Fara á efnissvæði

Börnin og sólin

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Börn njóta þess yfirleitt að leika sér úti í sól og góðu veðri. En sólin getur brennt og húð barna er sérlega viðkvæm fyrir sólbruna. Þeim mun yngri sem börnin eru þeim mun viðkvæmari er húðin. Ungbörn ættu alls ekki að vera óvarin í sólinni hvorki hér á landi eða annars staðar. Best er að klæða börnin í létt bómullarföt í ljósum litum á heitum sólríkum dögum og bera sólkrem á þá staði sem óvarðir eru. 

Þegar farið er í frí til sólríkari landa með börn er gott að undirbúa ferðina vel. Til að auka líkurnar á ánægjulegri ferð þar sem enginn sólbrennur þarf að huga að þrennu.

  • Klæðnaður: Hafið með létt og ljóslituð föt á barnið. Gott er að hafa með sér þunnar buxur og síðerma boli. Auk þess er nauðsynlegt að hafa sólhatt með stórum börðum til að skyggja á andlit barnsins. Ef ætlunin er að vera í sundlaugum eða sjóböðum er ágætt að hafa tvo hatta með. Annan til að nota í vatninu og hinn fyrir þurra staði. Fyrir börn sem eru í kerru er gott að hafa með sér sólhlíf á kerruna til að skyggja á barnið.
  • Sólkrem: Hafið meðferðis sólkrem. Það sparar ykkur tíma við að leita að heppilegu sólkremi við framandi aðstæður. Kaupið sólkrem fyrir alla í fjölskyldunni fyrir allar aðstæður sem þið þurfið. Sólkrem fyrir börn ætti að vera án ilmefna með varnarstuðli (SPF) að minnsta kosti 30. Ef ætlunin er að vera með barnið í sundi eða sjó þarf varnarstuðullinn (SPF) að vera 50 til 50+.
  • Sólgleraugu: Hafið með sólgleraugu á alla. Fyrir barnið getur verið gott að binda teygju í gleraugun sem kemur aftur fyrir háls barnsins svo þau týnist síður. Flestum krökkum finnst spennandi að nota sólgleraugu og þau má oft finna í skemmtilegum litum með myndum.

Í vatni eða sjó

Þegar verið er með börn á strönd, í sundi eða í vatni þarf að hafa sérstaka gát. 

  • Notið sólkrem með sólvarnarstuðli (SPF) 50+
  • Berið sólkremið á barnið 30 mínútum áður en farið er í sólina
  • Jafnvel sólkrem sem er vatnsþolið máist af ef barninu er þurrkað með handklæði þegar það kemur úr vatninu. Því skal alltaf endurnýja sólarkremið þegar upp úr komið eða klæða barnið í föt sem hylja það. 
  • Flestar sundlaugar á sólarströndum er með saltvatni og því er mikilvægt að skola það af barninu þegar það kemur uppúr. Saltið eykur áhrif sólarinnar á húðina sem brennur fyrr.
  • Athugið að barn getur brunnið þó það sé skýjað. Athugið UV stuðulinn á því svæði sem þið eruð og gerið ráðstafanir í samræmi við það. Inn á vef finnsku veðurstofunnar má sjá spá um UV geislun um allan heim.
  • Látið barnið nota sólhatt í vatninu líka og sólgleraugu. Til eru sérstök sundgleraugu með sólvörn.

Í heitum löndum

Þegar farið er með börn til heitari landa þarf að huga að fleiru en sólbruna þegar útivera í hita og sól er annars vegar. Börn eru sérlega viðkvæm fyrir ofþornun, hitaslagi og skemmdum í augum. Því þarf að gæta þess að þau drekki nóg bæði af vatni en líka ávaxtasafa, séu alltaf með sólhatt úti og sólgleraugu.