Moskítóflugur geta borið með sér marga hættulega sjúkdóma. Við flestum þeirra eru ekki til nein lyf eða bólusetningar. Því er mikilvægt að reyna að forðast það að vera bitinn. Moskítóflugur í Evrópu og Bandaríkjunum bera almennt ekki með sér sjúkdóma en bitin geta samt valdið kláða og óþægindum í húð. Þær bíta allan sólarhringinn en oft mest við sólarupprás og sólarlag.
Sjúkdómar sem moskítóflugur geta meðal annars borið með sér eru: malaría, zika, beinbrunasótt, japönsk heilahimnubólga og chikungunya.
Helstu ráð til að forðast bit
- Ekki ferðast að nauðsynjalausu til svæða þar sem áhætta er mjög mikil.
- Ekki fara til áhættusvæða ef þú ert með skert ónæmiskerfi eða ófrísk nema það sé bráðnauðsynlegt.
- Fáðu bólusetningar gegn þeim sjúkdómum sem hægt er að bólusetja fyrir og taktu fyrirbyggjandi malaríulyf ef þú ákveður að ferðast til lands/svæðis þar sem hættan á malaríu er mikil.
Síðermabolir/skyrtur, síðar buxur, sokkar og skór vernda flesta gegn bitum. Fötin geta verið þunn, ljós og víð. Ef áhættan er mjög mikil er hægt er að kaupa föt sem eru meðhöndluð með Permethrin sem er flugnaeitur/fæla. Flugurnar geta bitið í gegnum föt sérstaklega ef þau eru þunn og liggja þétt að líkamanum. Því getur þurft að setja vörn á fötin.
Það er mikilvægt að bera moskítófælu sem inniheldur virka efnið DEET (diethylotuluamide) á bera húð, jafnvel á ermar og skálmar eða ysta lag fata. Rannsóknir sýna að 30-50% blanda af DEET virkar best og lengst. Önnur efni sem virðast fæla flugur frá eru Picardin/Icaridin 20% og sítrónu eucalyptus extract. Rannsóknir hafa ekki sýnt að nein önnur náttúruleg efni virki. DEET og Picardin/Icardin eru eitur sem mega ekki berast í sár, augu, nef eða munn. Ef þau eru notuð rétt teljast þau örugg fyrir alla, meðal annars fyrir ófrískar konur og börn sem eru orðin tveggja mánaða.
Ef sprey er notað er því úðað í lófa og borið á andlit, eyru og háls. Ef þörf er á sólarvörn eru hún fyrst borin á og látin þorna, síðan er moskítófælan borin á húðina þar sem hún er ber. Styrkur sólarvarnarinnar getur minnkað við þetta. Það má líka úða moskítóvörn á flestan fatnað en sum gerviefni gætu skemmst. Moskítófælur eru almennt ekki vatnsheldar og því þarf að bera á sig aftur ef farið er í vatn/sund og/eða ef svitnað er mikið. Mikilvægt er að þvo hendur áður en farið er að borða.
Veldu gististað með loftkælingu eða flugnaneti fyrir gluggum og dyrum. Ekki láta ljós loga inni ef gluggi eða hurð eru opin því flugurnar leita í ljósið. Notaðu flugnanet ef það er í boði og ef það er ráðlagt. Ef gisting er mjög ódýr eða í heimahúsum getur verið nauðsynlegt að taka með sér sitt eigið net. Netið þarf að vera heilt og nógu langt til að fara undir dýnuna.
Klæddu barnið í föt sem hylja handleggi og fótleggi. Settu moskító net yfir vagn og kerru. Berðu moskítófælu á húð barnsins sem er ekki hulin fötum. Ekki nota sítrónu eucalyptus extract á börn undir 3 ára. Ekki bera moskítófælu á hendur barna svo þau beri hana ekki í augu eða munn.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Farðu til læknis ef þú veikist eftir ferðina og segðu frá ferðalaginu. Segðu ljósmóður/lækni ef þú eða barnsfaðir hafið farið á áhættusvæði fyrir Zika innan 6 mánaða áður en þú varðst ófrísk eða þegar þú varðst ófrísk. Zika veiran getur smitast með kynlífi í allt að 6 mánuði.