Fara á efnissvæði

Slysavarnir á heimilum

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Flest slys hjá eldra fólki verða inn á heimilum. Sum þessara slysa má koma í veg fyrir með því að huga að öryggismálum heimilisins.

  • Góð lýsing er mikilvæg í öllum vistarverum. Með aldrinum eykst þörf fyrir góða lýsingu. Því er gjarnan þörf á að endurskoða stærð ljósapera og lýsingu á heimilinu þannig að hún þjóni sem best þörfum íbúanna.
  • Það getur verið gott að hafa næturlýsingu ef þörf er á að fara fram úr að nóttu til. Hafa má hreyfiskynjara á slíkum ljósum þannig að á þeim kvikni þegar hreyfing verður í herberginu. 
  • Best er að vera ekki með lausar mottur innan dyra. Ef þær eru hafðar á gólfum er mikilvægt að undir þeim sé stamt undirlag þannig að þær renni ekki til. Mottur sem farnar eru að rúllast upp eða trosna þarf að fjarlægja.
  • Rafmagnssnúrur þurfa að vera festar við veggi en ekki liggja lausar á gólfum.
  • Þegar færni fer að minnka getur verið gott að endurskoða staðsetningu hluta í skápum. Það sem mest er notað ætti að vera í þægilegri hæð þar sem aðgengi er auðveldast. Ef gott pláss er í skápum er þægilegra að umgangast þá því getur verið gott að losa sig við hluti sem ekki eru notaðir lengur.
  • Mikilvægt er að hafa alla hluti í lagi og gera strax við það sem bilar, t.d. hurðarhúnar, skaft á potti, blöndurnartæki, líming á stól eða rofi á rafmagnstæki. Bilaðir hlutir geta auðveldlega breyst í slysagildru.
  • Í Hjálpartækjamiðstöð má fá ýmis hjálpartæki sem auka öryggi eldra fólks. Hafðu samband við hjúkrunarfræðing á heilsugæslunni til að fá aðstoð og ráðgjöf ef þú vilt fá hjálpartæki.
Baðherbergi

Baðherbergið er staður sem algengt er að slys verði. Því er sérlega mikilvægt að huga að slysavörnum þar.

  • Ef gólfefnið verður hált við raka eða bleytu þarf að bæta úr því annað hvort með því að skipta um gólfefni eða fá stamar baðmottur sem setja má á gólfið við sturtuna eða baðið.
  • Sturtubotnar eru sumir hálir þegar þeir verða blautir. Til eru sérstakar stamar mottur sem setja má á sturtubotninn eða gólfið í sturtunni.
  • Flest baðker eru hál og sleip í vatninu. Setja má stama mottu í baðkerið til að koma í veg fyrir að fólk renni í baðkerinu.
  • Nota má baðbretti til að auðvelda fólki að komast upp úr baðkeri
  • Gott er að setja handföng við baðker og í sturtu til að auka öryggi. 
  • Gott getur verið að hafa sturtukoll í sturtunni ef jafnvægið er farið að gefa sig. 
  • Ef erfitt er að standa upp af salerninu er hægt að fá upphækkun á það. Slíka upphækkun er bæði hægt að fá með og án arma til stuðnings. 
  • Heita vatnið getur brennt og því er nauðsynlegt að hafa hitastilli á blöndunartækjum. Hitastillar þurfa að vera í lagi þannig að þeir þjóni hlutverki sínu. 

Þau hjálpartæki sem hér eru nefnd má flest fá hjá Hjálpartækjamiðstöðinni. Leitaðu til hjúkrunarfræðings á heilsugæslunni þinni til að aðstoða þig við að fá þessi hjálpartæki ef þú þarft á þeim að halda. Ekki bíða þar til skaðinn er skeður.

Húsgögn

Húsgögn eru á heimilum okkar til að auðvelda okkur lífið. Hvað hentar okkur er mismunandi meðal annars eftir aldri. Öðru hvoru þarf að endurskoða húsgögnin og ef til vill endurnýja eða breyta. Fyrir eldra fólk er gott að hafa í huga að hafa ekki of mikið af húsgögnum. Í þrengslum verða frekar slys. Að hafa pláss auðveldar alla umgengni.

  • Há húsgögn eins og hillur og kommóður ætti að festa við vegg. Ef gripið er í þessa hluti geta þeir fallið á fólk og valdið stórslysi. 
  • Stólar þurfa að vera í þægilegri hæð til að auðvelda fólki að standa upp og draga úr líkum á falli.
  • Rúm þarf að vera í þægilegri hæð svo auðvelt sé að standa upp. Hægt er að fá upphækkun undir rúmfætur. 
  • Hægt er að fá stuðningsstöng til að setja við rúm eða stól til að auka öryggi þegar staðið er upp. 
Stigar og tröppur

Þar sem eru stigar eða tröppur þarf að huga sérstaklega að öryggi í stigum. 

Stigar innandyra

  • Handrið þurfa að vera báðum megin við stiga. Hægt er að fá handrið sem auðvelt er að festa á vegg.
  • Ef yfirborð stiga er hált er gott að setja hálkustrimla fremst á þrepin til að draga úr líkum á falli.
  • Ef erfitt er að sjá hvar síðasta þrepið er í stiganum má setja litaðan límborða á neðsta þrepið.
  • Teppi á stigum þurfa að vera heil og ótrosnuð. Trosnað teppi getur valdið slysi. 
  • Góð lýsing er mikilvæg við stiga. Rofi fyrir ljósin þarf að vera bæði upp og niðri.
  • Fólk með margskipt (eða tvískipt) gleraugu getur átt í erfiðleikum með að greina þrep í stigum. Það tekur tíma að venjast nýjum styrk í gleraugunum og litaðir límborðar fremst á þrepunum geta hjálpað mikið til. En svo er líka mikilvægt að fara varlega og gefa sér tíma.

Stigar og töppur utan dyra

  • Handrið þarf að vera báðum megin við tröppur og stiga utan dyra.
  • Yfirborðið þarf að vera heilt og slétt. Gömul steypa sem farið er að brotna upp úr getur verið slysagildra.
  • Yfir vetrartímann þegar búast má við snjó og hálku er gott að hafa tiltækan sand til að strá á tröppurnar í hálku. 
  • Ef fólk er í erfiðleikum með að moka snjó frá inngangi og af tröppum má ef til vill ræða málið við nágranna og biðja um aðstoð í því efni. 
Eldvarnir

Við bruna skapast lífshættulegar aðstæður og því þarf að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að eldur verði laus á heimilinu.

  • Eldamennska getur valdið eldsvoða. Sér í lagi ef fólk gleymir sér og skilur eftir pott eða pönnu á eldavél með straum. Gott ráð er að fara ekki frá eldamennskunni nema tryggja að eitthvað minni á að verið sé að elda. Stilla má klukku sem minnir á ef verið er að elda eitthvað sem tekur langan tíma. 
  • Rafmagnstæki sem eru biluð eða rangt notuð eru algengasta ástæða bruna á heimilum. Góð regla er að taka úr sambandi eða rjúfa strauminn á raftækjum sem ekki eru í notkun.
  • Fjöltengi þurfa að vera heil og ekki má ofhlaða þau. Á mörgum fjöltengjum er rofi þar sem rjúfa má strauminn til þeirra tækja sem tengjast fjöltenginu.
  • Kertaljós finnst mörgum notaleg en þau eru algeng ástæða íkveikju. Aldrei ætti að skilja kertaljós eftir þegar herbergi er yfirgefið. Hægt er að fá kerti með rafhlöðu sem geta skapað sömu stemmningu en eru hættulaus. 
  • Reykskynjari ætti að vera í öllum herbergjum. Í flestum skynjurum þarf að skipta um rafhlöðu árlega. Ágæt regla er að skipta um rafhlöðu í desember, fyrir jólin. Til eru reykskynjarar sem hafa rafhlöðu sem endist í 10 ár.
  • Eldvarnarteppi ætti að vera í öllum eldhúsum. Það á að vera sýnilegt og staðsett þannig að auðvelt sé að grípa í það ef slökkva þarf eld á eldavélinni.
  • Slökkvitæki er gott að staðsetja nálægt útgönguleiðum. Það þarf að vera aðgengilegt svo auðvelt sé að grípa það og af stærð sem húsráðandi ræður við. Slökkvitæki þarf að yfirfara reglulega. Á tækinu er dagsetning sem gefur til kynna hvenær á að yfirfara það næst. 

Ef eldur verður laus er ráðlagt að  koma sér út úr húsi og kalla eftir hjálp í 112.

Ýmis öryggisatriði

Með aldrinum skerðist gjarnan færni fólks og þörf verður á aðstoð annara og hjálpartækjum til að auka öryggi. 

  • Öryggishnappur sem tengdur er öryggismiðstöð er mikilvægt öryggistæki sér í lagi fyrir þá sem búa einir. Öryggisfyrirtækin bjóða einnig upp á ýmsa hliðarþjónustu sem henta kynni eins og til dæmis dagleg símtöl og tengingu við reykskynjara.
  • Lekastraumsraumsrofi ætti að vera í öllum rafmagnstöflum. Í gömlum húsum getur hann vantað þar sem ekki var skylt að setja hann í hús á þeim tíma sem húsin voru byggð. Rafvirki getur sett lekastraumsrofa í rafmagnstöfluna ef hann er ekki til staðar. Slíkur rofi getur komið í veg fyrir alvarlega rafmagnsslys.
  • Svimi hrjáir sumt eldra fólk. Gott er að venja sig á að standa hægt upp, sérstaklega þegar farið er fram úr rúminu. Einnig er gott að hafa stuðningssúlur við rúm og stól til að auka öryggi.
  • Jafnvægi minnkar oft með aldrinum. Gott að nota göngugrind eða staf til að auka öryggi. 
  • Hitateppi og hitapoka þarf að passa að slökkva á eftir notkun. Aldrei á að sofa með slík rafmagns hitapoka eða teppi. Hitateppi og hitapokar sem orðin eru gömul ætti ekki að nota.
  • Ýmis hjálpartæki sem nýtast vel í daglegu lífi er hægt að fá hjá Hjálpartækjamiðstöð. Þetta getur til dæmis verið:
    • Griptöng til að taka hluti upp af gólfinu
    • Áhald til að opna krukkur og dósir
    • Sokkaífæra til að auðvelda að fara í sokkana
    • Upphækkun fyrir rúmfætur ef rúmið er of lágt