Fara á efnissvæði

Lyfjaaðstoð

Kaflar
Útgáfudagur

Mörgum reynist vel að nota lyf til að aðstoða sig við að losna við tóbakið. Til eru tvær gerðir lyfja í þeim tilgangi. Nikótínlyf sem fást án lyfseðils í lyfjaverslunum og nikótínlaus lyf sem eru lyfseðilsskyld og því er nauðsynlegt að leita til læknis til að fá þeim ávísað. Með því að nota lyf má losna við verstu líkamlegu fráhvarfseinkennin vegna þess að líkaminn fær úr lyfjunum efnin sem hann er háður.

Áður en þú ferð að nota lyf í þeim tilgangi að hætta tóbaksnotkun er mælt með því að þú fáir leiðbeiningar um notkun þeirra. Hikaðu ekki við að biðja um þær hvort sem er á heilsugæslunni þinni eða á netspjallinu hér á síðunni og í síma 5131700.

Nikótínlyf

Með nikótínlyfjum gefast ólíkir möguleikar til að hætta tóbaksnotkun

  • Að nota nikótínlyf sem eins konar neyðarúrræði eftir að menn hafa smádregið úr tóbaksnotkun og loks hætt alveg. Ef þörfin fyrir nikótín verður alveg yfirþyrmandi er mun betra að fá sér nikótínlyf t.d. nikótínmola, heldur en sígarettu eða „lummu“.
  • Að nota nikótínlyf sem hjálparmeðal til að minnka tóbaksnotkunina jafnt og þétt áður en endanlega er hætt. Plástur, tyggjó, öndunartæki, mola, tungurótartöflu og munnsprey henta vel í þessu tilfelli. Sýnt hefur verið fram á að samsett nikótínlyfjameðferð virkar best, eða nota nikótínplástur og annað nikótínlyfjaform með s.s. mola, tyggjó eða munnsprey.
  • Að nota nikótínlyfið beinlínis í staðinn fyrir tóbak. Þá nota menn það nikótínlyf sem best hentar hverjum og einum.
Nikótínplástur

Plásturinn gefur samfelldan nikótínskammt. Með plástrinum berst nikótínið smám saman inn í gegnum húðina og dregur þannig úr tóbaksþörfinni. Hægt er að fá 16 og 24 tíma plástra sem til eru í þremur mismunandi styrkleikum. Sólarhringsplásturinn kemur í veg fyrir tóbaksþörf og er ætlaður þeim sem vakna á nóttunni til að reykja eða sofa með tóbak í vör. Dagplásturinn (16 tíma) hentar þeim sem ekki nota tóbak á næturnar. Nýr plástur er settur á að morgni og þess gætt að setja plásturinn á mismunandi staði til að forðast ertingu á húð. Plásturinn skal setja fyrir ofan mitti.

 

Nikótíntyggjó

Nikótíntyggjó dregur strax úr tóbakslönguninni. Nikótínið fer í gegnum slímhúðina í munninum, út í blóðið og áfram til heilans þar sem það dregur úr fráhvarfseinkennum. Að tyggja hægt, hvíla (þá er tuggan geymd í kinninni milli þess sem tuggið er), tyggja hægt, verkar best. Annars fer nikótínið beint niður í maga og hefur engin áhrif á fráhvarfseinkennin. Rangri notkun fylgja aukaverkanir svo sem erting í hálsi, brjóstsviði og stundum magaóþægindi. í raun á að tyggja nikótíntyggjóið sem minnst, en allt nikótín er búið í tyggjóinu eftir 20-30 mínútur og þá er hægt að nota það eins og venjulegt tyggjó, ekki fyrr. 

Tungurótartöflur

Lítil tafla sem er sett undir tungu og þaðan frásogast nikótínið hægt á um þremur mínútum. Þú átt ekki að sjúga, tyggja eða kyngja töflunni þar sem það dregur úr virkni hennar og getur valdið aukaverkunum.

Munnsogstafla

Munnsogstaflan er eins og brjóstsykur sem þú sýgur hægt. Taflan er sogin þar til sterkt bragð kemur fram, þá er hún geymd í kinninni. Þegar dregur úr sterka bragðinu á að sjúga töfluna á ný. Hún gefur þér nikótín á sambærilegan hátt og tungurótartaflan. Munnsogstöfluna á að geyma úti í kinninni milli þess sem hún er sogin, en líkt og hjá nikótíntyggjóinu þá veldur hún ertingu í hálsi, vélinda og maga ef taflan er sogin jafnt og þétt og endar öll í meltingarkerfinu. Nikótínið úr töflunni þarf að frásogast í gegnum slímhúð í munni til að virka á fráhvarfseinkennin.

Innsogslyf

Innsogslyfið er í plaströri sem er sett í munnstykki. Það er sogið á svipaðan hátt og sígaretta. Nikótínið frásogast um slímhúð í munni á svipaðan hátt og tyggigúmmíið en berst ekki til lungnanna. Þar sem það líkir eftir reykingaathöfninni tekur það bæði á líkamlegu og andlegu fráhvarfi.

Munnúði

Munnúði virkar á 60 sekúndum og slekkur því snöggt á nikótínþörfinni. Nikótínið frásogast hratt um slímhúð í munni á svipaðan hátt og tyggigúmmíið en berst ekki til lungnanna. Hylkið er á stærð við lítinn farsíma og passar því auðveldlega í tösku eða vasa. Lyfinu er sprautað upp í munninn og mælt er með að kyngja ekki í nokkrar sekúndur eftir að því er sprautað í munninn svo lyfið virki sem best. 

Nefúði

Nefúði er sterkasta gerð nikótínlyfja sem er í boði. Nikótínið frásogast hratt um slímhúð nefsins og hentar því vel þeim sem finna fyrir miklum fráhvarfseinkennum eða reykja mjög mikið. Nefúðinn getur valdið staðbundinni ertingu í nefi til að byrja með, en það líður fljótt hjá. 

Hægt er að fá meðferð og stuðning við að hætta tóbaksnotkun á netspjalli hér á síðunni og í síma 5131700.