Heyrn sem tapast vegna hávaða kemur ekki aftur. Þá er alveg sama hvort við höfum gaman af hávaðanum sem skemmir heyrnina eða ekki. Þó heyrnartæki geti hjálpað þeim sem tapar heyrn þá koma þau ekki í stað heyrnar. Áður fyrr var heyrnartap vegna hávaða einkum tengt ákveðnum störfum þar sem innleiddar hafa verið reglur um notkun heyrnahlífa til að verja heyrnina. Í dag er yfir milljarður ungmenna um allan heim í hættu á að tapa heyrn vegna notkunar á heyrnartólum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að helmingur fólks á aldrinum 12 - 35 ára noti að staðaldri hættulegan styrk í heyrnartólum sínum og sé þar með í áhættu að tapa heyrn.
Hvað getur þú gert?
Hver og einn getur verndað sína heyrn og foreldrar gegna lykilhlutverki í að leiðbeina börnum sínum. Hér koma nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja varðveita heyrnina og hlusta af öryggi.
- Stilltu hljóðstyrknum í hóf. Ef þú ert með tónlist í eyrunum er hún of hátt stillt ef sá sem ætlar að tala við þig þarf að hækka róminn. Veldu vönduð heyrnartól sem passa vel. Til eru vönduð heyrnartól sem útiloka umhverfishljóð, með því móti er hægt að nota minni hljóðstyrk en heyra samt vel tónlistina eða það sem hlustað er á. Gott viðmið er einnig að stilla hljóðstyrkinn aldrei nema 60% af því sem hægt er. Almennt séð er betra fyrir heyrnina að nota stór heyrnartól frekar en þau sem stungið er í hlustina.
- Takmarkaðu tímann sem þú notar heyrnartól við 1 klukkustund á dag. Tónlist sem stanslaust kemur í eyrun í gegnum heyrnartól reynir mikið á heyrn. Þó hljóðstyrk sé stillt í hóf er stöðugt áreiti á heyrnina ekki gott og til að verja heyrnina er nauðsynlegt að takmarka tímann sem heyrnartól eru notuð.
- Notaðu eyrnatappa eða heyrnartól ef þú ferð á skemmtistaði, tónleika, íþróttaleiki eða aðra staði þar sem búast má við hávaða. Eyrnatappar eru til sölu í lyfjabúðum. Fylgdu leiðbeiningum um hvernig á að nota þá.
- Gefðu eyrunum hvíld. Takmarkaður þann tíma sem þú ert í hávaða. Ef mögulegt er reyndu að koma þér í skjól frá miklum hávaða. Haltu þig fjarri hátölurum á samkomum.
- Hafir þú áhyggjur af því að vera farin að tapa heyrn leitaðu til læknis. Heyrnartap kemur smám saman og getur verið lúmskt. Ef þú þarft oft að hvá og heyrir ekki það sem fólk segir við þig er ástæða til að láta skoða hvort heyrnin sé að tapast.