Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Slysavarnir 0-5 mánaða

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Börn 0 til 5 mánaða valda ekki slysum sjálf heldur verða slysin þegar að foreldrar og umönnunaraðilar eru ekki vakandi fyrir þeim hættum sem þessum aldri fylgir. Gott er að nota gátlistann til að bæta úr slysavörnum á heimilinu. Hér er að finna helstu slysavarnir fyrir ungabörn.

Fall

Höfuð ungbarna eru hlutfallslega stór og þung, því er meiri hætta á að þau lendi á höfðinu ef þau falla.

  • Hafa þarf eftirlit með börnum á skiptiborði, hjónarúmi og sófum.
  • Nota öryggisólar, s.s. í barnavagni og háum matarstólum.
Bruni

Húð ungbarna er 15% þynnri en húð fullorðinna, því eru þau viðkvæmari fyrir bruna.

Helstu hættur:

  • Heitir drykkir, ef haldið er á barni meðan drukkið er.
  • Heitar matarslettur, ef haldið er á barni meðan eldað er við eldavél.
  • Hitaður matur, athugið hitastigið þarf að vera 37°til að barnið brenni sig ekki.
  • Baðvatn, kjörhitastig fyrir lítil börn er 37°
  • Miðstöðvarofnar, ef rúm barns liggur upp við ofn, geta fætur/hendur rekist í hann.
Köfnun
  • Nota léttar sængur og engan kodda fyrsta árið.
  • Best er að leggja barnið til svefns á bakinu.
  • Rúm og sængurföt fullorðinna auka hættu á köfnun. Einnig ef ungabörn eru látin sofa við hlið fullorðinna.
  • Ungabörn á aldrei að skilja eftir á grjónapúða, í vatnsrúmi eða á brjóstagjafapúða.
  • Ungabarn ætti aldrei að vera skilið eitt eftir með pela.
  • Best er að fjarlægja reimar og bönd úr fatnaði svo þrengi ekki að hálsi barns.
  • Barn má aldrei sofa með snuðkeðju né skartgripi.
  • Gætið þess að gæludýr komist ekki í rúm barns.
Útivera
  • Öruggast er að hafa barnið í beisli frá fyrsta degi í barnavagninum. Sumir barnavagnar eru ekki með festingu fyrir beisli og því ekki hægt að festa barnið. Gott er að setja endurskinsmerki á vagninn.
  • Þar sem barnavagnar uppfylla ekki kröfur um öruggt svefnumhverfi ættu ungabörn ekki að sofa eftirlitslaus úti. Barnavagnar eru aðeins til að flytja börn á milli staða. Barninu er óhætt að sofna í gönguferðinni þar sem það er undir stöðugu eftirliti á meðan á henni stendur.
  • Flugnanet hindrar að kettir og skordýr komist að barninu. Setjið ekki þykk, lokuð teppi yfir vagnopið sem geta hindrað eðlileg loftskipti.
  • Gott er að fylgjast reglulega með barninu meðan á útisvefni stendur.
  • Ef notaður er magapoki er best að fylgja leiðbeiningum framleiðanda um rétta notkun hans til að tryggja öryggi barnsins.
Drukknun
  • Fylgjast á með barni í baði allan tímann.
  • Gott er að setja stama mottu í botn baðsins.
  • Börn undir 12 ára aldri ættu ekki að gæta kornabarns í baði. Þau hafa ekki þroska til að bera þá ábyrgð.
  • Baðsæti eru ekki öryggisbúnaður og því má aldrei líta af barni í slíkum búnaði. Þau má ekki nota fyrr en barnið hefur náð 6 mánaða aldri. Þægilegast er að fylgja leiðbeiningum framleiðanda um rétta notkun.
Barnabílstóll
  • Barn yngra en 1 árs ætti að snúa frá akstursstefnu (afturábak) því höfuð þess er þungt og hálsliðir viðkvæmir.
  • Áður en stóllinn er keyptur er best að kanna hvort hann passi í þá bíla sem á að nota hann í. Ráðlagt er að nota einungis öryggisbúnað sem er viðurkenndur í Evrópu.
  • Ungbarnabílstólar hafa mismunandi líftíma en best er að fylgja leiðbeiningum framleiðanda um hámarks notkunartíma. Kaupum ekki notaðan barnabílstól af ókunnugum.
  • Ekki er gott að láta barn yngra en 6 mánaða sitja lengi í barnabílstól. Það reynir mikið á bak barnsins og getur í sumum tilfellum haft áhrif á öndunina.
  • Gott er að barnið sé í fatnaði sem fellur þétt að líkamanum en ekki í of fyrirferðamiklum galla. Einungis ætti að vera hægt að koma 2 fingrum fyrir á milli barns og beltis.
  • Barn á aldrei að skilja eftir eitt í bíl.

Ungabarn í bílstól

Vagga og rúm
  • Hér má sjá frekari leiðbeiningar um öryggi í svefnumhverfi barna.
  • Nota ætti aðeins dýnuna sem fylgir vöggunni eða ungbarnarúminu til að tryggja öryggi barnsins. Dýnan þarf að passa og sitja þétt upp við rammann.
  • Ungabarn á ávallt að liggja á bakinu og á flatri dýnu án upphækkunar undir höfði þess.
  • Börn ættu ekki að nota kodda fyrsta árið.
  • Í vöggunni ætti aðeins að vera lak yfir dýnunni en ekki pissulak (lak sem er plastað öðru megin).
  • Best er að fylgja leiðbeiningum framleiðanda um rétta notkun vöggunnar eða ungbarnarúmsins. Það skiptir máli þegar kemur að öryggi barnsins.
  • Ungabörn eiga aldrei að sofa í rúmi fullorðinna en það er þeim hættulegt og getur valdið köfnun.
  • Ungbarnahreiður standast ekki ströngustu kröfur um öryggi og því ættu þau aldrei að vera notuð.
  • Ekki er nauðsynlegt að vera með stuðkannt en hann ætti aðeins að nota fyrstu 3-4 mánuðina. Einnig þyrfti að gæta þess að stuðkannturinn standist gildandi staðal EN16780.
  • Best er fyrir börn að sofa í herbergi þar sem hitastigið er 18 til 20°C. Við val á sæng eða værðarpoka er gott taka mið af lengd barnsins og að hitagildið passi við svefnherbergishitann. Sænginn ætti að uppfylla gildandi staðal EN16779 en værðarpokinn EN16781. 
Barn í matarstól
Öryggi á heimili
Öryggi í baði
Öryggi á skiptiborðinu
Svefnumhverfi barna

Upplýsingar um félagsleg réttindi foreldra/forráðamanna barna við slys eða skammvinn veikindi má finna hér.