Brjóstakrabbamein (e. breast cancer) er algengasta krabbameinið meðal kvenna og greinast um 235 konur á hverju ári hér á landi. Regluleg skimun fyrir brjóstakrabbameini getur lækkað dánartíðni vegna sjúkdómsins meðal kvenna um 30%.
Ávallt er hætta á að krabbamein dreifist frá brjósti yfir í önnur líffæri. Því fyrr sem krabbamein í brjóstum er greint því minni líkur eru á að það nái að dreifa sér og batahorfur eru betri. Í reglulegri skimun með röntgenmyndatöku af brjóstum (e. mammography) er mögulegt að greina brjóstakrabbamein áður en einkenni koma fram.
Konur á aldrinum 40-69 ára fá boð í brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti og konur á aldrinum 70 til 74 ára fá boð á þriggja ára fresti. Boð koma frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana.
Karlar geta fengið brjóstakrabbamein en um 1 karl greinist á móti hverjum 100 konum.
Brjóstamyndataka
Tilgangur skimunar er að greina sem fyrst krabbamein í brjóstum kvenna til að draga úr dánartíðni. Tvær myndir eru teknar af hvoru brjósti frá tveimur mismunandi sjónarhornum og eru brjóstin pressuð saman á milli tveggja platna í örfáar sekúndur á meðan röntgenmynd er tekin. Hægt er að taka mynd hvort sem konan situr eða stendur. Myndatakan tekur um 5 mínútur. Mikilvægt er að konur með brjóstapúða segi frá því áður en röntgenmyndin er tekin.
Kostir skimunar
- Betri batahorfur
- Einfaldari meðferð
- Minni þörf á lyfjameðferð
- Lægri dánartíðni vegna brjóstakrabbameins
Ókostir skimunar
- Óþægindi við skoðun – sumum finnst skoðunin óþægileg þar sem pressa þarf brjóstin vel saman til að ná góðri röntgenmynd af brjóstunum.
- Fölsk neikvæð niðurstaða – myndataka getur reynist neikvæð þó æxli sé til staðar, til dæmis ef það er hulið brjóstvef þannig að það sést ekki.
- Fölsk jákvæð niðurstaða – þá lítur út fyrir að á myndinni sé æxli til staðar sem reynist svo vera, til dæmis eðlilegur vefur eða góðkynja hnútur.
- Áhyggjur
Engin skimun er fullkomin. Ef hnútur finnst í brjósti eða breyting verður á brjóstum er ráðlagt að hafa samband við lækni til að fá frekara mat. Læknirinn getur vísað áfram í frekari rannsóknir ef þörf er á.
Niðurstöður brjóstamyndatöku
Niðurstaða úr brjóstamyndatökunni kemur inná mínar síður á island.is og á heilsuvera.is innan þriggja vikna. Ef niðurstaða er eðlileg berst boð í næstu skimun eftir 2 eða 3 ár en það fer eftir aldri.
Tveir röntgenlæknar, að lágmarki, lesa úr myndunum. Ef eldri myndir eru til þá eru þær bornar saman við þær nýju og metið hvort breytingar hafa orðið á brjóstvef.
Ef vísbendingar eru um breytingar á brjóstvef er hringt í viðkomandi og boðinn tími í sérskoðun brjósta.
Sérskoðun
Skoðunin tekur um klukkustund. Velkomið er að koma með aðstandanda til stuðnings, ef aðstæður leyfa.
Eftirfarandi er oftast gert í sérskoðun brjósta:
- Læknisskoðun – Þreifað er eftir breytingum á brjóstum og í handarkrikum. Spurt er meðal annars út í fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein og fyrri sjúkdóma tengda brjóstum.
- Brjóstamyndataka – Teknar eru nýjar röntgenmyndir af brjóstunum.
- Ómskoðun – Brjóstið er ómskoðað með sónartæki til að meta meinið betur.
- Ástunga – Þörf getur verið á að gera ástungu til að ná vefjasýni úr meini til nákvæmari greiningar.
Ef niðurstöður sérskoðunar eru eðlilegar, það er að ekki var um krabbamein að ræða, berst boð í næstu skimun eftir 2 eða 3 ár en það fer eftir aldri .
Greinist krabbamein í sérskoðun er viðkomandi boðin meðferð.
Nánari upplýsingar
Ef einkenni koma frá brjósti skal hafa samband við næstu heilsugæslu.
Upplýsingar um tímabókanir og opnunartíma má finna á vefsíðu brjóstamiðstöðvar Landspítala.
Við bráðum einkennum frá brjóstum er hægt að fá ráðgjöf frá hjúkrunarfræðingi brjóstamiðstöðvar með því að senda skilaboð í gegnum samskiptahluta Landspítala appsins.
Skimunin fer fram á eftirtöldum stöðum:
- Brjóstamiðstöð Landspítala, Eiríksgötu 5, 101 Reykjavík
- Sjúkrahúsinu á Akureyri, (inngangur C)
- Skimun víða um land er auglýst sérstaklega á vefsíðu samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana.