Fara á efnissvæði

Ertu sólklár?

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Sólin er það fyrirbæri sem gerir okkur mögulegt að lifa hér á jörðinni. Hún iljar okkur, sendir okkur orku, birtu og þegar hún skín á húðina framleiðir húðin D vítamín sem er okkur nauðsynlegt. En sólin getur líka brennt. Húð hefur náttúrulega vörn gegn geislum sólarinnar sem hún byggir upp smám saman þegar við erum úti í sólinni. Húðin dökknar og það veldur því að við þolum sólina lengur. 

Húð fólks er mismunandi með tilliti til þess hversu hætt því er við sólbruna. Gjarnan er talað um fjórar húðgerðir:

Ljós/hvít húð    Fólk sem hættir til að brenna. Hér er um að ræða norrænt fólk sem er með ljóst eða rautt hár.
Ljósbrún húð Fólk sem verður brúnt án þess að brenna í hóflegri sól. Dökkhært fólk sem upplifir sig ekki viðkvæmt fyrir sólinni.
Brún/gul húð Fólk sem þolir sól vel. Fólk sem er frá Asíu og mið og suður Ameríku.
Dökk brún húð Fólk sem þolir sól mjög vel og brennur sjaldan. Hér er um að ræða fólk frá Afríku og Suður Asíu.

Þetta á við um fullorðna. Húð barna er viðkvæmari fyrir sól og ungbörn með ljósa eða ljósbrúna húð ættu aldrei að vera óvarin úti í sól.

Á heitum sólríkum dögum er einnig möguleiki á að skaða augun, ofhitna og ofþorna. Þá skiptir ekki máli hvernig húðgerðin er. Börnum er sérlega hætt við þessum fylgikvillum sólarinnar.

Útfjólublá geislun

Það eru útfjólubláu geislar sólarinnar sem geta skaðað húðina. Þessi geislun er mæld víða um heim. Hér á landi eru það Geislavarnir ríkisins sem eru með sívöktun á útfjólublárri geislun. Talað eru um UV stuðul og er hann á skalanum frá 0 og upp í 10. En hvað merkja þessar tölur og hvernig getum við notað þær til að auka öryggi okkar í sólinni? 

Taflan sýnir áhættu UV geislunar á mismunandi húðgerðir:

UV stuðull  Ljós/hvít húð  Ljósbrún húð Brún Húð    Dökk brún húð   
1 Lítil Engin Engin Engin
2 Lítil Engin Engin Engin
3 Meðal Lítil Engin Engin
4 Meðal Lítil Engin Engin
5 Mikil Meðal Lítil Engin
6 Mikil Mikil Meðal Lítil
7 Mjög mikil Mikil Meðal Meðal
8 Mjög mikil Mikil Meðal Meðal
10 Mjög mikil Mikil Mikil Meðal
  • Engin áhætta
  • Lítil áhætta merkir að þú þarft ekki að hafa áhyggjur af að sólbrenna þó þú sért óvarinn úti.
  • Meðal áhætta merkir að óhætt er vera úti án varnar í sólinni í eina til tvær klukkustundir. Fólk með viðkvæma húð ætti að nota sólkrem með varnarstuðli 15. Gott að nota sólgleraugu.
  • Mikil áhætta merkir að hætta er á að brenna á 30 til 60 mínútum óvarinn í sólinni. Best er að verja sig gegn sólinni með léttum fatnaði, sólhatti, sólgleraugum og setja sólkrem á þau svæði sem ekki njóta varnar af fatnaði.
  • Mjög mikil áhætta merkir að þú brennur á 20 til 30 mínútur ef þú ert óvarinn í sólinni. Best er að halda sig frá beinu sólarljósi og verja sig gegn sólinni með léttum fatnaði, sólhatti, sólgleraugum og setja sólkrem á sig.

Nálægð við vatn magnar geislun sólarinnar og að vera á snjó í sól tvöfaldar geislunina. Við þessar aðstæður er sérlega mikil þörf á aðgát en jafnvel þó ekki skíni sól getur fólk brunnið á jöklum.

Á Íslandi er UV stuðullinn afar sjaldan hærri en 6.

Sólvörn

 Aðferðir til að verjast skaðlegum geislum sólarinnar:

  • Besta leiðin er að klæðast ljósum, léttum fötum á heitum sólardögum og gleyma ekki sólhatti ef menn eru langtímum saman úti. Fólk sem býr í sólarlöndum hefur tileinkað sér að vera innandyra eða í skugga yfir bjartasta tíma dagsins til að forðast geisla sólarinnar. Á ferðum til sólarlanda er ágætt að taka upp siði heimamanna í þessum efnum og leita í skuggann á heitasta tíma dagsins.
  • Best er að vera á hreyfingu í sólinni. Verst er að liggja kyrr og láta sólina skína stöðugt á sama hluta líkamans.
  • Nota sólgleraugu sem eru CE merkt með breiðum örmum. 
  • Nota sólkrem eftir þörfum. Hér getur þú lesið meira um sólkrem.

Af hverju að forðast sólbruna?

Sterkt samband er á milli þess að brenna í sólinni og fá húðkrabbamein síðar á ævinni. Húðkrabbamein eru algengustu krabbameinin á Íslandi. Tíðni þeirra hefur aukist það mikið á undanförnum áratugum að sagt er að tala megi um faraldur. Hættulegasta tegundin af húðkrabbameini er sortuæxli og samkvæmt Krabbameinskránni eru um 500 Íslendingar á lífi sem hafa fengið þessa tegund krabbameins.

Ástæðu aukningarinnar er sennilega að leita í auknum frítíma og tíðari ferðum Íslendinga á suðrænar slóðir. Ljóst er að ekki fækkar slíkum ferðum og því full ástæða til að minna á að fara varlega í sólinni. Greinilegt samband er á milli þess að sólbrenna sem barn og að fá sortuæxli síðar á ævinni. Sérstaklega þarf því að gæta þess að börnin okkar sólbrenni ekki. Sólargeislar ættu aldrei að skína á óvarin ungbörn.