Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Öryggi drykkjarvatns

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Ávallt skal ganga úr skugga um hvort óhætt sé að drekka kranavatn í því landi sem dvalið er. Algengt er að kranavatn sé ekki neysluhæft. Getur þar verið um að ræða mengun vegna efna eða örvera (t.d. einfrumunga, baktería, sveppa og/eða veira).

Suða í 3-5 mínútur drepur örverur í vatni en losar vatn ekki við efnamengun. Til þess þarf sérstaka síu. Heimamenn sía gjarnan kranavatn svo það sé drykkjarhæft en einfaldara er fyrir ferðamanninn að kaupa vatn á innsigluðum flöskum.

Úti í náttúrunni

Á ferðum úti í náttúrunni þarf að kanna hvort óhætt sé að drekka vatn úr ám og lækjum. Þótt kranavatn sé drykkjarhæft er ekki víst að vatn í náttúrunni sé það. Því þarf oft að sía og/eða sjóða vatn fyrir neyslu.

Suða drepur flestar örverur í vatni en hún mun ekki bæta bragð, lykt eða útlit vatnsins.

Séu lækir tærir og hreinir er óhætt að drekka vatnið sé notuð sía sem hreinsar úr því einfrumunga eða örverur sem valdið geta sjúkdómum. Síur eru mismunandi og þarf að huga að því hvort vænta má í vatninu eingöngu einfrumunga eða hvort sía þarf úr aðrar örverur. Best er að kaupa síur á staðnum því þar þekkir afgreiðslufólk hvað þarf að nota á því svæði sem ferðast er um.

Til eru sérstakir vatnsbrúsar með síum sem nota má á ferðalögum úti í náttúrunni. Á svæðum þar sem vatn er sýnilega óhreint eða hætta er á efnamengun ætti að bera með sér allt drykkjarvatn sé þess nokkur kostur.

Forvarnir

  • Bursta tennurnar með drykkjarvatni úr flösku eða soðnu/síuðu vatni
  • Drekka vatn úr flöskum með öruggu innsigli 
  • Reglulegur handþvottur með hreinu vatni og sápu, einkum eftir salernisferðir, fyrir matseld og áður en matar er neytt.
  • Neyta síður hrárra matvæla ef takmarkað aðgengi er að hreinu vatni til handþvotta, vökvunar og hreinsunar matvæla 
  • Sjóða vatn og/eða sía
  • Sleppa ísmolum, til að mynda í drykkjum
  • Þvo matvæli með hreinu vatni