Fara á efnissvæði

Skimun fyrir leghálskrabbameini

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur
Leghálsskimanir

Öll sem eru með legháls á aldrinum 23 – 29 ára fá boð í skimun fyrir leghálskrabbameini á 3 ára fresti og frá 30 – 64 ára á 5 ára fresti. Boð berast frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana. Skimunin er framkvæmd af ljósmóður eða hjúkrunarfræðingi á heilsugæslunni. Hægt er að bóka tíma á „Mínum síðum“ á Heilsuvera.is eða hafa samband við þá heilsugæslu sem hentar best.

Ráðlagt er að fara reglulega í skimun þó að þú hafir fengið HPV bólusetningu. HPV bólusetning minnkar líkur á leghálskrabbameini en getur aldrei komið að fullu í veg fyrir það.

Einkenni leghálskrabbameins

Forstig leghálskrabbameins er einkennalaust. Önnur einkenni geta verið:

  • Blæðing eftir samfarir
  • Óþægindi við samfarir
  • Milliblæðingar af saklausum toga eru þó oftast ástæða óreglulegra blæðingar
  • Óreglulegar blæðingar

Leghálsstrok

Við skimunina er tekið strok úr slímhúð leghálsins með mjúkum litlum bursta. Sýnatakan sjálf tekur innan við 2 mínútur og er í flestum tilfellum sársaukalaus. Sumum finnst sýnatakan óþægileg tilhugsun og finna til óþæginda við hana.

Við rannsókn á sýninu er athugað hvort Human papilloma veira (HPV) sé til staðar en hún orsakar frumubreytinga í leghálsi. Í flestum tilfellum nær líkaminn að vinna á veirusýkingunni. Um 10% fá viðvarandi sýkingu sem valdið getur frumubreytingum og síðar krabbameini í leghálsi sé ekkert að gert. Þau sem eru með legháls finna ekki fyrir því að þau séu með HPV veiru og því er mikilvægt að mæta í skimun.

Kostir skimunar

  • Betri batahorfur
  • Því fyrr sem frumubreytingar finnast því fyrr er hægt að fylgjast með þróun þeirra og grípa inn í ef þörf krefur.

Ókostir skimunar

  • Óþægindi við sýnatöku – sumum finnst skimunin óþægileg þó lítill sársauki fylgi henni.
  • Áhyggjur meðan beðið er eftir niðurstöðum – Það tekur um 4 vikur að rannsaka sýni.

Niðurstaða skimunar

Niðurstaða úr sýnatöku kemur inn á mínar síður á island.is og á ,,mínar síður" heilsuvera.is

Neikvæð niðurstaða merkir að ekki fanst HPV veira við skoðun á sýninu. Ef niðurstaða er neikvæð berst boð í næstu skimun eftir 3 eða 5 ár en það fer eftir aldri.

Jákvæð niðurstaða merkir að HPV veira hafi fundist í sýninu. Í framhaldi af því er viðkomandi boðið sérstakt eftirlit eða meðferð eftir því hver niðurstaðan var.

  • Vægar frumubreytingar – fylgst með þróun breytinganna með fleiri sýnatökum en í flestum tilfellum ganga þær til baka, það er að líkaminn vinnur á sýkingunni.
  • Alvarlegar frumubreytingar eru oft meðhöndlaðar með keiluskurði til að fjarlægja sýkta svæðið en hafi krabbamein þegar myndast er boðið upp á meðferð. Meðferðin getur verið fólgin í skurðaðgerð, geisla- eða lyfjameðferð.

Stöku sinnum getur komið fyrir að ekki sé hægt að rannsaka sýnið, til dæmis ef það reynist of lítið. Í þeim tilfellum er ráðlagt að bóka nýjan tíma í sýnatöku.

Mögulegt er að fá leghálskrabbamein, jafnvel þó niðurstöður skimana hafi verið eðlilegar. Því er mikilvægt að hafa samband við heilsugæslu eða kvensjúkdómalækni ef óeðlilegir verkir í neðri hluta kviðarhols, óvenjulegar blæðingar eða breytt útferð gera vart við sig.

Nánari upplýsingar

Frekari upplýsingar má finna á vef landlæknis og Samhæfingarstöð krabbameinsskimana.

Upplýsingar um tímabókun og opin hús í leghálsskimanir má nálgast á vefsíðu samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana.