Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Ráð til að draga úr líkum á blóðtappa á löngum ferðalögum

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Kyrrseta hefur neikvæð áhrif á líkamann. Vöðvar og liðir geta stífnað og aukin hætta er á blóðtappa og bjúgmyndun til dæmis á fótum. Góður undirbúningur fyrir ferðalagið og makrvissar aðgerðir á leiðinni draga úr líkum á blóðtappa.

Fyrir ferðalagið

Fyrir löng ferðalög er gott að undirbúa sig vel. Til að draga úr líkum á blóðtappa og bjúgmyndun er gott að huga að eftirfarandi: 

  • Taka eina hjartamagnýl daginn áður en ferðast er og eina daginn sem ferðast er. Þetta minnkar segamyndun í blóðinu og dregur þar með úr líkum á blóðtappa
  • Drekka vel af vatni daginn áður
  • Hreyfa sig fyrir ferðalagið til dæmis taka góðan göngutúr, gera teygjur eða styrktaræfingar.
  • Stuðningssokkar minnka líkur á bjúgsöfnun á fótum

Á ferðalagi

Til að draga úr líkum á blóðtappa í löngum bíl- eða flugferðum þarf að huga að eftirfarandi:

  • Drekka vel
  • Vera í þægilegum fötum sem ekki þrengja að
  • Vera á hreyfingu eins mikið og kostur er.

Nokkrar æfingar sem hægt er að gera á ferðalagi. Listinn er ekki tæmandi en markmiðið er að halda sér á hreyfingu. Best er að gera æfingarnar rólega og taka tillit til annarra farþega.  

Upphafsstaða
Sitja með beint bak, iljar á gólfi, 90° beygja á hnjám, axlir slakar og lófar hvíla á lærum. Gott er að gera hverja æfingu nokkrum sinnum á hvora hlið. 

Hnjályftur
Hnjám lyft upp til skiptis. Hné haldið uppi í u.þ.b. 2 sekúndur áður en það er látið rólega í upphafsstöðu. Ef gott pláss er í sætinu er einnig hægt að draga hnén að kvið til skiptis. Þá er höndum tekið saman utan um hné eða í hnésbót og hnéð dregið rólega í átt að kvið. 

Ökklahringir
Öðrum fætinum lyft upp og ökklinn hreyfður í hringi. Fyrst réttsælis og svo rangsælis. Síðan endurtekið á hinum fætinum.  

Upp á tá og hæl
Lyfta tám upp en láta hæl vera við gólf. Síðan rúlla fætinum rólega fram, lyfta svo hæl en láta táberg vera við gólf. Endurtekið til skiptis. 

Horfa til beggja hliða
Höfði snúið rólega í átt að öxl, stöðu haldið í einn andadrátt áður en höfði er snúið að hinni öxlinni.  

Axlahringir
Öxlum lyft upp í átt að eyrum, síðan aftur á bak, niður, fram og loks aftur upp. Eftir nokkrar endurtekningar er gott að gera jafn margar í öfuga átt.   

Halla undir flatt
Höfði hallað í átt að annarri öxl, eins og beina eigi eyranu að öxlinni. Stöðunni haldið í einn andadrátt, höfði hallað svo aftur í upphafsstöðu og staldrað þar við áður en æfingin er endurtekin hinum megin. 

Handabök á axlir
Handarbökum lyft frá lærum og þeim lyft að öxlum svo að lófar snúi fram. Olnbogum síðan lyft rólega fram á meðan handarbök hvíla áfram á öxlum.  

Búkvinda
Öxlum og höfði snúið rólega í eina átt en mjaðmir og hné vísa fram. Endurtekið til skiptis sitthvorum megin. 

Ef tækifæri gefst er gott að standa upp, teygja létt úr sér, ganga örlítið um. 

Að ferðalagi loknu

Þegar flug- eða bílferðinni er lokið er gott að huga að eftirfarndi:

  • Vera á hreyfingu, nota stiga í stað rúllustiga, ganga í stað þess að standa á bretti og nota öll tækifæri til að hreyfa sig
  • Teygja léttilega á stífum vöðvum
  • Drekka vel af vatni