Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Öryggi í svefnumhverfi barna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Þegar börn eru lögð til svefns þurfa þau að sofa í öruggum búnaði. Vöggur og ungbarnarúm ásamt ferðarúmum eru framleidd með það í huga að barnið sofi eftirlitslaust í nokkra klukkutíma í senn og því eru gerðar sérstaklega strangar kröfur um að engar hættur séu til staðar fyrir barnið. Allskonar annar búnaður er notaður fyrir börn að sofa í en mikilvægt er að foreldrar átti sig á að sá búnaður uppfyllir ekki ströngustu kröfur um öryggi ungra barna þegar þau sofa eftirlitslaus. Hér er listi yfir búnað sem er í lagi að láta ungbarna sofa í undir stöðugu eftirliti en telst ekki öruggur svefnstaður.

  • Barnavagninn
  • Burðarrúmið
  • Burðarpokinn
  • Hreiður
  • Hengirúm/hengi vöggur
  • Tágakörfur (Moses baskets)
Rúm fullorðinna

Rúm fullorðinna er ekki öruggur svefnstaður fyrir ungabörn. Algengt er að foreldrar haldi að best og öruggast sé fyrir ungbarnið að sofa uppi í rúmi hjá þeim en æ fleiri foreldrar kjósa að nota ekki vöggu né ungbarnarúm fyrstu mánuðina.

Hættur í fullorðins rúmum eru dýnur, sængur koddar og bil sem geta myndast við dýnuendann þar sem hún mætir vegg eða rúmgafli. Dýnur í rúmum fullorðinna þurfa ekki að standast öndunarprófun. Þær eru oft mjúkar en ef barn veltur sér yfir á magann er köfnunarhætta af dýnunni.

Koddar og sængur fullorðinna eru of þungar, stórar og þykkar fyrir ungabörn. Litlar líkur eru á að þau getu sparkað sænginni af sér en það getur leitt til ofhitnunar og köfnunar.

Hreiður og burðarrúm

Sumir foreldrar nota burðarrúm eða hreiður til að hafa barnið á milli sín en ekki er öruggt að láta barnið sofa í slíkum búnaði eftirlitslaust.

Með tilkomu hreiðra hefur orðið aukning á því að ungabörn sofi í rúmi fullorðinna. Þar sem ekki er til öryggisstaðall fyrir hreiður þá uppfylla þau ekki ströngustu öryggiskröfur.

Þar sem botninn í hreiðrum er þykkur er ekki ráðlagt að nota þau í ungbarnarúmum þar sem það getur haft áhrif á öndunareiginleika og öryggi dýnunnar.

Vagga/ungbarnarúm

Mikilvægt er að ungbörn sofi í vöggu eða ungbarnarúmi sem uppfyllir gildandi staðal EN1130. Undir þennan staðal falla allar vöggur sem eru undir 90 cm á lengd. Þær eru framleiddar til notkunar fyrstu mánuðina eða þangað til að barnið getur farið að reisa sig upp á hnén. Til eru þrennskonar útgáfur af vöggum sem öruggt er að láta börn sofa í eftirlitslaus.

  • Frístandandi vöggur.
  • Hliðarvöggur. Settar upp við rúm fullorðinna.
  • Vöggur sem gerðar eru fyrir hvort tveggja.

Ungbarnarúm eru með stillanlegum botni. Börn geta notað ungbarnarúmið frá fæðingu. Ungbarnarúmið er notað fyrstu mánuðina með botninn í efri stellingu eða þangað til barnið getur byrjað að reisa sig upp á hnén. Þá þarf að færa botninn niður í lægstu stillingu.

Til eru tvær útgáfur af ungbarnarúmum. Ungbarnarúm með föstum hliðum. Ekki er hægt að taka aðra hliðina af þegar barnið er byrjað að reyna að klifra yfir hana en þá verður barnið að fara yfir í barnarúm. Hin útgáfan af ungbarnarúmum er með hlið sem má fjarlægja þegar barnið er farið að reyna að klifra yfir hana og getur barnið því notað ungbarnarúmið lengur. 

Í vöggum, ungbarnarúmum og ferðarúmum skal einungis nota viðurkenndar dýnur sem uppfylla staðal EN16890. Gæta þarf þess að dýnan sem notuð er í vöggu eða ungbarnarúm sé frá framleiðanda rúmsins/vöggunnar. Til þess að búnaðurinn teljist öruggur þarf að prófa dýnuna í viðeigandi vöggu eða barnarúmi.

Heimagerður búnaður

Þó nokkuð er um að foreldrar búi til eigin vöggur og ungbarnarúm eða noti vöggur sem smíðaðar voru fyrir tugum ára. Þar sem þau uppfylla ekki kröfur um öryggi barna og er ekki ráðlagt að nota þau.

Notaður búnaður

Mikið af gömlum búnaði er enn í notkun en athuga þarf hvort búnaðurinn sé í lagi áður en hann er notaður.

Rúm og vöggur sem framleiddar voru fyrir meira en 20 árum síðan standast ekki núgildandi öryggisstaðal og eru því ekki örugg í notkun. Óhætt er að nota vöggur og barnarúm sem eru yngri en 20 ára ef að allar festingar eru til staðar eða hægt er að panta nýjar frá framleiðanda rúmsins.

Áður en ný dýna er pöntuð frá framleiðanda rúmsins er ráðlagt að mæla innanmál rúmsins. Það er gert til að ganga úr skugga um að nýja dýna smell passi í rúmið en stærð rúma gæti hafa breyst á milli ára. Ekki er ráðlagt að panta dýnur frá dýnuframleiðanda þar sem þær uppfylla ekki öryggiskröfur.

Rúmfatnaður

Lak og rúmföt

Hefðbundin lök hafa ekki áhrif á öndunareiginleika dýnunnar. Ef notað er of stórt lak er hætt við því að barnið flækist í því eða kafni. 

Athugið að rúmfötin séu hvorki lokuð með tölum eða böndum. Saumar þurfa einnig að vera öruggir en hætta getur skapast ef tvinni vefst um fingur eða tær barns.

Dýnuhlíf

Þar sem bleyjur eru orðnar rakadrægari en áður eru dýnuhlífar óþarfar. Betra er að nota næturbleyjur frekar en dýnuhlíf fyrsta árið.

Best er að nota dýnuhlíf sem hefur staðist öndunarprófun dýnunnar. Hægt er að skoða það á heimasíðu framleiðandans. Ef óljóst er hvort að dýnuhlífin standist öryggiskröfur um öndunarleika er betra að sleppa hlífinni.

Pissulak

Pissulök eru gerð fyrir börn eldri en eins árs. Þar sem pissulökin eru þakin plasti öðru megin stafar af þeim köfnunarhætta fyrir ungabörn.

Koddi eða ekki koddi

Ekki er ráðlagt að nota kodda fyrsta árið því hætt er við að ungabörn kafni. Einnig þroskar það betur hálsstyrk barnsins að vera koddalaust. Best er fyrir ungabörn að liggja flöt til þess að hryggur og mjöðm þroskist eðlilega.

Algengt er að taubleyjur eða stykki séu sett undir höfuð barna þegar þau eru lögð til hvílu til að koma í veg fyrir að lakið óhreinkist. Það er ekki öruggt þar sem barnið gæti náð að vöðla stykkinu saman svo að hætt sé við köfnun.

Sæng og værðarpoki

Öruggt er að nota ungbarnasæng sem stenst gildandi staðal EN16779. Ungbarnasængur sem standast staðalinn eru framleiddar fyrir mismunandi hitastig í herbergjum en gott er að velja sæng sem hentar fyrir hitastigið í herberginu þar sem barnið sefur. Mælt er með að hitastig í herbergi ungbarna sé á bilinu 18-20°C. Í leiðbeiningum kemur eining fram í hvað skuli klæða barnið undir sænginni. Einnig þarf að passa að sængin sé ekki of stór fyrir barnið.

Einnig er hægt að nota værðarpoka í staðinn fyrir ungbarnasæng en ekki bæði á sama tíma. Værðarpokinn er öruggur ef hann uppfyllir gildandi staðal EN16781. Líkt og með ungbarnasængina þarf að hafa hitastigið í herbergi ungbarna í huga við val á værðarpoka. Einnig að pokinn sé ekki of stór fyrir barnið.

Stuðkantur

Almennt er óþarfi að nota stuðkannt í ungbarnarúmum. Ef nota á stuðkannt er best að hann standist öryggisstaðal EN16780.

Barnavagn og barnabílstóll

Barnavagninn

Barnavagnar og kerrur eru aðeins hugsuð til þess að flytja börn á milli staða á öruggan máta. Þar sem dýnur í barnavögnum og kerrum uppfylla ekki kröfur um öndunarprófun ættu börn ekki að sofa þar eftirlitslaus. Allir barnavagnar og kerrur þurfa að uppfylla gildandi staðal EN1888.

Tvær gerðir eru til af barnavögnum. Annarsvegar þar sem toppstykkið er lengra en 80 cm og með sérstökum festingum undir dýnunni til að festa beisli í. Beislið hindrar það að barnið falli úr vagninum við að reisa sig upp. Einnig kemur beislið í veg fyrir slys á barninu ef til dæmis vagninn fýkur á hliðina, ekið er á hann eða sá sem er með barnið úti að ganga dettur og tekur barnið með sér í fallinu.

Hinsvegar eru til barnavagnar með burðarrúmi. Þau eru styttri en 80 cm en ekki er gerð krafa um að í þeim séu lykkjur fyrir öryggisbeisli. Ekki er ráðlagt að nota þess gerð í miklu roki og hálku til að koma í veg fyrir fall. Gætið þess að skilja ekki börn eftir eftirlitslaus í burðarrúmsvagni þar sem hætta er á að þau geti dottið úr honum ef þau reisa sig við eða ef vagninn dettur á hliðina.

Beisli

Ef ekki er hægt að festa öryggisbeisli í lykkjur á vagnbotninum skal ekki nota öryggisbeisli. Öryggisbeisli sem ekki er fest í vagnlykkjur heldur ekki barninu og er því ekki öruggt.

Best er að nota aðeins beisli í barnavagninn sem uppfyllir kröfur EN1310. Notið aðeins beisli sem eru framleidd til notkunar í barnavagna og fylgið leiðbeiningum framleiðanda um notkun þeirra.

Regnplöst, flugnanet, stykki og teppi fyrir opum barnavagna

Regnplöst á barnavagna þurfa ekki að uppfylla öryggisstaðla. Athugið hvort það séu lítil göt á regnplastinu sem viðhalda súrefnisflæði inn í vagninn. Öruggu regnplöstin hylja aðeins vagninn sjálfan og eru ekki fyrir vagnopinu. 

Barnabílstóllinn

Þegar velja á ungbarnabílstól er gott að kanna á heimasíðu framleiðanda hvort að stóllinn henti bílnum. Barnabílstólar eru misöruggir í árekstrum.

Bílaframleiðendur þurfa að prófa barnabílstóla í sínum helstu bílategundum í Evrópu en bílstólarnir fá síðan einkunn A, B eða C. Öruggast er að velja bílstól sem fær einkunn A eða að hann passi fullkomlega í þennan bíl. Athugið að lengd barnsins segir til um stærð bílstólsins, ekki þyngd eða aldur.

Takið barnið úr barnabílstólnum um leið og komið er á leiðarenda. Ef stóllinn er látinn standa á jafnsléttu getur sofandi barn í stólnum fundið fyrir öndunarerfiðleikum.

Hlustunar- og vöktunarbúnaður ungbarna

Barnapían - hlustunartæki

Til eru þrjár tegundir af hlustunarbúnaði eða barnapíum eins og það er stundum kallað. Barnapían (e. audio monitor), barnapían með myndavél og þráðlaus barnapía (e. wifi monitor).

Þau eru ekki nauðsynleg til að tryggja öryggi í svefnumhverfi barna. Besta vörnin er að fylgja leiðbeiningum um öryggi í svefnumhverfi barna.

Hlustunartækið (e. audio monitor) hlustar eftir gráti eða hreyfingum barns. Það gefur frá sér bylgjur sem geta haft áhrif á heilsu barnsins ef það er ekki notað rétt. Tækið þarf að vera staðsett 1,5- 2 metrum frá barninu. Ef tækið er ekki með batteríi, heldur er stungið í samband, þarf  snúran að vera nógu langt frá barninu svo það nái ekki í hana. Setjið ekki tækið í vögguna eða barnavagninn. Athugið að ekki má nota öll hlustunartæki utandyra en það ætti að koma fram í leiðbeiningum tækisins.

Þráðlausa barnapíutækið hefur ekki skaðleg áhrif á heilsu barnsins ef það er notað rétt. Best er að fylgja ráðleggingum framleiðandans um staðsetningu og notkun.