Fara á efnissvæði

Rör í eyrum

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Rör í eyrum eru lítil plasthylki sem sett eru í hljóðhimnuna og mynda þar lítil göng. Vökvi getur safnast saman fyrir innan hljóðhimnuna í miðeyranu og valdið þar óþægindum. Markmið röra er að hleypa vökva úr eyranu í stað þess að hann safnist upp og eigi í hættu að sýkjast í kjölfarið.  

Rörin detta vanalega sjálf úr og er misjafnt eftir hversu langan tíma það gerist. Almennt er talað um að rörin detti úr eftir 6-12 mánuði, þegar eyrun hafa jafnað sig á aðgerðinni og eyrnabólgunum. Oft detta rörin úr án þess að einstaklingur verði var við það.

Ástæða fyrir inngripi er endurtekin vökvasöfnun í miðeyra og/eða sýking í vökvanum. Helstu einkenni vökvasöfnunar er hella og skert heyrn. Yfir lengri tíma getur skert heyrn haft áhrif á málþroska barna. Ef sýking kemur í vökva er talað um að viðkomandi sé með eyrnabólgu

Aðgerð

Aðgerðin er aðallega framkvæmd á börnum og fer fram í stuttri svæfingu. Rörin eru sett í hljóðhimnuna, farið í gegnum eyrnagöngin. Þegar barnið er vaknað og búið að jafna sig getur það farið heim. Í lang flestum tilfellum jafna börn sig fljótt eftir aðgerðina og svæfinguna.

Mikilvægt er að börn fasti fyrir aðgerð en fara þarf eftir fyrirmælum læknisins varðandi föstu.  

Eftir aðgerð

Bað/sturta: Barnið má fara í bað/sturtu eftir aðgerð en mikilvægt að forðast það að fá vatn í eyrun fyrstu dagana eftir aðgerð.

Ferðalög: Engar frábendingar eru fyrir því að ferðast með flugvél eftir aðgerð. Rörin geta komið í veg fyrir þrýstingsójafnvægi sem veldur jafnan hellum og koma því í veg fyrir verki sem fylgja því. 

Næring: Eftir aðgerð má barnið borða eins og vanalega.

Skóli/leikskóli: Hafa barn heima frá skóla/leikskóla í 1-2 daga eftir aðgerðina, ef það er hitalaust og hresst. 

Sund: Barn má fara í sund 2 vikum eftir aðgerðina, mikilvægt þó að forðast það að kafa mikið í vatni fyrst um sinn. 

Verkjastilling eftir aðgerðina: gefa má bæði paracetamól stíl/mixtúru og íbúprófen mixtúru - sjá skammtastærðir hiti hjá börnum

Áhættuþættir aðgerðar

Þetta er lítil og stutt aðgerð sem framkvæmd er í svæfingu. Áhættuþættir sem geta komið í kjölfarið er: 

Sýking í eyra, sem hægt er að meðhöndla með sýklalyfjum. 

Gat á hljóðhimnu. Að jafnaði detta rörin sjálfkrafa úr eyranu eftir ákveðinn tíma og þá á hljóðhimnan að gróa saman aftur. Í örfáum tilfellum nær hljóðhimnan ekki að gróa saman aftur og er þá alltaf lítið gat í henni (gerist hjá 1/100 börnum). Að jafnaði hefur þetta ekki áhrif á heyrn einstaklings en getur valdið aukinni sýkingarhættu. Ef koma tíðar sýkingar þá getur þurft enduraðgerð til þess að loka gatinu. 

Eyrnabólgur. Þegar rörin eru dottin út getur komið aftur fram vökvasöfnun í miðeyra og/eða eyrnabólgur. Tíðar eyrnabólgur koma aftur hjá 1 af hverju 3 börnum eftir rör ísetningu. Í sumum tilfellum þarf að setja aftur rör í eyrun. 

Hvenær skal leita aðstoðar?

  • Auknir verkir í eyrum sem minnka ekki við verkjalyf
  • Blóð eða gröftur lekur úr eyrum 
  • Hár hiti og verkur í eyra 

Finna næstu heilsugæslustöð hér.