Fara á efnissvæði

Kembing

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Höfuðlús er skordýr sem lifir í höfuðhári manna. Þó lúsin sé ekki skaðleg mönnum eru flestir á einu máli um að hún er ekki velkomin í hárið. Lúsin getur smitast á milli manna þegar hár snertist og nær útilokað er að koma alfarið í veg fyrir það. Til þess að koma í veg fyrir að lúsin nái bólfestu í hárinu er gott að kemba hárið vikulega. Þar sem lúsasmit eru algengust á meðal barna á aldrinum 3 til 13 ára er rétt að leggja áherslu á að kemba þann aldursflokk vikulega. Finnist lús við reglubundna kembingu þarf að meðhöndla smitið og halda svo áfram að fylgjast með hárinu vikulega.

Finnist lús í hári skólabarns er rétt að láta skólann vita svo hægt sé að hefta útbreiðslu hennar.

Lúsakambur

Lúsakambar eru meðal annars seldir í lyfjaverslunum og margar gerðir í boði. Þeir eru misdýrir og misgóðir. Mikilvægt er að velja kamb sem hæfir hári heimilismanna. Sítt og þykkt hár þarf kamb með löngum teinum en hægt er að komast af með styttri teina í stuttu hári. Bilið á milli teinanna í lúsakambi má ekki vera meira en 0,2 millimetrar og teinarnir mega ekki vera of eftirgefanlegir. Venjuleg hárgreiða þó fínleg sé gerir ekkert gagn í lúsakembingu.

Kembing

Lýs í þurru hári eru mjög fráar á fæti og eiga auðvelt með að komast undan kambinum. Lýs eiga hins vegar erfitt með að hreyfa sig í brautu hári böðuðu hárnæringu og því er mælt með eftirfarandi aðferð.

  • Þvo hár með venjulegri aðferð, skola og setja hárnæringu sem höfð er áfram í hárinu og hárið haft blautt.
  • Greiða burtu allar flækjur - hárið er enn blautt.
  • Skipta hárinu upp í minni svæði, til að auðvelda skoðun alls hársins.
  • Skipta frá greiðu/bursta yfir í lúsakamb og hafa hvítt blað eða spegil undir, til að auðveldara sé að sjá hvort lús fellur úr hárinu.
  • Draga kambinn frá hársverði að hárendum og endurtaka þar til farið hefur verið vandlega í gegnum allt höfuðhárið.
  • Eftir hverja stroku skal skoða hvort lús hefur komið í kambinn og þurrka úr með bréfþurrku áður en næsta stroka er gerð.
  • Nit lúsarinnar, sem líkist flösu í fljótu bragði, er föst við hárið. Hana er oft að finna ofan við eyrun og við hárlínu aftan á hálsi. Nit ein og sér er ekki órækt merki um smit, sérstaklega ekki ef hún er langt frá hársverðinum því þá er lúsin í henni að öllum líkindum dauð.
  • Eftir kembingu alls hársins skal skola hárnæringuna úr.
  • Kemba aftur til að athuga hvort einhver lús hefur orðið eftir.
  • Ef lús finnst við kembingu þarf að þvo hárnæringuna úr og þurrka hárið, áður en meðferð með lúsadrepandi efni hefst.
  • Þrífa kambinn með heitu sápuvatni og þurrka.