Eyrun framleiða eyrnamerg til þess að vernda eyrnagöngin frá óhreinindum. Mikil myndun eyrnamergs getur þó valdið vandræðum. Ef hlustin lokast vegna eyrnamergs þá getur það valdið minnkun á heyrn eða tímabundnu heyrnarleysi þar sem hljóðbylgjurnar komast ekki lengur að hljóðhimnunni.
Sumir mynda harðan eyrnamerg sem getur þá valdið sársauka þar sem hann þrýstir á hlustina. Hlustin deilir taugum með kokinu og því getur þetta valdið ertingu og/eða hósta í kokinu.
Einkenni uppsafnaðs eyrnamergs
- Hella fyrir eyra
- Heyrnarskerðing
- Suð í eyra (e. tinnitus)
- Svimi eða ógleði (vegna vertigo)
- Verkir í eyra
Orsök
- Bólga í ytra eyra
- Fyrri saga um aðgerð á eyra
- Húðvandamál í eða við eyra
- Mikill hárvöxtur í eyra
- Notkun eyrnapinna eða annað sem sett er inn í eyru
- Notkun heyrnartækja
- Sár í eyrnagöngum
- Þröng eyrnagöng
Börn eru líklegri til að fá upphleðslu eyrnamergs í eyra þar sem eyrnagöng eru minni og þrengri en hjá fullorðnum einstaklinum.
Meðferð
- Eyrnaskolun. Ráðlagt er að nota eyrnadropa í eyrað í 3-5 daga áður en eyrnaskolun á heilsugæslustöð er reynd.
Fylgikvillar
- Sýking í ytra eyra (otitis externa)
- Tímabundin heyrnarskerðing
Hvað get ég gert?
Lang oftast hreinsa eyrun eyrnamerginn út sjálfkrafa. Ef ekki er hægt að:
- Nota eyrnadropa eða olíur sem leysa upp eyrnamerg. Hægt er að kaupa dropa í apóteki. Gott er að nota dropa í 3-5 daga og allt að fimm sinnum á dag. Oft dettur eyrnamergurinn þá sjálfur út en annars er hægt að skola eyrað með sturtuhaus.
- Gott er að setja dropa í eyrun þegar einstaklingur er liggjandi, þá dreifist olían.
- Skipta um sápur og hárvörur ef kláði og óþægindi eru í eyra.
- Ekki er ráðlagt að nota dropa í eyru ef áverki er á eyra eða ef hljóðhimnan er sprungin.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leitaðu til heilsugæslunnar ef:
- Bólga er í kringum eyra
- Ef eitt af ofangreindum einkennum eru í báðum eyrum
- Einkenni eru ekki batnandi eftir fimm daga meðferð með eyrnardropum
- Mikill verkur í eyra og búið að taka verkjalyf og reyna dropa í eyra
Finna næstu heilsugæslu hér.