Fara á efnissvæði

Sálræn fíkn

Kaflar
Útgáfudagur

Lengi eftir að líkaminn er hættur að hrópa á nikótín geta sumar aðstæður kveikt í fólki löngun til að neyta tóbaks. Tóbaksþörfin snýst um meira en nikótín. Lítið en skýrt dæmi um það eru rannsóknir sem sýna að þegar fólk með reykingaþörf fær að velja milli nikótínlausrar sígarettu og hreins nikótíns í vökvaformi, velja mörg nikótínlausu sígarettuna. Þetta er stundum kallað sálræn fíkn.

Líkamleg fíkn hverfur nokkrum vikum eftir að fólk hættir að nota tóbak. Sálræn fíkn getur skotið upp kollinum árum saman. Þess vegna er mikils vert að þekkja hana og búa sig undir uppákomur sem geta espað upp löngunina til neyta tóbaks.

Reykingar og tengsl

Reykingar hafa öðlast þann sess í lífi margs reykingafólks að tengjast fjölmörgu öðru í lífinu. Þessi tengsl skipta miklu máli þegar hætta á reykingum.

Þannig tengja mörg reykingar því að slaka á. Þó að nikótín hafi í sjálfu sér meiri örvandi áhrif en slakandi þá fylgir þeirri tilfinningu að fullnægja nikótínþörfinni slíkur léttir að fjölmörgum finnst reykurinn afslappandi. Þessi skyndiáhrif vega iðulega þyngra en heilsubótaráhrifin til lengri tíma af að hætta að reykja. Þegar reykingaþörfin hellist yfir finnst sumum oft kostirnir við að reykja og ókostirnir við að hætta miklu meiri en 5 mínútum fyrr.

Tenging af þessu tagi milli reykinga og slökunar veldur því að hugsunin um reyk skýtur léttilega upp kollinum þegar eitthvað bjátar á og taugarnar þenjast. Auk þess hefur reykingafólk oft tamið sér ýmsa siði sem valda því að við sum verk eða athafnir þarf að reykja meira en við önnur. Til dæmis eiga sum eftir að fá löngun til að reykja eftir matinn árum saman eftir að þau hætta. Önnur eiga erfitt með að fara í veiðiferð án tóbaksins. Meðal margra hefur reykurinn þar að auki félagslegt hlutverk.

Þessi tengsl eru einnig vel þekkt hjá þeim sem nota reyklaust tóbak. Vera þarf á varðbergi í hinum ýmsu aðstæðum þar sem áður var notað tóbak og hugsa fyrir staðgenglum. 

Umbun

Tengslin verða sérlega sterk ef tiltekin umbun er annars vegar. Þetta þýðir þá líka að tengslin slakna þegar maður tekur burt umbunina sem nikótínið felur í sér. Þetta gerist af sjálfu sér þegar fram líða stundir en það er líka hægt að flýta fyrir að „venja sig af þessu“. Þetta er það sem fólk gerir þegar það notar lyf til að draga úr áhrifum nikótínsins meðan það notar tóbak, eða þegar það grípur sogrör þegar það hefði annars fengið sér sígarettu. Fólk getur líka tekið upp nýja siði þegar gamlar tóbaksstundir renna upp og veitt sér umbun fyrir nýju siðina. Til dæmis veitt sér verðlaun þriðja hvern dag sem farið er í gönguferð síðdegis í staðinn fyrir að neyta tóbaks. Eða gert eitthvað sem er hollt og gott í sjálfu sér, t.d. að venja sig á að draga djúpt andann og teygja sig í hvert sinn sem taugarnar eru þandar.

Sorg sem fylgir því að hætta

Mörg líta á tóbakið sem vin. Það er ekki auðvelt að ákveða að snúa baki við vini sínum en það getur orðið heldur auðveldara ef maður gerir sér grein fyrir hvaða þýðingu tóbakið hefur og reyna svo að finna eitthvað í þess stað.

Ekki er óalgengt að fólk, sem hættir að nota tóbak, finni til sorgar, mismikillar, eða finni annars konar sálræn viðbrögð áður en, þegar og eftir að tóbaksleysið hefst. Meðal margra hefur tóbakið lægt taugaspennuna og leitt hana burtu þegar mikið hefur mætt á. Þegar ekki er lengur hægt að halla sér að tóbakinu til að lægja eða leiða burt tilteknar tilfinningar finnst sumum slíkar tilfinningar magnast og verða verri viðureignar en áður.

Það besta sem hægt er að gera er að gefa eigin tilfinningum meira svigrúm en vant er. Leyfa tilfinningunum dálítið að leika lausum hala, taka á slíkri útrás af virðingu og hugsa sem svo að þetta gangi allt saman yfir ef þetta fær að vera eins og það er. Hægt er að láta þau sem þú umgengst mest vita að þú verðir kannski eitthvað trekktari meðan breytingin gengur yfir og að það sé fullkomlega eðlilegt. Best er ef aðstandendur og vinir geta tekið þér af meiri skilningi og umburðarlyndi en vanalega. Tekið tillit til þess að þú sért að sinna því mikilsverða verkefni að losna algjörlega við tóbakið.

Tóbaksleysið þýðir líka að breyting verður á lífsstíl. Slík breyting hefur tilfinningasveiflur í för með sér. Einum kafla er lokið og nýr hefst.

Auk þess hefur tóbaksnotkun mikið félagslegt gildi hjá mörgum og ýmsar aðstæður vekja upp löngunina.


Hægt er að fá meðferð og stuðning við að hætta tóbaksnotkun á netspjalli hér á síðunni og í síma 5131700.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína