Fara á efnissvæði

Akstur á efri árum

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Aksturshæfni tapast ekki sjálfkrafa með hækkandi aldri. Margt er hægt að gera til að viðhalda akstursfærni svo eldra fólk geti haldið áfram að aka með öruggum hætti. Þetta eru atriði eins og að: 

  • Viðhalda líkamlegri getu bæði styrk, liðleika og jafnvægi.
  • Finndu rétta bílinn og hjálpartæki sem þarf til að tryggja öruggan akstur.
    • Sjálfskiptir bílar eru auðveldari í akstri en beinskiptir.
    • Til er búnaður sem hægt er að setja í bíla, sem auðvelda að stýra og stjórna fótapedulum.
  • Velja einfalda akstursleið.
  • Forðast að vera á ferðinni á háannatímum í umferðinni.
  • Gefa sér nægan tíma til að komast á milli staða.
  • Láta fylgjast með sjón árlega. Ef ökumaður er með gláku getur litað augngler hjálpað til við að draga úr glampa.
  • Halda framrúðu, speglum og framljósum hreinum og hafa rétt birtustig ljósa í mælaborði.
  • Fara í heyrnarmælingu árlega. Þeir sem þurfa að nota heyrnartæki ættu alltaf að nota þau í akstri.

Algengt er að ökumenn gera sjálfviljugir breytingar á akstri og akstursleiðum þegar þeir eldast, svo sem að:

  • Keyra aðeins á dagsbirtu.
  • Keyra aðeins þar sem þeir eru vanir. Ökumenn í dreifbýli hætta að aka í þéttbýli. Ökumenn í þéttbýli hætta að aka úti á vegum.
  • Forðast akstur í slæmu veðri.

Mikilvægt er að hlusti á áhyggjur annarra. Þegar ættingjar, vinir eða aðrir tjá áhyggjur af akstrinum er tímabært að skoða málin. Akstur er dauðans alvara og enginn vill verða valdur að slysi. Hægt er að fara í akstursmat og tala við lækni um hæfni um öruggan akstur. Margir líta á það sem mikla frelsissviptingu að hætta að keyra. En það er hægt að taka ansi marga leigubíla fyrir það fjármagn sem rekstur bíls kostar.

Endurnýjun ökuskírteinis

Við 70 ára aldur þarf að endurnýja almenn ökuréttindi (B). Endurnýjun ökuskírteina fer fram hjá sýslumönnum. Vísa þarf fram læknisvottorði frá heimilislækni þegar sótt er um endurnýjun ökuskírteina. Vottorðið má ekki vera eldra en þriggja mánaða.

Taflan hér að neðan sýnir yfirlit um gildistíma ökuskírteinis í samræmi við aldur umsækjanda.

Aldur umsækjanda Gildistími
65 ára, en ekki orðinn 70 ára    5 ár
70 ára, en ekki orðinn 71 árs 4 ár
71 árs, en ekki orðinn 72 ára 3 ár
72 ára, en ekki orðinn 80 ára 2 ár
80 ára 1 ár

Heilsufarsþættir sem hafa áhrif á öryggi við akstur

Heilsufar hefur áhrif á ökufærni. Ökumaður þarf að taka margar ákvarðanir á sama tíma. Hann þarf á sama tíma að taka við mörgum skilaboðum úr umhverfinu. Hann þarf að ákveða hvar á að staðsetja bílinn, hraðann sem keyrt er á og hvenær þarf að stöðva ásamt mörgu fleiru.

Þeir þættir sem skerða akstursfærni eru: 

  • Þrenging á sjónsviði.
  • Breyting á sjóninni þannig að erfiðara verður að meta hraða og hreyfingu.
  • Skert hæfni til að greina á milli mikilvægra upplýsinga og þeirra sem eru minna mikilvægar úr umhverfinu. 
  • Skert hæfni til að gera marga hluti í einu og á sama tíma meðtekið upplýsingar frá umhverfinu. 
  • Stirðleiki í hálsi og líkama sem minnkar hreyfimöguleika höfuðs, háls og líkama.

Er kominn tími til að hætta að keyra?

Það er mjög einstaklingsbundið hvenær fólk hættir að keyra. Ef þú ert að lenda í þeim aðstæðum sem hér er líst ættir þú að huga að því að stíga skrefið og hætta að keyra.

  • Þú lendir oft í því að vera næstum því búinn að keyra á.
  • Óvenju margar beyglur og rispur eru á bílnum eða á bílskúrshurð.
  • Þú átt erfitt með að meta bil á milli bíla á gatnamótum og í umferðinni.
  • Aðrir bílstjórar flauta oft á þig við aksturinn.
  • Þú villist í umferðinni.
  • Þú átt erfitt með að sjá vegbrúnina þegar horft er beint fram.
  • Viðbragðstími er hægari en áður.
  • Þú átti í erfiðleikum með að færa fótinn af bensíngjöfinni á bremsuna eða ruglast á fótstigum.
  • Þú átt erfitt með að einbeita þér við aksturinn eða fipast auðveldlega.
  • Þú átt erfitt með að snúa höfðinu þegar bakkað er.
  • Þú átt erfitt með að fylgjast með umferðinni á samhliða og aðliggjandi akreinum.
  • Þú færð ítrekaðar viðvaranir frá lögreglu undanfarin tvö ár.
  • Aðstandendur lýsa áhyggjum af akstri þínum.
  • Foreldrar vilja ekki að þú keyrir barnabörnin.

Að hætta akstri hvað þá?

Þegar tekin er ákvörðun um að hætta akstri þarf að huga að því hvernig á haga samgöngum. Þar eru nokkrir kostir í stöðunni.

  • Strætó. Þeir sem hafa færni til að nota strætó geta gert það. Fólk 67 ára og eldri fær verulegan afslátt í almenningssamgöngur.
  • Þeir sem eru 67 ára og eldri geta sótt um akstursþjónustu til félagsþjónustu síns sveitarfélags. Þessa þjónustu þarf að panta með ákveðnum fyrirvara sem verið getur mismunandi eftir sveitarfélögum. Í flestum tilvikum greiðir fólk lágt gjald fyrir þessa þjónustu.
  • Leigubílar. Þegar fólk hættir að reka bíl sparast miklir fjármunir. Hægt er að sjá hvað rekstur bíls kostar á heimasíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Fyrir þær upphæðir má fara allnokkrar ferðir í leigubíl.