÁ

  • Fara út á svalir eða í garð við heimilið. Ef aðrir eru þar líka þarf sá sem er í sóttkví að halda sig í a.m.k. 2 m fjarlægð.
  • Fara í gönguferðir en þarf að halda sig í a.m.k. 2 m fjarlægð frá öðrum vegfarendum.
  • Fara út með heimilissorp en huga þarf vel að hreinlæti, sinna handhreinsun fyrir og eftir opnun sorprennu/ruslatunnu/ruslageymslu og gjarnan strjúka yfir handföng með 70% spritti eða öðru sótthreinsandi efni eftir snertingu.

Hvar er hjálp að fá?

  • Rauði krossinn getur aðstoðað við aðföng ef þörf er á
  • Netspjallið á heilsuvera.is getur svarað spurningum ef eitthvað er óljóst
  • Hjálparsími Rauða krossins, 1717, er gjaldfrjálst númer opið öllum á Íslandi sem á þurfa að halda.