Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Farsæld barna

Kaflar
Útgáfudagur

Öll börn og foreldrar eiga rétt á að fá þá þjónustu sem þau þurfa, þegar á þarf að halda. Til þess að styðja við að þau fái rétta þjónustu, frá réttum aðilum á réttum tíma geta þau óskað eftir samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Hugtakið farsæld vísar í aðstæður þar sem barn getur náð fullum þroska og heilsu á eigin forsendum.

Tengiliður farsældar

Öll börn og foreldrar/forráðamenn hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur.

Frá fæðingu og þar til barn hefur nám í leik- eða grunnskóla er tengiliður starfsmaður heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar í heilbrigðisumdæmi barns. Sama á við ef þörf er á samþættingu þjónustu á meðgöngu.

Þegar barn er við nám í leik-, grunn- eða framhaldsskóla er tengiliður starfsmaður skólans þar sem barn er við nám. Ef það á ekki við er tengiliður starfsmaður félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem barn á lögheimili.

Tengiliður farsældar er:

  • Starfsmaður í nærumhverfi barns og foreldra þess.
  • Sá aðili sem styður við samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.
  • Sá sem veitir fjölskyldunni upplýsingar um þjónustu, tryggir aðgang að frummati, styður við samþættingu á fyrsta stigi þjónustu og kemur upplýsingum áfram ef þörf er á samþættingu á öðru stigi.

Beiðni um samþættingu þjónustu er eyðublað sem foreldrar og/eða barn fylla út þar sem óskað er eftir að þjónusta við barn verði samþætt. Beiðnin heimilar tengiliðum, málstjórum, þjónustuveitendum og þeim sem veita þjónustu í þágu farsældar barns að vinna upplýsingar um barn til að tryggja því skipulagða og samfellda þjónustu.

Málstjóri farsældar

Þurfi barn fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma skal sveitarfélag þar sem barn á lögheimili tilnefna málstjóra þjónustu í þágu farsældar.

Sveitarfélag skal velja málstjóra sem starfar við félagsþjónustu sveitarfélagsins eða á þeim sviðum þar sem þarfir barns liggja. Málstjóri skal hafa þekkingu á þjónustu í þágu farsældar barna.

Málstjóri farsældar er:

  • Starfsmaður sem starfar við félagsþjónustu sveitarfélagsins eða þar sem þarfir barns liggja.
  • Sá sem stýrir stuðningsteymi á öðru og/eða þriðja stigi þjónustu í þágu farsældar barna.
  • Sá sem styður fjölskyldur við samþættingu þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi.
  • Aðili sem hefur hagsmuni barns að leiðarljósi og er í samstarfi og samráði við foreldra og barn.